Bændablaðið - 07.09.2017, Page 8
8 Bændablaðið | Fimmtudagur 7. september 2017
Fjölmennur fundur Búnaðarsambands Húnaþings og Stranda og Félags sauðfjárbænda í Skagafirði:
Sauðfjárbúin standa frammi fyrir verulegu tekjutapi
Bændur hvarvetna úr héraði,
af Ströndum, Húnavatnssýslum
og Skagafirði troðfylltu Félags-
heimilið á Blönduósi þegar sauð-
fjárbændur blésu þar til fundar á
miðvikudagskvöld í síðustu viku.
Vel á fjórða hundrað manns mættu
til fundarins og voru umræð-
ur fjörugar þrátt fyrir að þungt
hljóð væri í bændum vegna þeirr-
ar alvarlegu stöðu sem uppi er í
sauðfjárbúskap um þessar mundir.
Sláturleyfishafar bjóða um 35%
lægra verð fyrir afurðir en í fyrra
þegar verð lækkaði að jafnaði um
10% miðað við árið þar á undan.
Mikil tekjuskerðing blasir því við
sauðfjárbændum líkt og farið var yfir
á fundinum.
Frummælendur voru þau Ágúst
Andrésson, formaður Landssamtaka
sláturleyfishafa og framkvæmdastjóri
Kjötafurðastöðvar KS á Sauðárkróki,
Oddný Steina Valsdóttir og
Unnsteinn Snorri Snorrason frá
Landssamtökum sauðfjárbænda og
Sigríður Ólafsdóttir, ráðunautur á
rekstarsviði Ráðgjafarmiðstöðvar
landbúnaðarins.
Varð ekki til á einni nóttu
Ágúst nefndi í sinni framsögu að
sú alvarlega staða sem við væri að
etja um þessar mundir hefði ekki
orðið til á einni nóttu. Aðdragandann
mætti rekja nokkur ár aftur í tímann
og ýmsir óhagstæðir þættir í ytra
umhverfi skiptu þar sköpum, m.a.
hefði útflutningur svo gott sem
algerlega brugðist á liðnum árum.
Markaðir sem áður hefði verið flutt
út á, svo sem Rússland og Noregur,
lokuðust og fríverslunarsamningur
milli Íslands og Kína virtist enn sem
komið er aðeins virka í aðra áttina.
Ágúst sagði það, eftir á að hyggja,
yfirsjón að hafa ekki tekið vandann
fastari tökum fyrr, en ef til vill hafi
menn ekki viljað trúa því að allt færi
á versta veg.
Ágúst ræddi um birgðir sem til
væru af kindakjöti í landinu nú í
upphafi sláturtíðar, en þær námu
um 2.000 tonnum um þarsíðustu
mánaðamót, júlí-ágúst. Vænti hann
þess að töluvert hefði tekist að saxa
á þær undanfarnar vikur og með
bjartsýni að leiðarljósi væntu menn
þess að þær væru komnar niður í um
1.200 tonn um nýliðin mánaðamót.
Þessi vandi hefði blasað við
mönnum að áliðnum síðasta vetri
og þá þegar hefðu menn byrjað að
vekja á honum athygli, þ.e. í hvað
stefndi með haustinu. Lítið hefði
þokast, en afar brýnt væri að taka
málið föstum tökum nú til að koma
í veg fyrir að sama staða væri upp á
teningnum að ári. Hann hefði sjálfur
á árinu 2008 verið talsmaður þess að
afnema útflutningsskyldu, en vegna
þeirrar erfiðu stöðu sem við væri að
eiga nú talaði hann fyrir því að taka
hana upp að nýju, tímabundið t.d. til
tveggja ára. Með því mætti koma í
veg fyrir offramboð á lambakjöti á
markaði innanlands. Ljóst væri þó
að ráðherra ætlaði sér ekki að fara
þá leið.
Mikið tekjutap blasir við
sauðfjárbændum
Um 420 sauðfjárbú eru á Norðurlandi
vestra og Ströndum. Fram kom í
máli Sigríðar Ólafsdóttur ráðunautar
að búin standi frammi fyrir mikilli
tekjuskerðingu nú í haust miðað
við þá verðskrá sem lögð hefur
verið fram ofan á 10% skerðingu
síðastliðið haust. Samkvæmt hennar
útreikingum nemur tekjutapið á
meðalbú um 1,5 milljónum króna
á ári. Ljóst sé því að bændur muni
ekki ná endum saman.
