Bændablaðið - 07.09.2017, Síða 44
44 Bændablaðið | Fimmtudagur 7. september 2017
Haft er eftir enskum sautjándu
aldar rithöfundi að Guð hefði
eflaust getað skapað betri ber
en jarðarber en einfaldlega ekki
gert það. Jarðarber eru ekki ber
í grasafræðilegum skilningi. Þau
ilma vel eru falleg á litinn, sæt á
bragðið og líkjast gimsteinum í
útliti
Áætluð landbúnaðarframleiðsla á
heimsvísu af jarðarberjum árið 2016
er milli 11,5 og 12,5 milljón tonn.
Auk þess sem talsvert er ræktað af
jarðarberjum í heimilisgörðum og
tínt í náttúrunni. Áætlanir gera ráð
fyrir að framleiðsla á jarðarberjum í
heiminum eigi eftir að aukast talsvert
á næstu árum og áratugum.
Ekki eru til opinberar tölur um
framleiðslu á jarðarberjum í Kína en
áætlað að framleiðsla þar árið 2016
hafi verið um 3,5 milljón tonn. Í
Bandaríkjunum var framleiðslan um
1,4 milljón tonn, Tyrkland er í þriðja
sæti með um 400 tonn og Spánn er
í því fjórða og framleiddi um 300
tonn. Þar á eftir koma Egyptaland,
Mexíkó, Rússland, Japan, Suður-
Kórea, Pólland, Þýskaland og Ítalía
með framleiðslu frá tæpum 300 tonn-
um og niður í 150 tonn árið 2016.
Kínverjar eru stærstu útflytjend-
ur jarðarberja í heiminum en ekki
liggja fyrir opinberar magntölur um
útflutninginn. Bandaríkin flytja út
næstmest, um 1,5 milljón tonn af
ferskum, niðursoðnum og frystum
jarðarberjum. Útflutningur á jarðar-
berjum er einnig mikill frá Tyrklandi
og Spáni.
Mestur er innflutningur á jarðar-
berjum til Bandaríkjanna, ríflega 1,6
milljón tonn, auk þess sem Bretland
og lönd Evrópusambandsins flytja
einnig inn mikið magn jarðarberja.
Hagstofa Íslands tekur ekki saman
tölur og framleiðslu á jarðarberjum
á Íslandi en eftir því sem næst verð-
ur komist var hún um 100 tonn árið
2016. Sama ár voru flutt inn tæp 448
tonn af jarðarberjum og fyrstu sex
mánuði 2017 voru flutt inn tæp 410
tonn. Árið 2016 var mest flutt inn
frá Spáni og Hollandi og fyrstu sex
mánuði 2017 var mest flutt inn frá
Spáni og Bandaríkjunum.
Sala á íslenskum jarðarberjum
það sem af er þessu ári er svipuð og
á sama tíma á síðasta ári, um 75 tonn.
Innflutningur á jarðarberjum frá
Bandaríkjunum jókst gríðarlega í
maí 2017 en hríðféll frá Spáni. Án
efa má rekja aukinn innflutning
fyrstu sex mánuði 2017 til opnunar
Costco hér á landi enda eru fersk
innflutt jarðarber vinsæl í verslun-
inni.
Ættkvíslin Fragaria
Jarðarber eru af rósaætt og tilheyra
ættkvíslinni Fragaria sem telur tutt-
ugu tegundir og fjölda undirtegunda
og ræktunaryrkja. Ólíkar tegundir
villtra jarðarberja finnast víða um
heim en aðallega á norðurhveli. Sú
jarðarberjategund sem mest er rækt-
uð bæði til landbúnaðarframleiðslu
og í görðum er blendingur sem kall-
ast Fragaria × ananassa.
Ber jarðarberjaplantna eru ekki
ber samkvæmt skilgreiningu grasa-
fræðinnar heldur samaldin sem
myndast í blómum með mörgum
frævum og mynda mörg fræ. Aldinin
myndast við að blómbotninn þrútnar
og verður kjötkenndur. Stærð aldin-
anna er mismunandi eftir tegund-
um og ræktunarafbrigðum, oftast
rauð en einnig hvít eða ljósbleik.
Fræin, eða litlu dökku blettirnir utan
á jarðarberjum, líkjast aftur á móti
litlum hnetum og hafa myndast af
sinni frævunni hvert.
Jarðarber eru jarðlægar, skriðular
og jurtkenndar plöntur. Þrír til
fimmtíu sentímetrar að hæð, eftir
tegundum og ræktunarafbrigðum,
og fjölga sér með fræjum eða
jarðrenglum. Krónublöð blómanna
eru fimm og hvít. Blómin ein eða
tvíkynja, með fræfli eða fræfum eða
fræfli og fræfum eftir tegundum.
Upp af gildum jarðstöngli með
trefjarót vaxa upprétt, stilklöng og
þrífingruð blöð sem eru tígul- eða
öfugegglaga og sagtennt.
