Tímarit lögfræðinga - 01.06.2005, Blaðsíða 50
friðlýsingu æðarvarps í 2. mgr. 18. gr. laga nr. 64/1994 annars vegar og hins
vegar 3. gr. reglugerðar nr. 252/1996 og síðan auglýsingar sýslumannsins í
Borgarnesi um friðlýsingu æðarvarps í umdæmi sínu, m.a. á 10 jörðum í Hval-
fjarðarstrandahreppi, sbr. til samanburðar dómur Hæstaréttar 28. október
2004 (hvíldartími ökumanna), sjá umfjöllun í kafla 2.3 hér að framan. Enda þótt
héraðsdómur í fyrrnefnda málinu, sem Hæstiréttur staðfestir með vísan til for-
sendna hans, víki ekki beinlínis að sjónarmiðum um skýrleika er athyglisvert að
við mat á vitneskju ákærðu um friðlýsinguna (þ.e. fyrirsjáanleika eiginlegrar
verknaðarlýsingar) var vísað til þess að þeir voru á „skotveiðum á öndverðum
varptíma og hefðu því átt að fara með mikilli gát sem góðir og gegnir veiði-
menn“. Þessi röksemdafærsla líkist óneitanlega aðferðafræði Mannréttinda-
dómstóls Evrópu við mat á fyrirsjáanleikaskilyrði 1. mgr. 7. gr. mannréttinda-
sáttmálans, sbr. ákvörðun dómstólsins um meðferðarhæfi í máli Salov gegn
Úkraínu, sjá kafla 3.1.6 hér að framan.
3.3.6 Frávik frá hefðbundinni tilhögun refsiábyrgðar – er rétt að horfa til
lögskýringargagna við mat á skýrleika refsiheimilda?
Af H 2000 280 (hlutlæg refsiábyrgð skipstjóra) verður ráðið að í meginregl-
unni um skýrleika refsiheimilda felst krafa um að refsiheimild sem felur í sér
afbrigðilega tilhögun refsiábyrgðar, t.d. undantekningu frá þeirri meginreglu
refsiréttar að mönnum sé aðeins refsað fyrir þær athafnir sem raktar verða til
ásetnings þeirra eða gáleysi, verði að vera orðuð með skýrum hætti. Er þessi
afstaða Hæstaréttar til samræmis við þau sjónarmið sem hafa komið fram í
skrifum íslenskra og erlendra fræðimanna.99
Af H 2000 280 og dómi Hæstaréttar 3. apríl 2003 (arnarvarp í Miðhúsa-
eyjum) verður ráðið að Hæstiréttur telji rétt og eðlilegt að horfa til lögskýring-
argagna, einkum frumvarpa og greinargerða með þeim, við mat á því hvort
refsiheimild fullnægi kröfunni um skýrleika refsiheimilda. Í ljósi þess að meg-
inreglan um skýrleika refsiheimilda byggir í fyrsta lagi á kröfu um fyrirsjáan-
leika refsinæmrar háttsemi sem endurspeglast í viðvörunarsjónarmiðinu má að
líkindum setja spurningarmerki við þá lögskýringaraðferð. Í því sambandi
verður þó að gera greinarmun á því hvort refsiheimild sé það almenn og óljós
að hún lýsi ekki hlutlægum viðmiðum eða á skortir að af henni verði leiddar
áþreifanlegar leiðbeiningar um inntak hennar annars vegar eða hvort vafi leiki
hins vegar á um hvorn eða hverja af tveimur eða fleiri haldbærum lögskýring-
arkostum ber að leggja til grundvallar við túlkun refsiheimildarinnar. Ef um
fyrra tilvikið er að ræða er ljóst að athugasemdir í lögskýringargögnum geta
vart lagfært þann stjórnskipulega annmarka sem er á óhóflega almennum og
99 Páll Sigurðsson: Fjölmiðlaréttur, bls. 154; Jónatan Þórmundsson: Afbrot og refsiábyrgð II.
Háskólaútgáfan. Reykjavík (2002), bls. 34; Róbert R. Spanó: „Um vansvefta skipstjóra og afla-
drjúga stýrimenn“, bls. 21, og Vagn Greve: „Om hjemmelen for administrative straffebestemm-
elser“, bls. 125-127, sjá kafla 3.1.3 í greininni. Sjá einnig til hliðsjónar sératkvæði eins dómara í H
1970 212 (veiðar á bannsvæði).
50