Borgfirðingabók - 01.12.2012, Page 226
226 Borgfirðingabók 2012
og að kvöldinu hélt hann fyrirlestur í Snorrastofu um þýðingar sínar á
Völuspá og Hávamálum. Að auki heimsótti hann Félag eldri borgara
í Borgarfjarðardölum í Brún, las úr verkum sínum og ræddi skáld-
skap sinn við mikla hrifningu þeirra sem nutu. Þetta var tilraunaverk-
efni hjá Snorrastofu og er óhætt að fullyrða að það heppnaðist eins
og best verður á kosið. Verkefnið var því Snorrastofu hvatning og
verður leikurinn endurtekinn að ári, þ.e. landsþekktu skáldi boðið í
heimsókn í samvinnu við alla þessa aðila.
Þá hóf bókhlaðan nýjan þátt í starfinu, sem kallaður hefur verið
Prjóna-bóka-kaffi. Það er haldið hálfsmánaðarlega undir forystu
Gíslínar Jensdóttur, bókasafnsfræðings. Íbúum er boðið að setjast
saman með handverk sitt og nýsköpun og viðra hugmyndir sínar þar
að lútandi og spjalla um bækur og önnur áhugamál. Þá er bókhlaðan
einnig opin öllum til útlána þessi kvöld. Þau voru vel sótt árið 2011
og hafa reynst vettvangur fyrir listrænt samstarf og umgjörð fyrir
nýjar hugmyndir og hvatning til skapandi vinnu, sem jafnvel megi
hafa atvinnu af.
Bókagjafir
Snorrastofu bárust afar veglegar bókagjafir á árinu. Gengið var frá
gjafabréfi Ólafs Pálmasonar og Þóru davíðsdóttur vegna bókagjafar,
þar sem hjónin ánafna stofnuninni heimilisbókasafni sínu eftir sinn
dag. Hjörtur Pálsson annaðist milligöngu í málinu. Gjöfinni fylgja
einnig bókaskápar, sem komið verður m.a. fyrir á efri hæð fræði-
mannsíbúðar. Nú þegar er búið að senda Snorrastofu stóran hluta
safnsins og gera ráðstafanir til að veita því verðuga umgjörð. Þá gaf
Jón Blöndal, bóndi í Langholti í Bæjarsveit, Snorrastofu Heims-
kringlu-útgáfu frá árinu 1757 (Snorre Sturlesens Norske Kongers
Krønike), sem hann hafði gert við sjálfur og látið binda inn. Jón gerði
einnig við bókina Rymbegla Sive Rudimentum Computi ecclesias-
tici Veterum Islandorum, sem tekin var saman af Stefáni Björnssyni
og Peter Frederik Suhm. Bókin var gefin út í Kaupmannahöfn árið
1780 og er hún merkt safni Tryggva Þórhallssonar. Þá hefur Þórdís
Sigurbjörnsdóttir í Hrísum unnið töluvert bókband fyrir Snorra-
stofu. einnig má þess geta að keyptur var lager af nánast ófáanlegum
bókum frá Noregi með íslensku fornsagnaefni fyrir mjög lítið fé, sem
nýtist bæði bókasafninu og versluninni, sem nú þegar hefur rúmlega
600 bókatitla til sölu.