Tímarit lögfræðinga - 01.06.2005, Blaðsíða 56
túlkun viðkomandi refsiheimildar.111 Ekki verður t.d. séð að því hafi beinlínis
verið haldið fram í málum þar sem reynt hefur á beitingu 210. gr. almennra
hegningarlaga eftir lögfestingu 1. mgr. 69. gr. stjórnarskrárinnar að á skorti að
ákvæðið fullnægi meginreglunni um skýrleika refsiheimilda. Í ljósi dóma
Hæstaréttar í H 1997 1253 (skoteldar) og H 3. apríl 2003 (arnarvarp í Miðhú-
saeyjum) væri athyglisvert að sjá hvernig dómstólar myndu leysa úr slíkri máls-
ástæðu og þá hvort notast yrði við ofangreinda dómaframkvæmd Hæstaréttar
um túlkun 210. gr. hegningarlaga í því sambandi.
Annað dæmi um hugtak í hegningarlagaákvæði sem ástæða er til að víkja hér
að í þessu samhengi er velferðarmissir í 2. mgr. 130. gr. hegningarlaga. Ákvæði
130. gr. er svohljóðandi í heild sinni:
Ef handhafi dómsvalds eða annars opinbers úrskurðaraðila um lögskipti gerist sekur
um ranglæti við úrlausn máls eða meðferð þess í því skyni, að niðurstaðan verði
ranglát, þá skal hann sæta fangelsi allt að 6 árum.
Hafi verknaðurinn haft eða verið ætlað að hafa í för með sér velferðarmissi fyrir
nokkurn mann, þá skal refsingin vera fangelsi ekki skemur en 2 ár og allt að 16 árum.
(leturbr. höf.)
Í lögskýringargögnum er hugtakið velferðarmissir ekki skýrt nánar. Þetta
ákvæði hefur að geyma skyldubundna refsihækkunarástæðu með hárri lág-
marksrefsingu, þ.e. 2 ár. Það er vandkvæðum bundið að afmarka ákvæðið efn-
islega með lögskýringu enda má segja að hugtakið sjálft og matskennd skír-
skotun þess séu bæði of almenn og óljós. Hugtakið veitir m.ö.o. ekki nægjan-
lega vísbendingu um þau hlutlægu viðmið sem það hefur að geyma eða aðra
áþreifanlega leiðbeiningu um inntak þess. Þá hefur inntak hugtaksins að því er
virðist ekki verið afmarkað nánar í dómaframkvæmd hér á landi. Orðalag 2.
mgr. 130. gr. hegningarlaga fullnægir því að þessu leyti ekki meginreglunni um
skýrleika refsiheimilda.
3.3.9 Eyðuákvæði
Það getur almennt ekki talist í ósamræmi við meginregluna um skýrleika
refsiheimilda að notast sé við svokölluð eyðuákvæði við mótun verknað-
arlýsinga í refsiákvæðum.112 Fara verður hins vegar varlega með slíkar refsi-
heimildir enda verður sem fyrr að gera þá kröfu að slíkar heimildir veiti sann-
gjarna og eðlilega viðvörun um hvaða háttsemi telst refsiverð. Á stundum kann
hins vegar refsiheimild og samspil hennar við hátternisreglur í öðrum skráðum
(eða óskráðum) réttarreglum að verða svo flókin að sú hætta kann að skapast að
111 Til hliðsjónar má einnig minna á að Hæstiréttur Bandaríkjanna hefur byggt á sambærilegri
aðferðafræði í úrlausnum sínum um beitingu meginreglunnar um skýrleika refsiheimilda í banda-
rískum rétti, sjá nánar kafla 3.1.5 í greininni.
112 Um eyðuákvæði í refsiréttarlegri merkingu er að ræða þegar efni verknaðarlýsingar í refsi-
lögum ræðst að hluta til eða að öllu leyti af öðrum réttarreglum, skráðum eða óskráðum, sjá til hlið-
sjónar Jónatan Þórmundsson: Afbrot og refsiábyrgð I, bls. 232.
56