Varpaði Sigríður upp á fundinum
útreikningum sínum varðandi
sauðfjárbú af ýmsum stærðum, 100
kinda búi, 500 og 1.000 og er það
sama upp á teningnum hjá öllum,
við blasir tekjutap. Minnst er það
á smæstu búunum, um 320 þúsund
króna tap á ári, 1,5 milljónir króna
á 500 kinda búinu og 3,2 milljónir
á 1.000 kinda búum. Sigríður sagði
rekstrargrunn búa af þeirri stærð
horfinn. Við það bætist afleidd áhrif,
umsvif þjónustu af ýmsu tagi við
bændur mun dragast saman. Staðan
í héraðinu snerist því ekki eingöngu
um sauðfjárbændur og þeirra
tekjulækkun heldur samfélagið allt.
Viljum sjá heildarlausnir
Þau Oddný Steina Valsdóttir,
formaður LS, og Sindri
Sigurgeirsson, formaður
Bændasamtaka Íslands, fóru yfir
stöðu viðræðna við stjórnvöld og
voru í raun allt annað en bjartsýn á
gang mála. Sindri nefndi að menn
vildu sjá heildarlausnir, lausnir sem
dygðu til framtíðar. Tillögur ráðherra
landbúnaðarmála væru ekki til
þess fallnar, ríkisvaldið einblíndi á
lausnir til að draga úr framleiðslu,
sem vissulega væri eðlilegt, en
horft væri algerlega framhjá
markaðsþættinum. Nauðsynlegt væri
að taka á birgðavandanum, að öðrum
kosti mætti allt eins gera ráð fyrir að
sauðfjárbændur bönkuðu upp á hjá
stjórnvöldum strax aftur næsta haust
með sama vanda í farteskinu.
Kúvending sem kemur ekki til
greina
Þá hefði það hleypt illu blóði
í forystumenn bænda þegar
stjórnvöld kröfðust þess á fundi
sama dag og Blönduósfundurinn
var haldinn að samhliða þeim
aðgerðum sem farið yrði í nú til að
bæta stöðuna yrðu þeir að fallast
á að núgildandi búvörusamningar
yrðu endurskoðaðir. Þar væru um
að ræða kúvendingu, sem alls ekki
kæmi til greina. Þeim tillögum
sem Bændasamtökin kynntu
stjórnvöldum á fundinum var fálega
tekið þar á bæ.
Fram kom í máli Oddnýjar Steinu
að tilfinning sín væri sú að stjórnvöld
ætluðu sér ekki að gera neitt í málinu,
skaðinn væri skeður og bændur
yrðu bara að standa þetta af sér með
einhverjum hætti, hrunferli blasti
því við æði mörgum. „Staðan er allt
annað en skemmtileg, en við verðum
að horfast í augu við hana, það verður
fækkun, annað er óhjákvæmilegt,“
sagði hún.
Stjórnvöld hafa ekki val
Margir tóku til máls í almennum
umræðum, m.a. Teitur Björn
Einarsson, alþingis maður Sjálfstæðis-
flokks í Norðvesturkjördæmi, sem
sagði stjórnvöld ekki hafa neitt val,
þau yrðu að taka á málum og stuðla
að því að lausn fyndist. Um væri
að ræða efnahagslegar hamfarir og
stjórnvöld bæru sína ábyrgð, bændur
gætu ekki setið einir í súpunni. Teitur
Björn sagði það vissulega rétt að
tíminn hefði nýst illa og hann skildi
vel þann pirring sem væri meðal
bænda vegna þess. Nú þyrfti að taka
á og nýta þau tæki sem virkuðu.
Lilja Rafney Magnúsdóttir,
þingmaður VG í Norðvesturkjördæmi,
fór einnig yfir stöðu mála og fyrri
fundi og umræður um vandann og
nefndi að svo virtist sem enginn
vilji væri til að leysa birgðavandann,
honum ætti bara að vísa inn í
framtíðina. Fannst henni fráleitt að
nýta þetta alvarlega ástand til að
hrófla við gildandi búvörusamningi
og setja mál í algjört uppnám. Sjálf
hefði hún ekki á reiðum höndum
töfralausnir en mikilvægt væri að
taka þverpólitískt á málum og lenda
því.
