Bændablaðið - 29.08.2019, Side 51
Bændablaðið | Fimmtudagur 29. ágúst 2019 51
nemur 0,3 dönskum krónum eða
um 5,5 íslenskum krónum á hvert
kíló mjólkur.
Horfir í hverja krónu
Lars segir að það sé nauðsynlegt
að horfa í hverja krónu og þó svo
að búið sé rekið með myndarlegum
hagnaði núna þá þurfi að eiga fyrir
mögulegum áföllum. Hann fylgist
afar vel með fóðurkostnaði búsins
og veit upp á hár hvað hver kýr étur
fyrir mikla upphæð á degi hverjum.
Gróffóðurkostnaðurinn liggur
fyrir og einnig birgðirnar af því
en hann notar sérstakt birgða- og
fóðurstjórnunarforrit til að stýra því
hvernig fóðruninni er háttað á degi
hverjum. Hann getur þannig stýrt
því af mikilli nákvæmni að lítið sem
ekkert fari til spillis og ekki sé verið
að eyða peningum í moð.
Lars segir að kúabændur sem
séu að framleiða mjólk sem
sveiflast samhliða breytingum á
heimsmarkaðsverði þurfi að vera
undir breytingar búnir og telur
hann að afurðastöðvaverð þurfi að
haldast í að lágmarki 2,5 dönskum
krónum, um 46 íslenskum krónum,
eigi mjólkurframleiðsla að geta
dafnað í Danmörku.
Tekur við flóttafólki
Samhliða stækkun búsins hefur
Lars þurft að ráða til sín fólk og
hefur nú á 12 ára tímabili aukið við
starfsmannafjöldann úr 3 í 15! Nú er
hann með 11 fastráðna starfsmenn,
3 nemendur í starfsnámi auk þess að
vera með ungling í vinnu sem kemur
eftir skóla og grípur í verk.
Aðspurður segir hann að Trine
hafi í raun aldrei unnið við búið,
hún hafi síðasta áratuginn haft í
nægu að snúast í kringum börnin
þeirra sex en þau eiga bæði börn
frá fyrri samböndum og svo tvö
sameiginlega. Þá er hann sjálfur
að mestu hættur að vinna við
hefðbundin búverk og sér nú orðið
um bústjórnina og eins og hann
kallar það að sinna bráðaútköllum.
Það sem hefur komið honum
einna mest á óvart er að hann
hefur aldrei þurft að auglýsa eftir
fólki, búið hefur verið svo vel og
myndarlega rekið að orðspor þess
hefur farið víða. Hann fær því oft
fyrirspurnir um störf og sérstaklega
hafa útlendingar sóst eftir að komast
í vinnu á búinu.
Í dag er hann með danska, pólska,
rúmenska og sýrlenska starfsmenn
en þeir síðastnefndu koma á vegum
sveitarfélagsins sem flóttafólk.
Sveitarfélagið gerði nefnilega við
hann samkomulag um að hann
taki að sér að kenna flóttafólki að
vinna á kúabúi og þess í stað borgar
sveitarfélagið helminginn af launum
fólksins.
Afurðamiklar kýr
Kýrnar á Elmegården eru af Holstein
kyni og síðan hann tók við búinu
hafa meðalafurðirnar aukist jafnt og
þétt og úr því að vera í meðallagi á
danskan mælikvarða í að vera með
þeim afurðahæstu í Danmörku.
Í dag er meðalnytin 13.800 kíló
af orkuleiðréttri mjólk og skilar
hver kýr 1.020 kílóum af verðefnum
mjólkur að jafnaði sem verður að
teljast afar góður árangur. Samhliða
afurðaaukningunni hefur ending
kúnna einnig aukist verulega og
hafa æviafurðirnar aukist um 15
tonn að jafnaði á þessum fáum árum.
Endurnýjunarhlutfallið á kúnum á
Elmegården er nú ekki nema 18%,
sem er langtum lægra en gerist
og gengur hjá flestum dönskum
kúabúum.
