Tímarit lögfræðinga - 01.06.2005, Blaðsíða 46
stjórnvaldsfyrirmælum inntak slíkra fyrirmæla.90 Hafi ráðherra nýtt þá heimild,
og mælt nánar fyrir um inntak varúðarskyldunnar með fyrirmælum í reglugerð
sem fullnægja sem slík meginreglunni um skýrleika refsiheimilda, kann að
mega líta á hina settu lagareglu og stjórnvaldsfyrirmælin heildstætt sem refsi-
heimild sem fullnægir kröfum 1. mgr. 69. gr. stjórnarskrárinnar.
Í forsendum H 1997 1253 vísar Hæstiréttur m.a. til þeirra forsendna héraðs-
dóms að í reglugerð nr. 536/1988 hafi ekki verið nánar mælt fyrir um geymslu
og meðferð skotelda. Ráðherra hafði því í raun ekki nýtt heimild 2. mgr. 30. gr.
laga nr. 46/1977 til að útfæra hina almennt orðuðu varúðarskyldu 1. mgr. sömu
greinar og þá þannig að lýst væri þeirri háttsemi sem ákærðu var gefið að sök í
ákæruskjalinu. Af þessum sökum fólu þessi ákvæði ekki í sér „viðhlítandi refsi-
heimild vegna þeirrar háttsemi, sem ákærðu [var] gefið sök“.
Þetta viðhorf til mögulegs samspils almennt orðaðra verknaðarlýsinga í
settum lögum í þrengri merkingu og fyrirmæla í stjórnvaldsfyrirmælum um
nánari útfærslu þeirra styðst einnig við tilvitnaðar forsendur í dómi Hæsta-
réttar 18. nóvember 2004 (vinnuvélar). Þar er því lýst að áður en reglur nr.
816/2000 voru settar hafi hvergi verið lýst banni við því að þeir einir mættu
stjórna vinnuvélum sem til þess hefðu réttindi. Í því sambandi bendir Hæsti-
réttur á að 1. mgr. 99. gr. laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi
á vinnustöðum hafi að geyma refsireglu sem vísi til verknaðarlýsinga í öðrum
ákvæðum laganna eða reglugerðum samkvæmt þeim. Í lögunum sé hins vegar
hvergi að finna efnisreglur sem fjalli um verknaðarlýsingu á því broti að stjórna
vinnuvél án réttinda sem ákæran beindist að. Hafi lögin því ekki haft að geyma
heimild til að refsa ákærðu fyrir brotið.
Í þessu sambandi verður að hafa í huga að í lögum nr. 46/1980, sbr. breyting-
arlög nr. 68/2003, er félagsmálaráðherra fengið mjög víðtækt vald til að setja
fyrirmæli um nánari útfærslu laganna í almenn stjórnvaldsfyrirmæli. Í V. kafla
laganna er fjallað um framkvæmd vinnu, í VI. kafla um vinnustaði og í VII.
kafla um vélar, tækjabúnað o.fl. Í upphafi hvers kafla er að finna almennt orð-
aðar varúðar- og öryggisreglur, sbr. 1. mgr. 37. gr., 1. mgr. 42. gr. og 1. mgr. 46.
gr. Þá er í í öllum köflunum að finna boð um að fylgja skuli viðurkenndum
stöðlum, ákvæðum laga og reglugerða, svo og fyrirmælum Vinnueftirlits ríkis-
ins, að því er varðar aðbúnað, hollustuhætti og öryggi, sbr. 2. mgr. 37. gr., 2.
mgr. 42. gr. og 2. mgr. 46. gr. Loks hafa allir kaflarnir að geyma ákvæði sem
kveða á um að félagsmálaráðherra setji nánari reglur, að fenginni umsögn
stjórnar Vinnueftirlits ríkisins, um nánar tilgreind atriði sem þessir kaflar fjalla
um, sbr. 38., 43. og 47. gr. laga nr. 46/1980, sbr. lög nr. 68/2003.
90 Er þá gengið út frá því að með hinni almennu verknaðarlýsingu í settum lögum, og lagaheimild
til setningar almennra stjórnvaldsfyrirmæla um nánari útfærslu slíkrar verknaðarlýsingar, hafi lög-
gjafinn fullnægt þeirri kröfu grunnreglunnar um lögbundnar refsiheimildir til framsals lagasetning-
arvalds á sviði refsiréttar að mæla í settum lögum fyrir um meginafmörkun þeirrar háttsemi sem
gera á refsiverða, sjá Róbert R. Spanó: „Stjórnarskráin og refsiábyrgð“ (fyrri hluti), bls. 38.
46