Tímarit lögfræðinga - 01.06.2005, Page 63
krefjast má, að hver góður og samvizkusamur embættismaður fylgi í embættis-
færslu sinni“.128
Það er í sjálfu sér ekkert því til fyrirstöðu að stjórnlögum að löggjafinn
ákveði að gera ráðherra refsiábyrgan í tilvikum sem þessum. Það leiðir hins
vegar af 1. mgr. 69. gr. stjórnarskrárinnar, eins og nánar er rakið í kafla 3.3.3 og
3.3.8, að þegar inntak refsiákvæðis miðast einkum við siðferðislögmál um hin
góða, gegna og skynsama mann, en byggir ekki í sjálfu sér á ólögmætismæli-
kvarða, þá verði slíkt ákvæði að lýsa með fullnægjandi hætti þeirri athöfn sem
löggjafinn telur að eigi vera refsiverð. Hátternisregla 10. gr. rbl. setur ekki fram
nein hlutlæg viðmið eða áþreifanlegar leiðbeiningar um inntak þeirrar refsi-
næmu háttsemi sem hún beinist að og veitir viðkomandi ráðherra því ekki sann-
gjarna viðvörun um hvaða háttsemi hans kann að falla innan gildissviðs
ákvæðsins. Virðist það eiga við hvort sem lagður yrði til grundvallar almennur
og hlutlægur mælikvarði um venjulegan, sakhæfan einstakling eða miðað við
einstaklegan mælikvarða, þ.e. hvernig ákvæðið horfir við viðkomandi ráðherra.
Ákvæðið er því of almennt orðað og óljóst til að fullnægja meginreglunni um
skýrleika refsiheimilda samkvæmt 1. mgr. 69. gr. stjórnarskrárinnar.129
Ákvæði b-liðar 10. gr. rbl. lýsir verknaði sem stofnar heill ríkisins í fyrirsjá-
anlega hættu. Enda þótt orðalagið heill ríkisins kunni við fyrst sýn að valda ein-
hverjum vafa, enda kannski ekki hefðbundið orðalag í lagasetningu nú til dags,
yrði inntak þess líklega skýrt til samræmis við ákvæði annarra laga sem fjalla
t.d. um öryggi ríkisins eða eftir atvikum almannahagsmuni eða almannaheill.
Þá verður hér að hafa í huga þá afmörkun á þeim verknaði sem hér er lýst sem
felst í orðunum fyrirsjáanleg hætta. Mat á því hvort slík hætta sé til staðar
verður eðli máls samkvæmt að byggja á nokkuð hlutlægum sjónarmiðum, t.d.
um mögulegt umfang tjóns sem athöfn ráðherra kann að hafa í för með sér.
Niðurstöður af framangreindu eru þær í fyrsta lagi að a-liður 10. gr. rbl. full-
nægir ekki þeim kröfum um skýrleika refsiheimilda sem leiða af 1. mgr. 69. gr.
stjórnarskrárinnar. Ekki verður aftur á móti fullyrt að á skorti að önnur ákvæði
rbl. fullnægi þeim kröfum. Í öðru lagi er rétt að taka undir það með nefnd for-
sætisráðherra um starfsskilyrði stjórnvalda að þróun í lagasmíð á sviði refsi-
réttar og á sviði mannréttinda mæli með því að lög nr. 4/1963 verði endur-
skoðuð, og þá einnig með tilliti til breyttrar hugtakanotkunar, bæði í nýlegri lög-
gjöf, s.s. á sviði stjórnsýsluréttar, og í daglegu máli.
128 Ólafur Jóhannesson: Stjórnskipun Íslands, bls. 166.
129 Um 10. gr. rbl. segir meðal annars eftirfarandi í skýrslu nefndar forsætisráðherra um starfsskil-
yrði stjórnvalda o.fl., sjá bls. 140: „Í ljósi þess að ákvæðið leggur refsingu við athöfnum sem ekki
eru ólögmætar samkvæmt öðrum landslögum leikur vafi á hvort hin almenna verknaðarlýsing 10.
gr. laganna teljist nægjanlega skýr samkvæmt þeim kröfum sem í dag eru gerðar til refsiákvæða. Þá
skal jafnframt bent á að með lögfestingu málsmeðferðarreglna sem fylgja ber við meðferð
stjórnsýslumála, jafnræðisreglna og meðalhófsreglna hafa brot á þessum reglum flust undan a-lið
10. gr. yfir í 9. gr. laganna sem fjallar um brot ráðherra gegn fyrirmælum laga, en ekki er vafa und-
irorpið að a-lið 10. gr. hefur ekki síst verið ætlað að ná til brota sem nú falla undir þessar reglur“.
63