Kynbótastarfið
Lars notar fyrst og fremst erfðaefni
frá félaginu VikingGenetics en
það er kynbótafélag sem bændur í
Danmörku, Svíþjóð og Finnlandi
eiga en Lars segist einnig kaupa
sæði frá öðrum til að bæði hafa val
og til að halda verðtilfinningu. Eins
og áður segir hefur hann náð afar
góðum árangri með kýrnar og er
ending þeirra góð. Þá hefur hann
skýra sýn varðandi kynbótaáætlun
búsins en hún er að sæða allar kvígur
með kyngreindu sæði svo þær fá
eingöngu kvígur sjálfar.
Vill stórar kýr!
Kynbótamarkmið búsins er að
sækjast eftir því að fá stórar kýr
sem geta étið mikið og þar með
mjólkað mikið. Þá vill hann kýr
með sterklega fætur og leggur
áherslu á hraustleika en hann vill
gjarnan að kýrnar geti enst í allt að
10 ár.
Ekki nema 40% af mjólkurkúnum
eru sæddar með sæði úr Holstein
nautum en hinar, sem þá ekki eru
ætlaðar til áframhaldandi ræktunar
til lengri tíma litið, eru sæddar með
holdanautasæði.
Góð velferð kúnna skiptir öllu
Góð dýravelferð er það sem Lars
telur að skipti einna mestu máli eigi
að ná góðum árangri og hann er
sannfærður um að það að vera með
sand í legubásunum og að mjólka
kýrnar fast þrisvar á dag sé lykillinn
að þeim góða árangri sem hefur
náðst á búinu. Greinarhöfundur
getur hér bætt því við, eftir að hafa
verið ráðgjafi búsins um tíma, að
Lars er einstaklega öflugur bóndi
og skynsamur. Hlustar á rök og
ráðleggingar og hann hikar ekki við
að breyta út frá gömlum venjum.
Þetta opna viðhorf hefur klárlega
skilað honum á þann stað sem hann
er í dag.
Kýr á fyrsta mjaltaskeiði sér
Það er alþekkt að kýr á fyrsta
mjaltaskeiði mjólka mun betur ef
þær eru hafðar sér en fæst bú geta
haft þær sér vegna smæðar. Búið
hjá Lars er hins vegar það stórt að
hann getur verið með sérhóp fyrir
kvígurnar og það skilar sér að hans
sögn. Þær sleppa við að keppa við
sér eldri kýr um fóður og legusvæði
og fá auk þess tíma til að aðlagast
breytingunum sem verða þegar þær
hafa borið í fyrsta skipti.
Sérstök fæðingardeild
Þegar kýrnar og kvígurnar vantar
viku í áætlaðan burðardag eru þær
færðar úr geldkúaaðstöðunni, þar
sem þær hafa verið í sex vikur,
og yfir í sérstaka deild þar sem er
hlúð sérstaklega vel að þeim. Um
er að ræða stóra hópstíu með hálmi
og fara þær þá á aðlögunarfóður
að því fóðri sem þær svo fá eftir
burðinn. Í þessari aðstöðu er Lars
með sérstakt starfsfólk sem hefur
reynslu í meðferð og meðhöndlun
kúa og er lögð áhersla á að kúnum
líði vel og séu afslappaðar þegar
kemur að burðinum.
Smákálfarnir úti
Eftir fæðinguna fá kálfarnir
brodd af lágmarks gæðum en öll
broddmjólk er gæðametin og ef hún
stenst ekki mál fær kálfurinn brodd
sem stenst gæðakröfurnar frá brodd-
mjólkurlager.
Þegar tryggt er að kálfarnir hafi
drukkið broddinn og fengið þar
með þau mótefni sem þeir þurfa til
að takast á við framtíðina eru þeir
færðir út í smákálfahýsi sem Lars
hefur utandyra. Í þessum hýsum eru
kvígurnar í þrjá mánuði og þar af
fá þær mjólk fyrstu tvo mánuðina.
