Spássían - 2012, Side 20

Spássían - 2012, Side 20
20 „ Útigangshestar (1929) eftir Jón Stefánsson. Einnig er þar sjaldséðara verk eftir Jón Stefánsson, sem er líklega frá því seint á ferli hans. Í því verki eru litsterkar fígúrur, ein í hverjum lit, á symmetrískum fleti, með stóru húsi efst fyrir miðju myndar. Myndin virðist í fyrstu varla vera eftir Jón Stefánsson en áferð og einkenni blágrás grunnsins sem og fjöllin í fjarlægð eru óneitanlega í hans stíl og tengja verkið hugsanlega vetrinum.  Ekki er mikið um skúlptúra á sýningunni en einn þeirra er eftir Ólöfu Nordal og nefnist Í rökkrinu. Hér er um að ræða tvo flísalagða skúlptúra með þjóðlegu mynstri sem hefur verið skorið í hlutina. Þessir tveir hlutar mynda verkið og blasa við okkur á gólfinu þegar gengið er inn í sal eitt. Í öðrum þeirra er lýsi. Hér er því um þjóðlega og þjóðsagnakennda vísun að ræða sem hæfir vel vetrarstemningunni. Á ganginum á hæðinni fyrir ofan er skúlptúr eftir Huldu Hákon með drungalegum og draugalegum tón. Um er að ræða sjálfsmynd af listakonunni með draugum.  Á efri hæð safnsins í sal þrjú er hins vegar að finna verk eftir Kjarval, Ásgrím Jónsson, Kristján H. Magnússon, Valgerði Briem, Ólöfu Nordal og Hlyn Helgason. Hér er einkum um landslagsverk að ræða. Til sýnis eru nokkur verk eftir Ásgrím Jónsson frá því um 1930. Viðfangsefnið er einkum birtan í landslaginu, enda höfðu verk eftir Monet og aðra impressjónista heillað hann á ferðum hans um Þýskaland og Ítalíu um tveimur áratugum áður. Á myndunum, sem einkennast af hvítum lit, bregður Ásgrímur upp landslagi úr nágrenni Reykjavíkur og Hafnarfjarðar í vetrarbúningi. Hér er snævi þakið landslag sem sýnir okkur blæbrigði vetrarbirtunnar. Eitt verk eftir Kristján H. Magnússon grípur athyglina á milli verka Ásgríms. Kristján er lítt þekktur í íslenskri myndlist en hann lést aðeins 34 ára að aldri eftir að hafa náð frábærum árangur í Bandaríkjunum þar sem hann stundaði nám. Verkið á sýningunni heitir Vetur á Þingvöllum (1932) og sýnir snævi þakið landslag.  Á endaveggjum salarins eru tvö landslagsverk eftir Kjarval. Þau eru öllu litríkari og litsterkari en verk Ásgríms og virðast í fyrstu ekki endilega vetrarverk en vetrarvísunina er að finna í titlum verkanna. Á veturna er ekki endilega snjór eins og hér má sjá, hér er um litríkan vetrarbúning að ræða. Kjarval sýnir okkur í þessum verkum Mosfellsheiði og Vífilfell að vetri.  Á sýningunni er einnig mun nýrra verk frá 2009, Transit, eftir Hlyn Helgason. Hér er brugðið upp þremur mjög kaldranalegum ljósmyndum sem teknar eru út um flugvélarglugga. Þær sýna okkur ískaldan dag.  Á sýningunni er að finna nokkur verk eftir Valgerði Briem. Hér er um að ræða grafíkverk, svarthvít verk, sem Valgerður nefnir Landlit og eru í raun abstraktverk. Það má deila um hvort hér sé um vetrarmyndir að ræða en það er túlkunaratriði eins og segja má um önnur abstraktverk sýningarinnar. Verk eftir konur eru tiltölulega fá á sýningunni en annað verk eftir íslenska listakonu er verkið Fjórir hvítir hrafnar eftir Ólöfu Nordal. Hér er engin bein vísun í vetur. Hrafninum bregður þó gjarnan fyrir í slíku samhengi meðal annars í þjóðsögum sem gjarnan voru sagðar á köldum vetrarnóttum.  Sýningin er góð kynning og yfirlit á ýmsum stefnum og stílum innan íslenskrar myndlistar og spannar um hundrað ára bil, sýnir ólíkar kynslóðir og nálganir. Hér gefst tækifæri til að kynnast sýnishorni af þeirri stóru listaverkaeign sem Listasafn Íslands á en safneignin telur um 10.000 verk. Ætti því enginn að láta sýninguna fram hjá sér fara heldur láta vetrarverkin ylja sér og veita innblástur í svörtu skammdeginu. Sýningin stendur til 31. janúar 2013 og er opin alla daga nema mánudaga frá kl. 11–17. Verkin eiga vetrareinkenni sameiginleg á einn eða annan hátt svo sem myrkur, snjó, kulda eða vetrarbirtu og bera margar hverjar vetrarlegan titil. Jón Stefánsson 1881-1962 Útigangshestar, 1929 Listasafn Íslands LÍ 365 Snorri Arinbjarnar 1901-1958 Bergstaðastræti, 1938 Listasafn Íslands LÍ 599

x

Spássían

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Spássían
https://timarit.is/publication/1454

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.