Tímarit lögfræðinga - 01.06.2005, Blaðsíða 9
9
2. RÉTTARGRUNDVÖLLUR MEGINREGLUNNAR UM SKÝRLEIKA
REFSIHEIMILDA
2.1 Ákvæði 1. mgr. 69. gr. stjórnarskrárinnar og 1. mgr. 7. gr. Mannrétt-
indasáttmála Evrópu
Dómaframkvæmd síðari ára hér á landi bendir til þess að dómstólar telji að
réttargrundvöll meginreglunnar um skýrleika refsiheimilda sé fyrst og fremst að
finna í 1. mgr. 69. gr. stjórnarskrárinnar,9 sbr. H 2000 280 (hlutlæg refsiábyrgð
skipstjóra) og einnig dóm Hæstaréttar 28. október 2004, nr. 251/2004 (hvíld-
artími ökumanna). Er þetta í samræmi við þau sjónarmið sem birst hafa í ritum
íslenskra fræðimanna.10 Í a.m.k. tveimur tilvikum á undanförnum árum er ekki
vísað til neins ákvæðis í dómi Hæstaréttar enda þótt ljóst þyki af forsendunum
að þar hafi reynt á meginregluna um skýrleika refsiheimilda, sjá hér H 1997
1253 (skoteldar) og dóm Hæstaréttar 3. apríl 2003, nr. 449/2002 (arnarvarp í
Miðhúsaeyjum), sjá einnig til hliðsjónar dóm Hæstaréttar 20. nóvember 2003,
nr. 219/2003 (vanmannað skip).11 Hæstiréttur hefur ekki til þessa vísað til 1.
mgr. 7. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu í úrlausnum sínum þar sem reynt hefur
á sjónarmið um skýrleika refsiheimilda, sjá hér hins vegar dóm héraðsdóms í H
1995 3149 (Bjartsmál).12
9 Samkvæmt 1. mgr. 69. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. 7. gr. stjórnarskipunarlaga nr. 97/1995, verður
engum manni gert að sæta refsingu nema hann hafi gerst sekur um háttsemi sem var refsiverð sam-
kvæmt lögum á þeim tíma þegar hún átti sér stað eða má fullkomlega jafna til slíkrar háttsemi. Þá
mega viðurlög ekki vera þyngri en heimiluð voru í lögum þá er háttsemin átti sér stað, sbr. síðari
málsl. sömu málsgreinar. Áður en stjórnarskránni var breytt með stjórnarskipunarlögum nr.
97/1995 var mælt fyrir um þær reglur sem nú koma fram í 1. mgr. 69. gr. stjórnarskrárinnar í
almennum lögum, þ.e. í 1. og 2. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og 7. gr. Mannréttindasátt-
mála Evrópu, sbr. 1. gr. laga nr. 62/1994.
10 Jónatan Þórmundsson: Afbrot og refsiábyrgð I, bls. 167-172; Gunnar G. Schram: Stjórnskip-
unarréttur, bls. 513-514, og Róbert R. Spanó: „Um vansvefta skipstjóra og afladrjúga stýrimenn“,
bls. 17-30. Ekki verður séð að dómstólar telji nú ástæðu til að vísa til 1. gr. almennra hegningar-
laga nr. 19/1940, sjá hins vegar fyrir gildistöku stjórnarskipunarlaga nr. 97/1995, og þar áður Mann-
réttindasáttmála Evrópu með lögum nr. 62/1994, dóm sakadóms Reykjavíkur frá 8. nóvember
1988 (Sólgos). Í forsendum dómsins sagði meðal annars svo: „Það er ein af meginreglum íslensks
refsiréttar, sem fram kemur í 1. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940, að ekki verði manni refsað
fyrir aðra háttsemi en þá, sem refsiverð er lýst í lögum, nema þá fyrir fullkomna lögjöfnun. Af þess-
ari reglu leiðir, að refsiheimildir verða að vera skilmerkilega og ekki of almennt orðaðar“. Sjá nánar
umfjöllun um þennan dóm Jónatan Þórmundsson: Afbrot og refsiábyrgð I, bls. 168-169.
11 H 1997 1253 (skoteldar), H 3. apríl 2003, nr. 449/2002 (arnarvarp í Miðhúsaeyjum) og H 20.
nóvember 2003, nr. 219/2003 (vanmannað skip) eru reifaðir í kafla 3.2.2 í greininni.
12 Dómurinn er reifaður í kafla 3.2.2 í greininni. Sjá um eftirfarandi fræðiskrif um H 1995 3149
(Bjartsmál) Jónatan Þórmundsson: Afbrot og refsiábyrgð I, bls. 160-163; Páll Sigurðsson: Fjöl-
miðlaréttur. Háskólaútgáfan. Reykjavík (1997), bls. 152-159 og Róbert R. Spanó: „Um vansvefta
skipstjóra og afladrjúga stýrimenn“, bls. 17-30.