Eftir útivistina eru þær svo færðar
inn í fjós í hópstíur og eru þar fram
að fyrsta burði.
Fín mjólkurgæði
Lars nýtir sér ráðgjöf varðandi
flesta þætti í rekstrinum og eitt af
því sem hann ákvað að gera var að
ná tökum á júgurheilbrigði búsins.
Hann keypti því ráðgjafarpakka
hjá mjólkurgæðasviði SEGES sem
kallast „Frumutölu-viðsnúningur“,
en eins og nafnið bendir til snýst
það um að ná tökum á frumutölunni
og gera breytingar sem halda. Of
langt mál væri að fara nánar út í
þetta verkefni en í fáum orðum sagt
tókst einkar vel að ná utan um málið
og fór frumutalan úr því að vera
rúmlega 200 þúsund í það að vera
nú rétt í kringum 100 þúsund!
Dýralæknirinn kemur
einu sinni í viku
Elmegården er með í gæðastjórn-
unarkerfi sem snýr að meðhöndlun
á skepnum en það þýðir að
ákveðnir starfsmenn búsins hafa
farið á námskeið hjá dýralækni í
meðhöndlun algengustu sjúkdóma og
geta eftir það sjálfir lyfjameðhöndlað
ef þörf krefur. Fyrir vikið þarf ekki
dýralækni í útköll en hann kemur
hins vegar fast einu sinni í viku og
fer yfir þær mögulegu meðhöndlanir
sem hafa verið gerðar, skoðar
nýbærur og sinnir forvarnarstarfi.
Þá er búið einnig með í
gæðastjórnunarkerfinu Arla-
gaarden®, sem er staðlað
matskerfi fyrir fyrirmyndarfjós.
Fyrir þátttökuna í því hækkar
afurðastöðvaverðið um 1 evrusent
eða um 1,4 íslenskar krónur.
Stefnir á aukna nyt
Aðspurður um framtíðina segir
Lars að það sé ekki á stefnuskránni
að stækka búið frekar. Næstu
skref séu að ná enn betri tökum á
framleiðslunni, hámarka arðsemi
búsins og auka afurðasemi kúnna
enn frekar. Hann telur raunhæft að
stefna á 15 tonna meðalafurðir á
næstu fimm árum og að 18 tonn að
jafnaði eftir kúna sé ekki óraunhæf
framtíðarsýn fyrir búið.
Ástæðan fyrir áherslu á
afurðasemina sé að með aukinni
nyt fylgi veruleg hagræðing og
þar með aukast möguleikar búsins
á að greiða hratt niður skuldir,
en hann stefnir að því að ná 50%
skuldsetningu, þ.e. sem hlutfall af
veltu, árið 2024.
Byggt á viðtali við Lars sjálfan,
auk gagnlegra upplýsinga úr
viðtölum við Lars í tímaritunum
Buskap og LandbrugNord frá því
fyrr í ár.
ARCTIC TRUCKS ÍSLAND EHF.
KLETTHÁLSI 3
110 REYKJAVÍK
SÍMI: 540 4980
info@yamaha.is
www.yamaha.is
GRIZZLY 700 EPS
DRÁTTARVÉL
SKOÐAÐU ÚRVALIÐ Á WWW.YAMAHA.IS
Tilboðsverð:
2.390.000,-
Fullt verð: 2.550.000,-
Örfá eintök til
afhendingar strax!
Lars Kristensen hefur byggt upp
bú sitt af miklu myndarskap á
undanförnum árum.
Mjaltabásinn, sem er 2x24 með hraðútgangi, er notaður nokkuð vel en í honum er mjólkað 15 klukkustundir á dag.
Sandlegubásar eru bestir fyrir kýr að mati Lars enda kýrnar tandurhreinar
og hraustar.