Tímarit lögfræðinga - 01.06.2005, Síða 100
1. INNGANGUR
Mestan hluta 20. aldar var kenningin sú í íslenskri lögfræði að dómstólar
gætu ekki hróflað við frjálsu mati stjórnvalda og að endurskoðun þeirra á
ákvörðunum, þar sem stjórnvöldum hefur verið falið fullnaðarúrskurðarvald,
væri takmörkuð. Í Stjórnarfarsrétti frá 1955 benti Ólafur Jóhannesson t.d. á að
varðandi matskenndar ákvarðanir eða „úrskurð um meðferð lögleyfðs valds“
væri aðalreglan sú að dómendur gætu ekki hreyft við ákvörðun stjórnvalds
sem væri undir frjálsu mati þess komin nema til þess væri sérstök heimild í
löggjöf.1 Í öllum tilvikum mætti bera það undir dómstóla hvort mál ætti að
sæta fullnaðarúrlausn framkvæmdarvalds eða dómstóla. Kæmust dómstólar
að þeirri niðurstöðu að stjórnvöldum bæri fullnaðarúrlausn gætu þeir ekki
haggað ákvörðun sem að öðru leyti fullnægði lagaskilyrðum, væri í réttu
formi, réttra aðferða hefði verið gætt o.s.frv.2 Hann gekk þannig út frá því að
með skýru lagaákvæði væri hægt að undanþiggja stjórnvaldsákvarðanir úr-
lausn dómstóla. Þessar kenningar um matskenndar ákvarðanir annars vegar og
fullnaðarúrskurðarvald hins vegar voru taldar helstu tvær takmarkanirnar á
endurskoðunarvaldi dómstóla að því er snerti stjórnvaldsákvarðanir. Þetta var
sprottið upp úr hugmyndum frá miðri 19. öld um það „að dómendum [væri]
aðeins ætlað að úrskurða um lögmæti embættisathafna, en eigi um réttmæti
þeirra. Þeim [væri] með öðrum orðum, ætlað að dæma um takmark valdsins,
en eigi um meðferð lögleyfðs valds, hvort því hefði verið beitt með sanngirni
og skynsemi“.3
Grein þessi er sprottin af því að ég var beðin um að halda fyrirlestur
um úrskurðarvald dómstóla um matskenndar stjórnvaldsákvarðanir og um
ákvarðanir þar sem stjórnvöldum hefur verið falið fullnaðarúrskurðarvald með
lögum. Vegna þess sem hér var rakið er efni hennar hins vegar í raun ekki end-
urskoðun dómstóla á matskenndum stjórnvaldsákvörðunum annars vegar og
þeim núorðið fáu ákvörðunum sem eru teknar af stjórnvöldum sem hefur verið
falið fullnaðarúrskurðarvald hins vegar, heldur hugsanlegar takmarkanir á
endurskoðunarvaldi dómstóla að því er snertir stjórnvaldsákvarðanir.
Til að nálgast þetta efni verður fyrst brugðið upp mynd af því hvernig end-
urskoðun dómstóla á stjórnvaldsákvörðunum er háttað. Hún verður fyrst og
fremst byggð á nýlegum dómum. Þróunin hefur gengið í þá átt að æ minni tak-
markanir á endurskoðunarvaldi dómstóla eru viðurkenndar4 en hér verður
skoðað hvort einhverjir þættir stjórnvaldsákvarðana verði ekki endurskoðaðir.
Myndin af endurskoðunarvaldinu verður svo sett í samhengi við þrígrein-
ingu ríkisvaldsins yfirleitt og hlutverk dómsvaldsins sérstaklega. Í framhaldi
1 Ólafur Jóhannesson: Stjórnarfarsréttur, bls. 328.
2 Sama heimild, bls. 317.
3 Sama heimild, bls. 317.
4 Sjá almennt Starfsskilyrði stjórnvalda, bls. 93 og Jon Andersen: „Domstolsprøvelse“. Forvalt-
ningsret. 2. útg. 2002, bls. 826.
100