Tímarit lögfræðinga - 01.06.2005, Side 4
eru öll hófstilltari. Þá hafa bæði hæstaréttarlögmaður og prófessor tjáð sig í til-
efni af ummælum ráðherra.
Það er ljóst að mannréttindadómstóllinn sem stofnun er í miklum vanda
staddur. Nú munu tæplega 80.000 mál, stór og smá, bíða afgreiðslu hans. Sú tala
er af þeirri stærðargráðu að menn hljóta að standa agndofa frammi fyrir henni.
Þessi tala getur ekki sagt annað en það að hér er komið út í hreint óefni. Prófessor
Björg Thorarensen hefur bent á það að skýringin á þessum málafjölda sé m.a. sú
að aðildarríkjum Evrópuráðsins hafi fjölgað að miklum mun og í hinum nýju
aðildarríkjum mörgum hverjum standi mannréttindi völtum fótum. Málafjöldinn
eigi einnig þá skýringu að víða telji menn mannréttindi á sér brotin vegna þess að
mikill hægagangur sé á afgreiðslu dómstóla. Helmingur þeirra mála sem fyrir
dómstólnum séu komi frá fjórum ríkjum, Rússlandi, Póllandi, Rúmeníu og Tyrk-
landi. Prófessorinn segir að dómstóllinn hafi kveðið upp 718 dóma á síðasta ári.
Af þeim hafi eitt hundrað haft þýðingu fyrir skýringu á mannréttindasáttmál-
anum. Hátt hlutfall annarra mála hafi verið vegna langs málsmeðferðartíma
heima fyrir og einnig séu sömu sakarefni borin undir dómstólinn hvað eftir
annað. Mannréttindadómstóllinn standi nú sjálfur frammi fyrir sama vanda að
því er varði málsmeðferðartíma og sé það kaldhæðnislegt.
Ragnar Aðalsteinsson hæstaréttarlögmaður, sem er alfarið á móti takmörk-
unum á málskotsrétti til dómstólsins, vill leysa þennan vanda með því að fjölga
deildum dómstólsins, og auka þannig afköstin, og auka fjárveitingar.
Vonandi er hægt að leysa vanda dómstólsins á einhvern tæknilegan hátt. Þó er
vandséð að vandinn verði leystur til frambúðar nema til komi endurskoðun á
mannréttindasáttmálanum sjálfum, eins og hann er nú túlkaður, og sömuleiðis
reglum sem gilda um mannréttindadómstólinn. Það er ekki nein einhlít skýring
til á því hvað telst til mannréttinda og hvað ekki. Um það hafa menn löngum deilt
og rætt aftur og fram. Í raun og veru er þetta efni svo útþynnt og óljóst að við
liggur að hver og einn geti búið sér til skýringu og haldið því fram að hún sé jafn-
gild öðrum skýringum. Menn ættu þó hugsanlega að geta sammælst að verulegu
marki um það hvað flokkast undir grundvallarmannréttindi og afmarka þau með
ákveðnum hætti. Það tjóar tæpast að segja að öll mannréttindi séu grundvallar-
mannréttindi. Áfram mætti svo deila, t.d. um það hvort mannréttindi séu brotin
með því að þurfa að greiða stöðumælasekt og að borga í strætisvagn, svo að nefnd
séu mál af dönskum vettvangi. Auðvitað eru þau mál hlægileg en kunna samt að
sýna hvernig teygt hefur verið úr mannréttindaumræðunni. Það er deginum ljós-
ara að hér þarf að staldra við og taka mannréttindamálin öll til gaumgæfilegrar
umræðu og endurskoðunar. Hvort það á að gera á forsendum Mads Bryde And-
ersen er svo annað mál. Þýðingarmikið er að forða umræðunni frá pólitískum
skotgrafahernaði, þótt hún hljóti alltaf að einhverju marki að vera pólitísk. Þótt
stjórnmálamenn ráði ferðinni þegar til kastanna kemur þurfa þeir ekki að ráða
þeirri umræðu sem fer fram. Umræðan þarf að vera hlutlæg og mótuð af yfir-
vegun og réttsýni. Þá leið verður að fara til þess að reyna að tryggja sem best
vitræna niðurstöðu.
4