Borgfirðingabók - 01.12.2012, Page 230
230 Borgfirðingabók 2012
Snorrastofa hefur undanfarin ár unnið að alþjóðlegu rannsóknar-
verkefni um norræna goðafræði og nefnist það Pre-Christian Reli-
gions of the North. Mikil vinna, metnaður og fjármagn hefur verið
lagt í verkefnið. Samtals hafa um 30 fræðimenn við fjölmargar inn-
lendar og erlendar rannsóknarstofnanir komið til liðs við verkefnið
og eru ritstjórar helstu verkþátta komnir vel á veg með sína vinnu. S.l.
sumar var með stuðningi menntamálaráðuneytisins til Snorrastofu
ráðinn verkefnisstjóri vegna verkefnisins til 6 mánaða í hálft starf.
Raunveruleg ritun þessa mikla verks er nú þegar komin af stað, auk
þess sem búið er að finna útgefendur, Brepols í Belgíu, sem sérhæfir
sig í útgáfum á miðaldaefni. Gert er ráð fyrir að verkinu ljúki um mitt
ár 2017 og er reiknað með að verkefnið í heild sinni muni kosta um
2 til 300 milljónir króna.
Rannsóknir voru einnig stundaðar af einstökum starfsmönnum
og rannsóknarfélögum Snorrastofu. Rannsóknarfélaginn evy Beate
Tveter hélt áfram skoðun sinni á þróun íslenskrar setningarfræði á
síðmiðöldum ásamt því að bera þetta ferli saman við þróun norsk-
unnar á sama tíma. Verkefnið er afar áhugavert með hliðsjón af
því hvernig fornnorræna varð að tveimur tungumálum, íslensku og
norsku. Óskar Guðmundsson, sagnfræðingur, sem einnig er rann-
sóknarfélagi Snorrastofu, sendi í lok ársins frá sér ævisögu Þórhalls
Bjarnarsonar biskups og fyrrverandi prests í Reykholti. Að lokum má
þess geta að greinarhöfundur hélt áfram rannsóknum sínum á notkun
vísna í fornaldarsögum Norðurlanda.
Niðurlag
Snorrastofa sinnir ýmissi starfsemi til kynningar á íslenskri miðalda-
menningu ásamt því að stunda rannsóknir, og hefur Reykholt og
Snorri Sturluson þar vitaskuld forgang. eins og hér kemur fram voru
viðfangsefni árið 2011 mörg, en fjöldi verkefna hefur aldrei verið
meiri. Snorrastofa skipulagði m.a. rannsóknir, fyrirlestra, dagskrár,
ráðstefnur, tónleikahald í samvinnu við Reykholtskirkju og sýningar.
Þá rak stofnunin gestastofu og almennings- og rannsóknarbókasafn
og tók þátt í hirðu svæðisins og umönnun fasteigna.
Þjóðmenningarstaðurinn Reykholt verður að standa undir nafni og
það leitast Snorrastofa við að gera með lifandi starfsemi allt árið, þar
sem margvísleg form menningar koma við sögu. Þótt mikið hafi áunn-
ist í sambandi við uppbyggingu undanfarinna ára er engu að síður til