Borgfirðingabók - 01.12.2012, Page 110
110 Borgfirðingabók 2012
elstu gerð Reykholtsmáldaga. Þess er til getið að hleðslan sé hluti af
veiðivél en ekki er nánar vitað með vissu um hvernig hún var notuð.
Norðan óssins má greina tóftir sem kallaðar hafa verið Reykholtssel.
Sunnan óssins er lítið skýli á árbakkanum, í því er rennslismælir sem
er tengdur ánni. Meðalrennsli úr Reyðarvatni er um 6 rúmmetrar á
sekúndu.
Bleikja er í Reyðarvatni og gengur hún ofar Grímsárfossa allt niður
í Jötnabrúarhyl. Stangveiði er gjarnan stunduð við Reyðarvatnsós og
dorgveiði á vetrum enda er ósinn auður þó vatnið sé lagt og er Grímsá
jafnan auð talsvert áleiðis. Hana leggur þó í hörðum frostum þegar
kemur niður undir Gullberastaðasel, en ryður af sér ísnum jafnt og
þétt eftir því sem að henni þrengist. Þess meira er frostið er harðara.
Myndast jakahrönn allt frá Jötnarbrúarfossi og niður fyrir Oddsstaði
og hleðst stundum upp á tún og vegi til skaða.
Nú verður staðháttum ekki lýst frekar en göngumenn geta farið
skemmstu leið suður í Lundarreykjadal. Ólúnum manni væri það ágæt
viðbót að ganga austur með Reyðarvatni allt austur á Kaldadalsveg.
Koma að upptökum Fossár. Skoða tóftir Illugakots austan Fossár en
þar bjó Illugi Ásgrímsson frá Skógum með fólki sínu árin 1863 –
1868. Síðan gengið um Leirárdali og komið á Okveg við Beinabarð
norðan Langáss, þaðan er stutt á Kaldadalsveg við Brunna.
1 Árni Magnússon og Páll Vídalín: 210 - 211 Jarðarbók (1708), bls. 210, 211, 212) og Manntal (1703).
Aðrar heimildir:
Borgfirskar æviskrár, bindi IV og VII
Ábúendatal Gullberastaðasel, höf: Ingimundur Ásgeirsson
Landamerkjaskrár Oddsstaða, Brautartungu, Tungufells, Brennu, Reykja, Þver-
fells og afréttarlands Lunddælinga og Andkílinga, ýmsir höf. og heimildarmenn.
Jón Böðvarsson, munnlegar upplýsingar
Ásgeir Sigurðsson, munnlegar upplýsingar.
Sigurður O. Ragnarsson, munnlegar upplýsingar.
Sérstakar þakkir til Bjarkar Ingimundardóttur fyrir fádæma greiðvikni við öflun
heimilda.