Strandapósturinn - 01.06.1970, Side 62
unum. Eitt þessara skipa strandaði á Brúará, hét það Prinsessan.
Strandgóssið var boðið upp. Gunnlaugur á Hrófbergi keypti
megnið af timbrinu, en Finnbogastaðamenn keyptu allt járn úr
skipinu. Fljótlega eftir að ég kom að Plrófbergi var farið á bát
norður að Brúará til að sækja timbrið. Við vorum fjórir í þeirri
ferð og fengum barning á heimleiðinni. Þegar við komum á móts
við Grjótá, hvessti svo mikið, að við urðum að ryðja nokkru af
timbrinu útbyrðis. Náðum landi að því búnu eftir harðan róður.
Ekkert tapaðist af timbrinu, þar sem það rak á nálægar fjörur.
Nafn skipsins var málað á einn borðbútinn. Þann grip hreppti
ég og notaði fyrir rúmfjöl. Það kom strax í ljós að Prinsessan
fór vel í rúmi og þjónaði sínu hlutverki með prýði.
Þannig atvikaðist það, að ég svaf hjá prinsessu mest allt það
ár, sem ég dvaldi á Hrófbergi. Við vorum jú tveir um rúmið
eins og títt var fyrrum. Rekkjunautur minn var Guðmundur
Guðbrandsson, er síðar bjó í Drangavík. Hann var ári eldri en
ég og prýðispiltur, enda sældist hann aldrei eftir þeim óvenju-
legu forréttindum, sem fólust í því að hvíla við stokk í rúminu
okkar. Prinsessan mín var því ósnortin af honum.
Fráfœrur.
Mér féll vistin á Hrófbergi mjög vel, enda leið okkur mæðgin-
unum ágætlega meðan við dvöldum þar. Viðurgerningur var
eins og bezt varð á kosið. Að vísu var öll fæða skömmtuð þar
eins og annarsstaðar en maturinn var bæði mikill og góður.
Að sjálfsögðu var fært frá og féll í minn hlut að sitja hjá 39
ám um sumarið, en á fóðrum höfðu verið alls 110 kindur og
4 kýr. Anum hélt ég ýmist til beitar á Vatnadal eða í Fitjalandi
(eyðibýli). Var hvarvetna afbragðs hagaganga, einkum á Vatna-
dal. Eg tók strax eftir, að veðráttan var mun hagstæðari þarna
inni í Steingrímsfirði en norður í Árneshrepp. Þar sem ég var
vanur þokusúld og slagviðrum nyrðra þótti mér merkilegt að fá
ekki nema einn rigningardag allan fráfærnatímann.
Ég markaði laufblöð og týndi grös mér til afþreyingar í hjá-
setunni, — stundum hafði ég líka bókarkorn meðferðis. Tíminn
leið því furðu fljótt. Nestið mitt var svo vel útilátið, að engin
60