Skírnir - 01.09.2008, Page 6
Frá ritstjóra
Islendingar lifa nú skeið sem á eftir að breyta sýn flestra á samfélag og umheim;
enginn sér enn fyrir endann á ósköpunum og aðeins eitt er víst: ekkert mun verða
sem fyrr. Þegar umbrotatímarnir hófust var Skírnir kominn í umbrot, og kannski
eins gott; tímarit sem þetta þarf fjarlægð til að geta metið það sem á hefur gengið.
Þó er ein ritsmíð sem bregst beinlínis við tíðindum undanfarinna vikna, en það er
snörp grein Þorvaldar Gylfasonar í Skírnismálum. Hitt vita lesendur Skírnis mæta
vel að ýmsir höfundar, eins og til dæmis Páll Skúlason, hafa gagnrýnt það sem þeir
kalla taumlausa markaðshyggju í Skírni á undanförnum árum. Hér svarar Hannes
Hólmsteinn Gissurarson þeim með grein sem hann kallar því margræða nafni
„Ósigur frjálshyggjunnar?". Það er óhætt að lofa framhaldi á umræðunni um
markaðshyggju og manngildi í næsta hefti og þá verður einnig leitað svara við
spurningunni, hvað gerðist í október 2008?
En það eru fleiri greinar í Skírni sem óbeint tengjast breytingu hugarfarsins.
Það er fróðlegt að spyrja sig hvað verði um goðsögnina um útrásarvíkingana í ljósi
greinar Guðna Th. Jóhannessonar um goðsagnir landhelgisstríðanna, með sama
hætti og grein Ármanns Jakobssonar og Hönnu Bjargar Sigurjónsdóttur um birt-
ingarmyndir fötlunar í þjóðsögum og í nútímanum hlýtur að vekja til umhugsunar.
Og myndlistarmaður Skírnis að þessu sinni, Hlynur Hallsson, hefur allt annan
skilning á sambandi listar og samfélags en við erum vön, eins og fram kemur í grein
Gunnars J. Árnasonar.
Öll þau 182 ár sem Skírnir hefur verið gefinn út hefur hann látið sig varða hag
lands og þjóðar, þótt áherslan hafi kannski öðru fremur verið á bókmenntir, sagn-
fræði og heimspeki. í þetta hefti skrifar raunvísindamaðurinn Halldór Björnsson
um kenningar um hnattræna hlýnun og loftslagsbreytingar af manna völdum.
Hvaða hættur steðja að mannkyni vegna þessarar þróunar? Hvernig munu lofts-
lagsbreytingarnar hafa áhrif á ísland? Þetta eru spurningar sem eru jafn mikilvægar
nú og fyrir bankakreppu.
Kjölfesta Skírnis er samt á sínum stað: Sveinn Einarsson varpar nýju ljósi á
leikhúsmanninn Guðmund Kamban og styðst þar meðal annars við bréf til Soffíu
Guðlaugsdóttur, en tvö þeirra eru birt með greininni. Páll Bjarnason dregur líka
upp nýja mynd af tengslum Jónasar Hallgrímssonar og Tómasar Sæmundssonar,
Ástráður Eysteinsson og Eysteinn Þorvaldsson ræða um þýðingar og viðtökur
Eliots á íslandi, Berglind Gunnarsdóttir fjallar um ljóðlist Halldóru B. Björnsson
og Ingunn Ásdísardóttir um átrúnað á Freyju meðal landnámsmanna. Þórarinn
Eldjárn sýnir lesendum Skírnis þann sóma að birta í heftinu tvö ný ljóð og Gunn-
þórunn Guðmundsdóttir fjallar um nýleg íslensk æviskrif.
Það er von ritstjóra að Skírnir sé sem fyrr ögrandi spegill samtímans og fróð-
legur vitnisburður sögunnar.
Góða skemmtun!
Halldór Guðmundsson