Tímarit lögfræðinga - 01.06.2005, Qupperneq 95
heldur geta þau ekki síður haft tilfinningalegt gildi. Á þetta einkum við um
gæludýr og hesta. Slasist dýr vaknar sú spurning hvort þeim sem ábyrgð ber
verði gert að greiða læknis- og lyfjakostnað þar til dýrið nær bata, eða hvort
hægt sé að takmarka bæturnar við verðmæti dýrsins, og ef svo er hvernig á þá
að meta verðmætið. Það er tjónþolinn, eigandi dýrsins, sem verður að sanna
tjón sitt, þ.e. verðmæti þess. Það getur hann gert á venjulegan hátt með mati, er
byggist á haldbærum gögnum um dýrið og eiginleika þess, svo sem kynbóta-
dómum eða dómum frá sýningum og vottorðum manna er þekkja til þess. Þá er
sanngjarnt að taka tillit til þess hvers vænta má af dýrinu í framtíðinni og hvaða
tekjur það hefði getað fært eiganda sínum. Þessi sjónarmið koma t.d. til álita
varðandi keppnis- eða sýningardýr og vænleg undaneldisdýr. Það er einnig eig-
andinn, í flestum tilvikum a.m.k., sem ræður því hversu langt er gengið í að
lækna slasað dýr og er það þá hans mat, hugsanlega byggt á tilfinningalegum
tengslum hans við dýrið, sem ræður. Hins vegar verður tjónvaldi ekki gert að
greiða bætur fyrir lækniskostnað sem fer fram úr verðmæti dýrsins. Þau rök eru
til þess að dýr hafa sitt verðmæti eins og aðrir hlutir, og sá sem veldur tjóni á
dýri á ekki að þurfa að sæta því að verða að greiða hærri bætur vegna þess að
tjónþolinn er bundinn við það tilfinningaböndum.12 Hér er um að ræða sama
hlutinn og þegar maður á gamla bifreið sem honum þykir „vænt um“, en er
verðlítil á almennum markaði. Skemmist hún eða eyðileggst í árekstri verður
eigandinn að sætta sig við að fá markaðsverð í bætur. Þessu til stuðnings má
nefna H 1993 2114, en þar var maður sakfelldur fyrir brot gegn 1. mgr. 257. gr.
almennra hegningarlaga nr. 19/1940 fyrir að skjóta hund er hlaupið hafði í
lambfé hans.
Drepist dýr er niðurstaðan hin sama, eigandinn verður að sætta sig við bætur
fyrir verðmæti dýrsins, eins og það er metið, en á ekki rétt á „sárabótum“.13
4.2 Áhættutaka og eigin sök
Þessi skyldu atriði koma oft til álita á þessu sviði, sérstaklega mun það eiga
við um áhættutöku. Samþykki gæti einnig átt undir þessa umfjöllun, en þar eð
sjaldgæft mun líklega vera að menn samþykki beinlínis að dýr valdi þeim tjóni
verður ekki frekar fjallað um það atriði. Um hin atriðin verður nú fjallað í einu
lagi.
Líklega er gleggsta dæmið um áhættutöku á þessu sviði maður sem tekur að
sér að vinna með hættuleg villidýr, svo sem ljón eða krókódíla. Maður sem
umgengst hættuleg villidýr í eigu annarra, hvort heldur er í vinnu eða frítíma,
tekur áhættu, sem samkvæmt almennum reglum skaðabótaréttarins kann að
valda því að hann missi rétt til bóta.14 Hér á landi eru ekki hættuleg villidýr og
vart verða gæludýr þau, sem hér eru haldin, eða búfénaður almennt talinn
95
12 Sbr. Arnljótur Björnsson: Skaðabótaréttur. 2. útg. Reykjavík 1999, bls. 23.
13 Sbr. Arnljótur Björnsson: tilvitnað rit bls. 14.
14 Sbr. Arnljótur Björnsson: tilvitnað rit bls. 128.