Eru sláturleyfishafar að gefast
upp á að selja vöruna?
Margir þeirra bænda sem til
máls tóku á fundinum spurðu
hvort sláturleyfishafar væru að
gefast upp á markaðsmálunum, en
fram hafði komið hjá Ágústi að
innanlandsmarkaður fyrir lambakjöt
næmi um 6.500 tonnum á ári. Veltu
menn fyrir sér hvort ekki mætti með
góðu og sameiginlegu átaki stækka
þann markað. Einnig þótti bændum
sæta furðu að undanfarið hefði á
samfélagsmiðlum verið vakin athygli
á að vörur af ákveðinni tegund skorti í
verslanir. Framsetning vörunnar væri
líka á stundum heldur óaðlaðandi.
Spurt var hvort menn væru að gefast
upp á að selja vöru sauðfjárbænda.
Breyting í verslunarháttum
Ágúst sagði lítinn hluta vörunnar
seldan frosinn í pokum, sem vissulega
væri ekki skemmtileg pakkning. Batt
hann vonir við að tilkoma Costco á
íslenskum markaði myndi færa mál
til betri vegar og hrista upp í markaði.
Erfitt hefði verið að eiga við helstu
samkeppnisaðila bandaríska risans,
þar sem helst hefði verið óskað
eftir vöru sem hægt væri að selja
á tilboðsverði. Costco óskaði eftir
ákveðnum skurði og framsetningu á
vörunni sem væri með öðrum hætti
en áður hefði tíðkast. „Gamaldags“
framsetning sem fundarmenn hefðu
í nokkrum mæli agnúast út í myndi
vonandi heyra sögunni til.
Innanlandsmarkaður er
mikilvægastur
Innanlandsmarkaðurinn væri sauð-
fjár framleiðendum langmikilvæg-
astur, en á honum væri mikið
framboð af öðru kjöti, m.a. kjúklingi
og svínakjöti, þar sem slátrað væri í
hverri viku. Kjötneysla væri einnig
almennt að dragast saman og
ákveðinn hluti landsmanna væri af
erlendu bergi brotinn og ekki vanur
lambakjöti. „Allt tekur þetta frá
okkur,“ sagði hann.
Þá kom fram ákveðinn ótti við
að í kjölfar hins mikla tekjutaps og
yfirvofandi fækkun á sauðfé myndu
margir bregða búi með tilheyrandi
erfiðleikum í hinum dreifðari byggð-
um, byggðum sem síst mættu við að
fólki fækkaði. /MÞÞ
FRÉTTIR
Vel á fjórða hundrað manns mættu til fundarins á Blönduósi og voru umræður fjörugar þrátt fyrir að þungt hljóð
væri í bændum vegna þeirrar alvarlegu stöðu sem uppi er í sauðfjárbúskap um þessar mundir. Myndir / MÞÞ
„Hundakjöt. Hundakjöt. Hundakjöt,“ sagði Heidi
Laupert, bóndi í Örnólfsdal í Borgarfirði, á fund-
inum í Félagsheimilinu á Blönduósi í liðinni viku.
Orðin féllu um leið og Heidi tíndi upp hvern bit-
ann af öðrum úr KS-plastpoka sem geymir frosið
súpukjöt.
Hvorki innihaldið né umbúðirnar þótti henni aðlað-
andi og virðist sem flestir fundarmanna hafi deilt þeirri
skoðun með henni ef marka má viðtökurnar sem hún
fékk er hún hélt tölu á umræddum fundi.
Bar Heidi KS-pokann saman við umbúðir utan af
þekktum hundamat og þótti ólíku saman að jafna, sá
síðarnefndi væri mun smekklegri en sá með frosna
kjötinu sem ætlað væri til manneldis. /MÞÞ
Hundakjöt eða súpukjöt?
Ágúst Andrésson, framkvæmdastjóri
Konurnar hlustuðu af athygli, en létu
þó ekki verk úr hendi sleppa.
Það var greinilegt á fasi manna að
mikil alvara er á ferðum.