Skírnir - 01.09.2008, Page 117
INGUNN ÁSDÍSARDÓTTIR
Íslands-Freyja
Um hugsanlegan átrúnad á Freyju á íslandi
meðal landnámsmanna
Um það er engum blöðum að fletta að margir þeirra landnáms-
manna, ef ekki flestir, sem hingað komu höfðu ekki enn tekið
kristna trú, heldur blótuðu þau heiðnu goð sem þeir sjálfir og for-
feður þeirra höfðu gert um langa hríð í föðurlandi sínu. Um þetta
vitna fjölmargar heimildir, bæði textar sem hafa sagnfræðilegt gildi
á margvíslegum sviðum, þó nokkuð af fornleifum sem fundist
hafa hér á landi, svo og örnefni. Allar leggja þessar heimildir þó
áherslu á karlgoðin og samkvæmt þeim munu Þór og Freyr hafa
verið þau goð sem einkum nutu átrúnaðar meðal landnámsmann-
anna sem settust hér að. Eru þetta einkum frásagnir af landnáms-
mönnum sem tóku niður Þórshof sín í Noregi og fluttu með sér
hingað og endurreistu, köstuðu öndvegissúlum með Þórsmynd
fyrir borð á skipum sínum til að fá leiðsögn um hvar þeir skyldu
helst búsetja sig hér o.fl.1 Af fornleifum sem hér hafa fundist og
virðast beinlínis tengjast átrúnaði er helst að minnast á hinn svo-
kallaða Eyrarlands-Þór, ofurlítið líkneski sem fannst á Eyrarlandi
í Eyjafirði, og Þórshamar úr Vatnsdal. Goðtengd örnefni hér á
landi eru nokkuð mörg, langflest þeirra vísa til Þórs, þrjú til Freys
og nokkur fjöldi örnefna hefur viðskeyti sem vísa til helgistaða.
Ég tel þó slíka yfirburði karlgoðanna ekki einhlíta og mun í
þessari grein færa rök fyrir því að átrúnaður á kvenleg goðmögn,
einkum Freyju, hafi verið meiri meðal landnámsmanna hér á landi
en menn hafa almennt talið.
1 Landndmabók 1968:124, Eyrbyggja saga 1987:538-539: Þórólfur Mostrarskegg,
öndvegissúlur og hof; Kjalnesinga saga 1987:1438: hof; Landndmabók 1968:55:
Kollur í Kollsvík hét á Þór í hafi: áheit; o.fl. o.fl.
Skírnir, 182. ár (haust 2008)