Skírnir - 01.09.2008, Side 141
SKÍRNIR
T.S. ELIOT Á ÍSLANDI
415
um orðaleik, sem er ekki síður merkingarþrunginn í samhengi
ljóðsins, því að hann tengir á milli „orðsins" og lýsingarháttar þá-
tíðar af sögninni „verða“ („sé hið útslitna orðið útslitið"). Fyrir
vikið hljómar tilurðin á sérlega áhrifaríkan hátt í íslensku gerðinni.
Lokaljóð Annarlegra tungna er „Snjór“ eftir Motokata, jap-
anskt níundualdar-skáld, en næst á undan því birtast tveir kórar úr
leikriti Eliots Morðinu í dómkirkjunni: upphaf annars hluta
verksins („Does the bird sing in the South?“ / „Syngur fuglinn í
suðri?“), og söngur kórsins, línurnar sem sungnar eru þegar ridd-
ararnir drepa biskupinn, en hann hefst svo hjá Jóhannesi: „Hreins-
ið loftið! Hreinsið skýin! Þvoið storminn! Takið stein af steini og
þvoið þá.“15
Öll er þessi bók Jóhannesar blanda lífsfögnuðar og dökkrar
lífssýnar. Eliot leggur augljóslega til skerf í hið síðarnefnda en
einnig, á flóknari hátt, til hins fyrrnefnda. í ljóðum bókarinnar
ríkir almennt og sérstaklega í ljóðum Eliots ferskleiki og róttækni
á heimsvísu sem fær okkur til að gleyma um sinn hinum nafntog-
aða staka módernista; okkur birtast þessar ljóðlínur hans ásamt
fjölbreyttum ljóðum öðrum í ríkulegum vefnaði sem er í senn
trúarlegur, tilvistarlegur, pólitískur og ljóðrænn.
5
Svo vildi til að árið 1948, þegar fyrstu íslensku þýðingarnar á
kvæðum Eliots birtust í Annarlegum tungum, hreppti Eliot Nóbels-
verðlaunin í bókmenntum. Viðurkenningin varð til þess að skáld-
ið hlaut víðtækari athygli en áður á íslandi eins og annarsstaðar.
íslensk bókmenntaöfl hlutu að líta í vaxandi mæli til verka hans,
en í ljósi þess að Rauðir pennar, undir forystu Kristins E. Andrés-
sonar, höfðu um árabil verið öflugur menningarhópur á íslandi
15 Sama heimild, bls. 90. Frumtexinn er svo: „Clean the air! clean the sky! wash
the wind! take stone from stone and wash them“ (275). Athyglisvert er að
þýðandinn kýs að þýða „the sky“ (himininn) sem „skýin“. Hann velur sterkt
myndmál fram yfir merkingarlega nákvæmni. Þess ber þó jafnframt að gæta að
sú nákvæmni hefði orkað tvímælis í þessu trúarlega verki, því „himinn" er ein-
mitt oft notað í trúarlegri merkingu á íslensku, og þeirri merkingu hefði slegið
inn með orðinu hér, þar sem hún er ekki fyrir í enska orðinu „sky“.