Tímarit lögfræðinga - 01.06.2005, Page 16
3. INNTAK OG GILDISSVIÐ MEGINREGLUNNAR UM SKÝRLEIKA
REFSIHEIMILDA
3.1 Viðhorf íslenskra og erlendra fræðimanna og dómaframkvæmd í nor-
rænum rétti, bandarískum rétti og hjá Mannréttindadómstóli Evrópu
3.1.1 Inngangur
Í þessum kafla verða rakin þau sjónarmið um skýrleika refsiheimilda sem
ráðin verða af skrifum íslenskra, danskra, norskra og bandarískra27 fræðimanna.
Þá verður vikið að erlendum dómsúrlausnum, m.a. hjá Mannréttindadómstóli
Evrópu, sem talið verður að hafi þýðingu fyrir viðfangsefnið. Er það gert til að
setja greiningu á íslenskri dómaframkvæmd, sem rakin verður ítarlega í kafla
3.2-3.3, í rétt fræðilegt samhengi þannig að nægjanleg dýpt náist í umfjöllun-
inni.
3.1.2 Viðhorf íslenskra fræðimanna
Af hálfu íslenskra fræðimanna hefur þar til nýlega lítið verið ritað um þær
kröfur sem gera verður til skýrleika refsiheimilda og meginreglunni því verið
tiltölulega lítill gaumur gefinn. Svo virðist sem lögfesting 1. mgr. 69. gr. stjórn-
arskrárinnar og aukin áhrif Mannréttindasáttmála Evrópu eftir gildistöku laga
nr. 62/1994 hafi hins vegar leitt til þess að meginreglan hefur nú fengið aukið
vægi í réttarframkvæmd hér á landi og í skrifum fræðimanna.
Í fyrsta bindi ritsins Afbrot og refsiábyrgð, sem út kom á árinu 1999,28 fjallar
Jónatan Þórmundsson með almennum hætti um skýrleika refsiheimilda á bls.
167-172. Verður ekki annað séð en að þetta sé fyrsta heildstæða umfjöllun
16
27 Þess eru dæmi að í ritum íslenskra og norrænna fræðimanna hafi í þessu samhengi verið vikið,
þótt í litlum mæli sé, að viðhorfum og dómsúrlausnum í bandarískum rétti um skýrleika refsiheim-
ilda, sjá m.a. Johs. Andenæs: Alminnelig strafferett, bls. 113, Jónatan Þórmundsson: „Fordæmi
sem réttarheimild í enskum og bandarískum rétti“. Úlfljótur. 4. tbl. 22. árg. (1969), bls. 363 og 371,
og eftir sama höfund: Afbrot og refsiábyrgð I, nmgr. 43 á bls. 167-168. Sem viðbótarrök fyrir því
að horfa til þessa réttarkerfis nefni ég það viðhorf að eins og oft og tíðum á við um grundvallarvið-
fangsefni á sviði stjórnskipunarréttar þá hafa fræðimenn í Bandaríkjunum lagt mikla rækt við
greiningu á þeim lagalegu álitaefnum og sjónarmiðum sem við eiga um mat á skýrleika refsiheim-
ilda, sjá hér t.d. Andrew E. Goldsmith: „The Void-for-Vagueness Doctrine in the Supreme Court,
Revisited“. American Journal of Criminal Law. 2. tbl. 30. árg. (2003), bls. 279-315. Þar er í nmgr.
6 og 7 vísað til fjölda heimilda um ritstörf fræðimanna um þetta efni. Ekki er ástæða til að ætla
annað en að hafa megi viðhorf bandarískra fræðimanna og dóma Hæstaréttar Bandaríkjanna til
hliðsjónar við túlkun íslensku stjórnarskrárinnar, a.m.k. þegar um réttindaákvæði er að ræða sem
byggja að verulegu leyti á sömu grundvallarsjónarmiðum. Um slíka samanburðarskýringu við
túlkun 1. mgr. 68. gr. stjórnarskrárinnar sjá Róbert R. Spanó: „Ákvæði 1. mgr. 68. gr. stjórnar-
skrárinnar um bann við ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu“. Lögberg, rit Laga-
stofnunar Háskóla Íslands, (2003), kafli 7, en þar er fjallað í því samhengi stuttlega um dómafram-
kvæmd Hæstaréttar Bandaríkjanna við skýringu áttunda viðauka við stjórnarskrá Bandaríkjanna,
sjá einkum bls. 676.
28 Það athugast að viðhorf Jónatans Þórmundssonar um þetta efni koma fram í fyrri útgáfum
ritsins Afbrot og refsiábyrgð, sjá fjölrit útgefin 1994 og 1995, einkum 2. útgáfu 1995, bls. 140-147.