Tímarit lögfræðinga - 01.12.2006, Blaðsíða 38
381
einnig skort sérkenni hér á landi ef um væri að ræða tungumál sem gera
mætti ráð fyrir að þorri almennings þekkti til, eins og t.d. enska tungu.
Þá var m.a. bent á í úrskurðinum að dómstóllinn hefði á undanförnum
árum oft tekið afstöðu til þess hvernig túlka bæri ákvæði c-liðar 1. mgr. 7. gr.
reglugerðarinnar um Evrópuvörumerki, samhljóða ákvæði c-liðar 1. mgr. 3.
gr. tilskipunarinnar, og þar sem tilskipunin væri hluti af EES-samningnum
væri eðlilegt að líta til dóma dómstólsins. Mismunandi túlkun gæti haft í
för með sér að frjáls flutningur vöru og þjónustu yrði torveldaður á EES-
svæðinu. Bent var á að þeir dómar sem hvað mesta athygli hefðu vakið væru
Baby-Dry- og Doublemint-dómarnir.
Í úrskurðinum var síðan vísað til þess að í Doublemint-málinu hefði Ja-
cobs aðallögsögumaður skilgreint þrjú viðmið við mat á því hvort merki
væri lýsandi eða ekki. Í fyrsta lagi bæri að líta til þess hvort orðmerkið væri
líklegt til að vera notað sem almenn lýsing á viðkomandi vöru. Í öðru lagi
hvort orðasambandið væri venjubundin orðnotkun til að lýsa ákveðnum
eiginleikum vöru eða þjónustu og í þriðja lagi bæri að taka mið af því hversu
mikilvægir viðkomandi eiginleikar væru fyrir vöruna eða þjónustuna sem
merkið ætti að auðkenna. Þá var viðmiðunum beitt á merkið Silk Essentials
og í fyrsta lagi var ekki talið líklegt að orðin Silk Essentials yrðu notuð sem
almenn lýsing á hreinlætisvörum, í öðru lagi voru þau ekki talin venjubund-
in orð til að lýsa ákveðnum eiginleikum varanna og í þriðja lagi var ekki talið
að þeir eiginleikar sem orðasambandið vísaði hugsanlega til, þ.e. eitthvað
mjúkt og nauðsynlegt, gætu talist mikilvægustu eiginleikar til dæmis sápu,
klórs, tannkrems og hárbursta. Niðurstaða áfrýjunarnefndarinnar var því
sú að merkið væri hugsanlega vísbendandi fyrir einhverjar þær vörur sem
sótt væri um skráningu fyrir en ekki lýsandi fyrir neinar þannig að það kæmi
í veg fyrir skráningu þess hér á landi.
Í síðari úrskurðum áfrýjunarnefndarinnar um mat á því hvort merki
séu lýsandi og skorti sérkenni hefur verið vísað til dóma dómstólsins, bæði
Baby-Dry- og Doublemint-dómanna, sem og til Postkantoor málsins, og á því
byggt að eðlilegt sé að líta til fordæma dómstólsins vegna aðildar Íslands að
Evrópska efnahagssvæðinu og innleiðingar tilskipunarinnar í íslensk lög.168
168 Í tveimur málum frá 18. júlí 2005, málum nr. 24/2004 og 25/2004, þar sem óskað var
skráningar á orðmerkjunum VitaCforte og VitaC, fyrir m.a. vítamín og fæðubótarefni, var
byggt á sömu sjónarmiðum og í úrskurði nefndarinnar í Silk Essentials málinu við mat á því
hvort merki væru lýsandi og skorti sérkenni. Niðurstaðan var sú í báðum málunum að þegar
litið væri á heildarmynd hins samsetta orðmerkis áfrýjanda yrði að telja að orðhlutinn „vita“
væri áhersluhluti merkisins, bæði sjónrænt og hljóðrænt séð. Þó svo að samsetning orðsins,
annars vegar með bókstafnum C og orðhlutanum forte og hins vegar með bókstafnum C, gæti
leitt hugann að vítamínum yrði ekki talið að það kæmi í veg fyrir að merkin teldust hafa nægileg
sérkenni til að greina vörur eiganda þess frá vörum annarra í skilningi 1. mgr. 4. gr. vml.