Tímarit lögfræðinga - 01.06.2005, Blaðsíða 20
20
meget teoretisk spørgsmål om domstolene på statsretligt grundlag i extreme tilfælde
ville kunne tilsidesætte en lov der praktisk talt ingen vejledning giver for deres
afgørelse. Noget andet er at domstolene i konkret tilfælde kan og skal frifinde hvis
de ikke i en bestemmelses ordvalg finder tilstrækkeligt sikkert grundlag for at anse
forholdet strafbart. Men det betyder ikke at domstolene kan holde sig fri af vurder-
inger og retsskabende funktioner inden for ret vage ordvalg.
Af tilvitnuðum athugasemdum úr framangreindu riti Knud Waaben verður
ráðið að hin takmarkaða viðurkenning í dönskum rétti á tilvist reglu um
skýrleika refsiheimilda virðist m.a. afleiðing af þeirri réttarheimildafræðilegu
stöðu að stjórnarskráin danska hefur ekki að geyma sambærilega tilvísun til lög-
mætisreglu á sviði refsiréttar eins og 1. mgr. 69. gr. íslensku stjórnarskrárinnar
og 96. gr. norsku stjórnarskrárinnar, sem rætt verður um hér síðar. Útgangs-
punktur umfjöllunar um þetta efni er því ákvæði 1. gr. hegningarlaganna
dönsku. Þá hefur hér ugglaust áhrif að danskir dómstólar hafa veitt löggjafanum
verulegt svigrúm við mat á stjórnskipulegu gildi almennra laga.36 Athyglisvert
er að Knud Waaben útilokar þó ekki að dómstólar kynnu á stjórnskipulegum
grundvelli að víkja til hliðar refsiheimild í algjörum undantekningartilvikum
enda væri ekki að finna í refsiheimildinni neinar leiðbeiningar um inntak hennar
og gildissvið. Þá virðast bæði Vagn Greve og Knud Waaben afmarka umfjöllun
sína um skýrleikakröfur í refsimálum að verulegu leyti við þá skyldu dómstóla
að sýkna mann í sakamáli ef vafi leikur á því að háttsemi hans falli undir verkn-
aðarlýsingu refsiákvæðis. Í því sambandi er skírskotað til þess lögskýringar-
sjónarmiðs á sviði refsiréttar að vafi um heimfærslu til refsiákvæða ber að skýra
sakborningi í hag.37 Hefur því verið haldið fram að dómstólar í Danmörku séu
í auknum mæli, og með vísan til meginreglunnar um skýrleika refsiheimilda, að
gera þá kröfu að sakfelling eigi sér ekki stað nema ótvírætt þyki að ætluð refsi-
verð háttsemi falli undir verknaðarlýsingu í refsiákvæði.38 Af umfjöllun Vagn
Greve verður ekki annað séð en að lögð sé áhersla á viðvörunarsjónarmiðið í
þessu sambandi.
36 Dómur Hæstaréttar Danmerkur, U 1999 842 H, er fyrsti og eini dómurinn þar sem rétturinn
hefur komist að þeirri niðurstöðu að almennt lagaákvæði brjóti í bága við stjórnarskrána, sjá hér
m.a. Jens Peter Christensen & Michael Hansen Jensen: „Højesterets dom i Tvind-sagen“. UFR
B 1999, bls. 227-237.
37 Sjá um þetta lögskýringarsjónarmið í íslenskum rétti Jónatan Þórmundsson: Afbrot og refsiá-
byrgð I, bls. 243-245 og til hliðsjónar dóm héraðsdóms í H 1995 3149 (Bjartsmál) en honum er
nánar lýst í kafla 3.2.2 í greininni.
38 Sjá hér einnig Vagn Greve, Asbjørn Jensen & Gorm Toftegaard Nielsen: Kommenteret
straffelov – Almindelig del, bls. 96, en þar segir: „Domstolenes synes i nyere tid at være på vej til
at skærpe kravene til en klar lovhjemmel („lex certa“) … Denne udvikling kan blive fremmet af
menneskerettighedsdomstolens krav om, at straffbare forhold skal beskrives klart i loven“. Í þessu
sambandi er vísað til U 1969 56 H, U 1991 85 H, U 1992 16 V, U 1995 405 V og U 1997 634 V.
Um mörk meginreglunnar um skýrleika refsiheimilda og túlkunar refsilaga er nánar fjallað í kafla
3.3.3.