Íslenskt mál og almenn málfræði - 2015, Page 174
hvernig samkeppni þeirra var háttað. Þetta þarf að ákvarða út frá rituðum heim-
ildum, textum sem eru sjaldnast varðveittir í frumriti heldur í handritum sem
eru miklu yngri. Við mat á aldri málbreytinga er sjónum yfirleitt beint að aldri
handrits og það haft að leiðarljósi að engin breyting geti verið yngri en handritið
sem staðfestir hana, engin orðmynd yngri en handritið sem hún er varðveitt í. Á
móti kemur það sjónarmið að ung handrit geti varðveitt fornlegar orðmyndir og
taka þurfi tillit til þess sem vitað er um höfund verks eða tímann sem verkið var
samið á.
Doktorsefnið hefur valið að raða varðveittum dæmum yfirleitt þannig í yfir-
litstöflur að ritum er raðað eftir ritunartíma en dæmum ekki raðað eftir aldri
handrits. Reyndar er dálítið óheppilegt að nota um þetta orðið ritunartími þar
sem átt er við tíma samningar. Meðal textanna sem um ræðir er forn kveðskapur,
t.d. í töflunni á bls. 181, og það er sérkennilegt að kalla þar tímabilið 10.–12. öld
„ritunartíma“ dróttkvæða þótt ekkert sé vitað um að þau hafi verið „rituð“ þegar
á 10. öld. Þetta orðaval er þó ekki alvarleg yfirsjón og veldur lesendum vonandi
ekki misskilningi, en þessi flokkun dæmanna gefur töflunum það yfirbragð að
höfundur líti á tíma samningar sem aðalmælikvarðann.
Á báðum aðferðunum, að raða eftir tíma samningar og eftir aldri handrits, eru
gallar og þeim fylgja ýmis vandkvæði. Doktorsefnið reifar þetta í formála (bls.
48–51) en hefði mátt gera skýrari grein fyrir þessu vali. Lesandinn kann að velta
því fyrir sér hvort myndin af þróun einhvers af orðunum sex hefði orðið önnur
ef sjónum hefði verið beint að aldri handrits. Sömuleiðis má spyrja hvort Katrín
hafi gert tilraunir með báðar aðferðirnar og niðurstöður rannsókna hennar hafi á
einhvern hátt mælt með því að miða við tíma samningar.
1. spurning:
Hvað réð úrslitum um að dæmum var raðað í töflur eftir „ritunartíma“ texta
en ekki eftir aldri handrits?
3. Samband hljóðsögu og beygingarsögu
Ritgerðin Sögur af orðum ber undirtitilinn Sex athuganir á beygingarþróun í
íslensku. Eins og það heiti ber með sér beinist athyglin að beygingu og málbreyt-
ingum sem eru beygingarfræðilegs eðlis. Frá helstu tegundum slíkra breytinga er
sagt í formála og vísað til hans eftir þörfum í meginmálsköflum. Orðmyndir eru
þó, eins og alkunna er, settar saman úr hljóðum, og í sögu hvers orðs koma bæði
fyrir breytingar sem eru hljóðkerfisfræðilegs eðlis og beygingarfræðilegs. Ekki
verður hjá því komist að gera báðum þessum hliðum skil og skera úr um hvar í
þróuninni hafi orðið hljóðbreyting og hvar áhrifsbreyting. Af þessum sökum má
lýsing á sögu orðs ekki líta fram hjá hljóðsögunni. Ef hvergi er minnst á framburð
eða hljóðbreytingar fær textinn þann svip að höfundurinn telji hljóðsögu auka-
atriði eða óþarft að gera grein fyrir henni; hann meðhöndli orðmyndir jafnvel ein-
Guðrún Þórhallsdóttir174