Nafnahjal
Í rómönskum málum er heiti berj-
anna dregið af latneska orðinu
fraga sem merkir jarðarber. Fraga
er skylt sögninni fragro sem merkir
að ilma eða anga, samanber enska
orðið fragrant. Á spænsku nefnast
jarðaber fresón, á frönsku fraise og
á ítölsku fragola. Portúgalska orðið
fyrir jarðarber er morango. Indíánar
Norður-Ameríku kalla jarðarber
wuttahimneash sem þýðir hjarta-
lagað ber með fræjum.
Á ensku nefnast þau strawberries
sem þýðir beinlíns stráber og gæti
nafnið tengst því að berin voru oft
ræktuð í beði með strá yfirlagi eða
að við uppskeru voru berin stund-
um þrædd upp á strá og seld sem
ber á strái. Á Norðurlandamálum
og í þýsku bera jarðarber svipað
nafn og á íslensku og tengist nafnið
vaxtarlagi plöntunnar. Á norsku
og dönsku kallast þau jordbær,
á sænsku jordgubben en á þýsku
Erdbeere.
Flokkun jarðarberja
Flokkun tegunda innan ættkvíslar-
innar Fragaria er fremur flókin og
fer eftir erfðum og sameiginlegri
litningatölu þeirra. Grunngerðir
litninganna eru sjö en hins vegar
eru margfeldi litningatalanna
mismunandi. Sumar tegundir eru
til dæmis tvílitna og með tvö sett af
sjö litningum og til eru fjór-, fimm-
, sex-, átt- og tíulitna tegundir sem
hafa 70 litninga.
Dæmi um tvílitna tegundir eru
F. bucharica, F. pentaphylla og F.
gracilis sem eru upprunnin í Kína,
F. daltoniana, F. nubicola en F.
rubicola kemur frá Himalajafjöllum.
F. iinumae er frá austanverðu
Rússlandi og Japan, F. nipponica
kemur frá Japan en tegundin F. nil-
gerrensis er upprunin í Suður- og
Suðaustur-Asíu. F. yezoensis finnst
í Norðaustur-Asíu og F. vesca
finnst villt víða á norðurhveli og
villt íslensk jarðarber eru af þeirri
tegund. F. viridis og F. x bifera sem
er blendingur F. vesca × viridis
finnst villtur í Evrópu og Mið-Asíu.
Fjórlitna tegundir eru F.
moupinensis frá Kína, F. orientalis
frá Austur-Asíu og Síberíu austan-
verðri.
F. × bringhurstii er fimmlitna
blendingur frá strönd Kaliforníu og
F. moschata sexlitna tegund sem
upprunin er í Evrópu.
Garðjarðarber, sem eru mest
ræktuðu jarðarber í heimi, eru áttlitna
ræktunarblendingur F. × ananassa
en F. chiloensis og F. virginiana
eru áttlitna tegundir frá vestan- og
norðanverðum Bandaríkjunum.
Undirtegundir F. chiloensis, F. c.
subsp. lucida og F. c. subsp. pacifica
finnast í Alaska, Bresku Kólumbíu,
Washington, Oregon og Kaliforníu
og F. c. subsp. sandwicensis á
Havaíeyjum. F. chiloensis subsp.
chiloensis forma chiloensis og F.
chiloensis subsp. chiloensis forma
patagonica eru frá Argentínu og Síle
og áttlitna og eins konar tilbrigði við
tegundina F. chiloensis.
F. cascadensis frá Oregon í
Bandaríkjunum eru tíulitna tegund
og það eru blendingarnir F.×
Comarum og F. × vescana einnig.
Litningafjöldi sumra ræktunaraf-
brigða, sem kallast hybrid á ensku en
bastarðar á íslensku, er ótilgreindur.
Dæmi um það eru F. × Comarum,
stundum kölluð varalitajarðarber
vegna varalitarauðslitarins, og fjöldi
bastarða eða ræktunarafbrigða F.
vesca, F. moschata, F. viridis og F.
nubicola.
Allar tegundir jarðarberja bland-
ast auðveldlega saman við frjóvgun
og eru jarðarber í ræktun oft mjög
skyldleikaræktuð.
Stærð og lögun jarðarberja fer
eftir tegundum og ræktunarafbrigð-
um. Yfirleitt eru tegundir með fleiri
litninga kröftugri og með stærri berj-
um en tegundir með lága litninga-
tölu. Aftur á móti eru minni ber oft
bragðmeiri en stærri ber.
Hvít jarðarber
Hvít jarðarber, svokölluð ananas-
jarðarber, hafa notið talsverðra
vinsælda hér á landi undanfarin
ár. Berin eru hvít eða ljósbleik og
með rauðum fræjum og sagt er að
bragðið af þeim sé blanda af jarðar-
beri og ananas. Ananasjarðarber eru
blendingur F. chilonsis og F. virginia
og ræktunarafbrigði sem var sett á
markað í Þýskalandi 1. apríl 2000
og töldu því margir að um aprílgabb
væri að ræða.
Vilmundur Hansen
vilmundur@bondi.is
HELSTU NYTJAPLÖNTUR HEIMSINS
Mynd/LbhÍ-ghp.