Skírnir - 01.09.2008, Page 28
302
HALLDÓR BJÖRNSSON
SKÍRNIR
taka ákvarðanir sem stefna mörgum tegundum lífvera í útrým-
ingarhættu? Er eitthvað sem takmarkar rétt okkar til að taka slíkar
ákvarðanir?
Skoða má þessar spurningar í ljósi þess sem kalla má tilvistar-
rök, þ.é. spurningarinnar um það hvort náttúran hafi verðmæti
óháð tilvist mannkyns, og einnig í ljósi þess sem kalla má nytja-
rök, þ.e. hvert sé verðmæti þeirrar þjónustu sem vistkerfi inna af
hendi. Dæmi um þjónustu sem vistkerfi inna af hendi er vatns-
hreinsun sem getur átt sér stað í mýrlendi, og mikilvægi skóg-
lendis til að hefta jarðvegsrof. Tilraunir til að meta verðmæti
þjónustu vistkerfa gefa misvísandi niðurstöðu, allt að margfaldri
heimsframleiðslu.18 Auknar líkur á tegundadauða vekja athygli á
spurningunni hvort náttúran hafi sjálfstætt verðmæti óháð þeirri
arðsemi sem menn hafa af þjónustu hennar. Mannkynið er hluti af
lífríkinu. Við erum öðrum lífverum háð um allt okkar viðurværi.
Svo dæmi sé tekið þá ljóstillífum við ekki, það gera aðrar lífverur
og framleiða við það súrefni sem við öndum að okkur. Mann-
kynið er frekar nýtilkomið, og lífríkið hefur átt sér langa tilvist án
okkar afskipta. Það er því ekki erfitt að rökstyðja að lífríkið sé í
ákveðnum skilningi okkur æðra. Sá möguleiki að við verðum völd
að útrýmingu fjölmargra tegunda er þá ekki ásættanlegur.
Loftlagsbreytingar vekja upp spurningar um réttlæti í heimi
þar sem fátækar þjóðir þola afleiðingar athafna hinna ríkari, þær
vekja upp siðferðilegar spurningar um það hver sé réttur komandi
kynslóða til arftöku á sæmilegu búi, og þær vekja upp þær spurn-
ingar hvort aðrar lífverur hafi tilvistarrétt óháð notum okkar af
þeim. Þó að þessar spurningar tengist loftslagsbreytingum þá eru
þær ekki loftslagsvísindi. Þær eru siðferðilegs eðlis, og vísindin
geta einungis varpað ljósi á atriði sem nýtast við ákvarðanatökuna.
Það þarf ekki sérþekkingu í veðurfræði, líffræði eða hagfræði til
að svara því hvort bregðast eigi við.
18 Costanza o.fl. (1997) meta að verðmæti þjónustu vistkerfa geti verið allt að þre-
föld heimsframleiðslan, þó þeir viðurkenni reyndar að líklegast sé um vanmat að
ræða. Fjallað er um vistkerfi og verðmæti þeirrar þjónustu sem þau veita í 4. kafla
skýrslu annars vinnuhóps IPCC (Fischlin o.fl. 2007). Sjá einnig umfjöllun í 3.
kafla í bók Ólafs Páls Jónssonar, Náttúra, vald og verbmœti (2007).