Skírnir - 01.09.2008, Síða 144
418
ÁSTRÁÐUR OG EYSTEINN
SKÍRNIR
sagnagerð.17 Þegar árið 1951 var Kristinn raunar orðinn mjög tor-
trygginn gagnvart nýstárlegum umbrotum í íslenskum skáldskap.
Þá ritdæmdi hann fyrstu bók Thors Vilhjálmssonar, Maðurinn er
alltaf einn. Honum finnst of mikið um bölsýni, tilvistarlega þætti
og tilraunastarfsemi í þessari frumsmíð Thors.18 Thor var snemma
orðaður við „Eliotisma", líklega ekki síst vegna þess að einkunn-
arorð þessarar fyrstu bókar hans komu úr nýlegu leikriti Eliots,
The Cocktail Party:
What is hell? Hell is onself,
Hell is alone, the other figures in it
Merely projections. There is nothing to escape from
And nothing to escape to. One is always alone.19
Þessar línur, mæltar af Edward Chamberlayne í leikritinu, hafa
víðtæka merkingu hjá Thor eins og undirstrikað er með titli bók-
arinnar sem er þýðing á lokamálsgreininni: Maðurinn er alltaf einn.
Tengslin milli Eliots og Thors ættu að hvetja til gjörólíks skilnings
á verkum Eliots en þeim sem felst í hefðbundnum, marxískum
athugasemdum Kristins E. Andréssonar. Hér tengjast tilvitnan-
irnar í Eliot ritverki þar sem eftirköst seinni heimsstyrjaldarinnar
blandast tilvistarlegum hugmyndum sem bjóða ekki einungis
borgaralegri sjálfsánægju birginn, heldur einnig trúnni á sérhverja
einhæfa, afmarkaða hugmyndafræði. Óvíst er að Eliot hefði
sjálfum líkað slíkur skilningur á verki sínu, en þetta beið hans í
framvindu bókmenntasögunnar og hið sama má segja um aðra
módernista sem ýmist voru endurmetnir eða uppgötvaðir í stríðs-
hrjáðri Evrópu um miðja tuttugustu öld. Franz Kafka varð til dæmis
ekki einn af meginhöfundum í evrópskum bókmenntum fyrr en
eftir seinni heimsstyrjöldina.
Thor Vilhjálmsson lét stöðugt meira að sér kveða sem höfund-
ur stuttra prósaverka, ferðafrásagna, ritgerða og síðar skáldsagna.
17 Sbr. greinar Kristins í Tímariti Máls og menningar, 1. hefti 1966 og 2. hefti
1967.
18 Kristinn E. Andrésson: [umsögn um Maðurinn er alltaf einri), Tímarit Máls og
menningar, 1. hefti, 1951, bls. 102-103.
19 Thor Vilhjálmsson: Maðurinn er alltaf einn, Reykjavík 1950, bls. 5.