Skírnir - 01.09.2008, Page 184
458
GUÐNI TH. JÓHANNESSON
SKÍRNIR
saga“ eins og Sigurður Nordal komst eitt sinn að orði um sögu
sjálfstæðisbaráttunnar á hans dögum.10
í þessari grein verða nokkrar goðsagnir um þorskastríðin tekn-
ar fyrir en í stuttu máli er hetjusaga þessara helstu átaka íslendinga
á 20. öld eitthvað á þessa leið: Þau voru óhjákvæmileg og lífs-
hagsmunir þjóðarinnar voru í veði. Rétturinn var ætíð íslands
megin og íslenskir embættis- og ráðamenn höfðu mikil áhrif á
þróun hafréttar í heiminum. Þótt íslendinga hafi stundum greint á
um aðferðir voru þeir sammála um lokamarkmiðið og stóðu ein-
huga andspænis andstæðingum sínum. Bretar beittu hiklaust of-
beldi á miðunum og stefndu leynt og ljóst að því að sökkva ís-
lenskum varðskipum. Kænska og hugrekki okkar manna skipti
sköpum, einkum á sjó en einnig í landi.
Goðsagnir um áhrif Islendinga á þróun hafréttar
Oftar en ekki er gengið að því sem vísu á íslandi að ákvarðanir
íslendinga hafi ráðið miklu um þróun hafréttar á seinni hluta síð-
ustu aldar. Sumarið 2006, 30 árum eftir lok þorskastríðanna, full-
yrti Einar K. Guðfinnsson sjávarútvegsráðherra að það færi „ekki
á milli mála að forysta okkar á þessu sviði markaði spor í þróun
alþjóðlegs hafréttar. Við ruddum leiðina og aðrar þjóðir urðu
sporgöngumenn okkar."* 11 Árið 2008 tók Ólafur Ragnar Gríms-
son, forseti íslands, í sama streng og lýsti því að „smáríki hefði
tekið frumkvæði og verið öðrum fordæmi".12
Hér er of djúpt í árinni tekið. Atbeini íslendinga í landhelgis-
málum gat vissulega skipt máli í heildarsögu hafréttar. Sem dæmi
10 Sigurður sagði „mjög erfitt að skrifa ærlega um sögu íslendinga af því að flest
af því, sem um hefur verið skrifað, er miðað við sjálfstæðisbaráttuna og meira
og minna fölsuð saga“. Emil Björnsson, Minni og kynni: Frásagnir og viðtöl
(Reykjavík, 1985), bls. 86.
11 Einar K. Guðfinnsson, „Öld hinna miklu stjórnmálasigra", Átökin um auð-
lindina, sérblað með Morgunblaðinu 31. maí 2006.
12 Ræða forseta íslands Ólafs Ragnars Grímssonar við setningu ráðstefnu utan-
ríkisráðuneytis og Rannsóknaseturs um smáríki, „Small States — Emerging
Power?“ 16. júní 2008, [http://www.forseti.is/media/files/08_06_16_small_
states.pdf].