Skírnir - 01.09.2008, Síða 43
SKÍRNIR
UM LEIKHÚSMANNINN KAMBANN
317
álíta að það hafi haft áhrif á skoðun hans; þetta hefur miklu
sennilegar verið kalt mat hins æfða stjórnmálamanns og rit-
stjóra; stemningin í Kaupmannahöfn, einkum í blöðunum, var
einfaldlega þannig á árunum fyrst eftir stríð.
d) Dönsk stjórnvöld hafa aldrei fyllilega hreinsað mannorð hans og
lýst yfir að ekki hefðu verið forsendur fyrir neins konar dóms-
áfellingu, hvað þá handtöku og vígi. Þegar málið lenti á borði
ríkissaksóknara Dana í mars 1947, komst hann að þeirri niður-
stöðu, að þrátt fyrir drápið væri ekki ástæða til frekari eftirmála.22
e) íslensk stjórnvöld hafa látið við þetta sitja.
f) Þess vegna er í opinberri danskri leiklistarsögu frá 1992 látið að
því liggja, að Guðmundur Kamban hafi á frelsisdegi Dana, 5.
maí 1945, hlotið makleg málagjöld fyrir framferði sitt á her-
námsárunum.
Þó að morð án dóms og laga sé aldrei réttlætanlegt í réttarfarsríki,
þá miðuðust uppgjörsaðfarir að dönskum nazistum og meðreiðar-
sveinum þeirra fyrst og fremst að því að kanna hugsanleg landráð.
Nú gátu Þýskalandsdvöl Kambans, fyrirlestraferðir um íslenskar
fornbókmenntir og vænissjúk viðbrögð við skertu tjáningarfrelsi
ekki flokkast undir landráð. Augljóst er að Kamban settist að í
Þýskalandi og flutti umrædda fyrirlestra í því skyni að koma
verkum sínum á framfæri. Metnaður hans var alla tíð mikill. Vinur
Kambans, Kristján Albertsson, lýsir skaphöfn skáldsins þannig,
að það hafi átt trú gullaldar-íslendingsins á mátt sinn og megin. Hann átti
kapp hans og hetjulund, hinn heita, stælta vilja, og þá ofurdirfð, sem ekki
lét sér í augum vaxa það, sem aðrir töldu ókleift, — hann átti líka hið
harðskeytta og viðureignar-illa í fari feðra okkar, hið óvægna skap, ef
honum þótti, eða á móti blés ...23
Hann vildi sigra heiminn og ef Danir héldu honum utangarðs, að
honum fannst, þá voru Þjóðverjar þeir einu sem voru líklegir til að
opna honum gáttir. Til Islands átti hann lítið að sækja.
22 RA (K). JMT. 1948/76.
23 Kristján Albertsson, „Guðmundur Kamban“, Guðmundur Kamban. Skáld-
verk I, Reykjavík 1969, bls. 12.