Skírnir - 01.09.2008, Page 110
384
PÁLL BJARNASON
SKÍRNIR
Jónas var í Reykjavík þegar Tómas lést, en fékk ekki dánarfregnina
fyrr en 29. maí. Þá barst Jónasi beiðni „austan að“ um að hann
semdi æviágrip Tómasar fyrir sr. Jóhann Björnsson, sem átti að
jarðsyngja, og skyldi það vera tilbúið kvöldið eftir. Hann kvaðst því
hafa setið við allan næsta dag við skriftir.65 Jónas fór ekki austur til
að fylgja Tómasi til grafar. Þegar hann skrifar Steenstrup 5. júlí, þá
enn í Reykjavík, er hann ekki viss um hvenær Tómas dó: „Ved du,
kære ven! at landets bedste m[and] er borte? Provst Sæmundsson
döde, jeg tror den 24. maj, af tæring. En sörgerlig efterretning."66
Jónas hlaut að yrkja eftir Tómas. Sagan segir að hann hafi mælt
upphafsorð kvæðisins þegar hann fékk andlátsfréttina og síðan
prjónað við þau. Víst er um það að tvær fyrstu hendingarnar hafa
orðið fleygari en flest annað í skáldskap Jónasar:
Dáinn, horfinn, harmafregn,
hvílíkt orð mig dynur yfir.
Næstu tvær hendingar standa þar lítt að baki:
En eg veit að látinn lifir;
það er huggun harmi gegn.
Þar með er tónninn gefinn. Jónas yrkir viðamikið erfiljóð, hátt-
urinn með óvenjulegu rími og stuðlum og kvæðið því sett saman
af mikilli íþrótt. Kvæðið snýst um það sem segir í upphafi þess,
trúna á líf eftir dauðann, að guð hljóti að ætla manninum hlutverk
handan dauða úr því að hann hrifsar til sín slíkan afburðamann á
ungum aldri. Kunnuglegt trúarstef sem skáldið tjáir af einlægni.
Jónas setur sig í guðfræðilegri stellingar en hans var vandi, ef til
vill vegna þess að hann hafði sjálfur hug á því að gerast prestur um
þær mundir sem fyrr segir, auk þess sem sá látni var guðfræðing-
ur.67 En einhvern veginn saknar lesandinn heiðríkjunnar og mynd-
vísinnar sem einkennir bestu ljóð Jónasar, einlægrar sorgar, sterkra
65 Ritverk Jónasar Hallgrímssonar 1989 11:80-81 (bréf til Konráðs, dags. 2. ágúst
1841).
66 Ritverk Jónasar Hallgrímssonar 1989 11:70.
67 Um trúarlegan þátt þessa ljóðs sem og annarra erfiljóða Jónasar sjá Torfa K.
Stefánsson Hjaltalín 2006:501-506.