Sjómannablaðið Víkingur - 01.01.2020, Page 80
80 – Sjómannablaðið Víkingur
„Já, víst er hann þungur,“ segir Vilhjálmur, „og vitna ég það
undir þá er hér eru að ég gef þér hann ef þú berð hann einn
heim á kirkjugarðsvegginn en það muntu nú ekki geta þótt þú
sért sterkur.“
Gunnar glotti við en svaraði engu; fóru þeir heim síðan. Var
þá dags úthallandi. Snæddu þeir síðan en er þeir höfðu étið
hvarf Gunnar ofan og var brott litla stund. Veittu menn því litla
eftirtekt.
Vilhjálmur gekk einn út í kveldrökkrinu og sér einhvern
hrauk á kirkjugarðinum. Hann gengur þangað og sér að þar er
þá kominn kagginn. Grunar hann að Gunnar hafi sótt hann og
borið heim. Hittir hann bróður sinn og spyr hann hvort hann
bar heim kaggann. Hann sagði svo vera. Vitnuðu allir að enginn
var til er gæti aðstoðað hann við það. Hafði hann tekið hann
einn á herðar sér og borið heim síðan og þótti það eftir öðrum
aflraunum hans. Vilhjálmur kvað hann hafa unnið og ætti hann
því kaggann.
Leið sú er Gunnar bar kaggann er fyrst brattur malarbakki
og lítill flái síðan heim að bænum en vegalengd sú skiptir eigi
mörgum hundruðum faðma.
Halldór sóttur
Sjávarúthald var mikið úr Höfnunum og eigi síst úr Kirkjuvogi
því þeir bræður voru mestu sjósóknarar og dugnaðarmenn. Var
þar verskáli við sjó niðri frá Kirkjuvogi og oft margir úthalds-
menn; var þar löngum slark og vínnautn mikil.
Sá maður var einn með Gunnari og sjóari hans er Halldór
hét, mikill og sterkur, drykkfelldur og svaðamenni mikið. Hann
lagði komur sínar í sjóbúðina á síðkveldum og drakk sig þar
drukkinn og fann Gunnar að en það tjáði eigi og fór svo fram
um hríð og gerðust slagsmál og áflog með honum og þeim þar.
Eitt kveld voru margir um Halldór einn. Þetta vissi Gunnar
og vildi ná honum þaðan og bað menn sækja hann en það
þorði enginn er til var kvaddur. Leið svo fram um háttatíma og
vildi Gunnar eigi loka bæ fyrr en Halldór kæmi en bæði var
dimmt orðið af nóttu og í annan stað þótti engum barnameð-
færi að sækja í hendur þeirra er í búðinni voru og sá Gunnar að
hann hlaut að fara sjálfur og snaraðist út og ofan að búðinni.
Var þar þá mannþyrping, hávaði og illindi mikil. Gunnar
ruddist í gegnum fylkinguna og hratt mönnum frá sér og varð
engum að ráða á hann. Tók hann Halldór undir hendi sér og
bar hann út úr mannhringnum og leiddi hann síðan heim þegj-
andi. Þótti honum fara líkt og Breska-Birni forðum er hann
sótti manninn í höll Sveins konungs tjúguskeggs.
Hellan
Gunnar var þéttur í lund og sýndist fáum að sýna honum mót-
þróa. Hann húsaði vel bæ sinn og lét flytja að grjót á báti langa
leið því eigi fékkst það nærri; tók hann mest í svonefndum
Ósabotnum. Honum þótti fyrst allsmátt grjótið hjá mönnum
sínum og bað þá finna stærri köggla. Þá fundu þeir hellu og
báru fjórir og lögðu yfir skutinn og þótti fullþung og reru heim.
Gunnar stóð á fjörunni og brýndi bátnum og tók til hellunnar
og segir um leið: „Þetta mismunar, piltar mínir.“ Síðan bar hann
helluna einn upp sem hægast og lét þar er hentast þótti.
Frásagnirnar af Gunnari sterka Halldórssyni eru ættaðar úr
Þrótti, tímariti Íþróttafélags Reykjavíkur, frá Hildi Harðar-
dóttur, sem tók saman Þjóðsögur um Suðurnes, en ítarlegastar
eru þær þó í Íslenskum þjóðsögum og sögnum Sigfúsar
Sigfússonar.
Ekki ber heimildarmönnum alveg saman í öllum atriðum.
Gotutunnurnar sem Gunnar snaraði um borð í skip
Duusverslunar eru ýmist sagðar 256 eða 360 pund. Reiknum
danska pundið 496 grömm. Þá verður ljóst að Gunnar hefur
leikið sér að því að lyfta 127 kílóum eða jafnvel 178 kílóum.
Útvegsbóndi hyggur að netum sínum. Mynd: Nationalmuseet