Tímarit lögfræðinga - 01.06.2005, Side 13
13
Saman mynda þessar réttarreglur þá tvo aðgreinda en náskylda efnisþætti er
falla innan heildarheitisins lögmætisregla refsiréttar.22
Með ofangreinda niðurstöðu í huga skiptir t.d. máli við val á orðalagi í for-
sendum dóma að ljóst sé við hvaða réttarreglu í 1. mgr. 69. gr. stjórnarskrárinnar
dómstólar styðjast að þessu leyti í úrlausnum sínum. Mat á fordæmisgildi dóma
getur enda verið vandkvæðum bundið ef óljóst er hvort niðurstaðan er byggð á
því að refsiheimild fari í bága við grunnregluna um lögbundnar refsiheimildir
eða meginregluna um skýrleika refsiheimilda. Dómur Hæstaréttar frá 28. okt-
óber 2004, nr. 251/2004 (hvíldartími ökumanna) er dæmi um þetta.
Atvik voru þau að X var sóttur til saka fyrir umferðarlagabrot með því að
hafa ekið vöruflutningabifreið yfir sjö daga tímabil án þess að taka sér „lög-
boðna vikuhvíld“. Var háttsemi X í ákæru talin varða við a-lið 1. gr. reglugerðar
nr. 136/1995 um aksturs- og hvíldartíma ökumanna o.fl. í innanlandsflutningum
og í flutningum innan Evrópska efnahagssvæðisins, sbr. ákvæði reglugerðar
ráðsins (EBE) nr. 3820/85 um samhæfingu tiltekinnar löggjafar á sviði félags-
mála er varðar flutninga á vegum, sbr. 6. mgr. 44. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr.
umferðarlaga nr. 50/1987. Í dómi Hæstaréttar var X sýknaður og voru forsendur
dómsins m.a. eftirfarandi:
Reglugerð nr. 136/1995 var sett meðal annars með stoð í þágildandi ákvæði 6. mgr.
44. gr. umferðarlaga. Í því var hvorki að finna sjálfstæða verknaðarlýsingu á broti
varðandi hvíldartíma ökumanna né aðrar efnisreglur þar um, heldur sagði einungis
að dómsmálaráðherra gæti sett reglur um hvíldartíma ökumanna. Efnisákvæði 2.
mgr. 44. gr. umferðarlaga kemur ekki til álita í máli þessu þar sem ákærða er ekki
gefið að sök í ákæru að hafa brotið gegn því lagaákvæði, heldur hinum valkvæðu
ákvæðum reglugerðar ráðsins (EBE) nr. 3820/85 um hvíldartíma ökumanna. Ákvæði
1. mgr. 100. gr. umferðarlaga hefur að geyma aðgreinda refsireglu sem vísar til
verknaðarlýsinga í öðrum ákvæðum laganna og í ákvæðum reglna sem settar eru
samkvæmt þeim. Breytir þetta ákvæði engu um niðurstöðu málsins þar sem sjálf-
stæða verknaðarlýsingu var hvorki að finna í 6. mgr. 44. gr. laganna, eins og áður
segir, né heldur í reglugerð nr. 136/1995 sem sett var með stoð í umferðarlögum.
Samkvæmt þessu er hér ekki um að ræða svo skýra refsiheimild að samrýmanleg sé
1. mgr. 69. gr. stjórnarskrárinnar. Verður því staðfest niðurstaða hins áfrýjaða dóms
um sýknu ákærða. (leturbr. höf.)
Við greiningu á þessum dómi verður í fyrsta lagi að hafa í huga að í 1. gr.
reglugerðar nr. 136/1995, sem vísað var til í ákæru, segir meðal annars að
ákvæði EES-samningsins, sem vísað er til í 20., 21. og 23. tölul. XIII. viðauka
22 Sjá Knud Waaben: „Lovkravet i strafferetten“, bls. 130-131: „Det er endnu et krav til en
velindrettet strafferet som nogle vil henføre til legalitsprincippet. Det er kravet til lovgiveren om at
gerningsbeskrivelser skal være nøjagtige og tydelige og ikke må overlade for meget til domstolenes
vurderinger“. Um hugtakið lögmætisregla á sviði íslensks refsiréttar, sjá Róbert R. Spanó: „Stjórn-
arskráin og refsiábyrgð“ (fyrri hluti), kafli 2.