Skírnir - 01.09.2008, Síða 192
466
GUÐNI TH. JÓHANNESSON
SKÍRNIR
freigátukapteina. Þorskastríðin voru háð í miðju kalda stríðinu,
samúð annarra þjóða var yfirleitt með „litla íslandi" og alþjóðalög
leyfðu Bretum ekki að sökkva varðskipum. Valdhafar í London
urðu að hafa þetta í huga. Þeir vissu alla tíð að þeir mættu aldrei beita
öllu afli gegn bandalagsþjóð í Atlantshafsbandalaginu og sá pólitíski
skaði sem hlytist af því að gera út af við varðskip og valda manntjóni
vægi miklu þyngra en hugsanlegur stundarsigur á miðunum.
Á sínum tíma var skiljanlegt að íslenskir ráðamenn ýktu illsku
Breta. Sú hernaðarlist er þekkt í öllum átökum að mikla ógnina
svo fólk standi betur saman og fallist frekar á stefnu eigin valdhafa,
og ekki síður til að vinna stuðning annarra ríkja. Síðarnefndu rök-
in sáust vel eftir skærur Þórs og nokkurra dráttarbáta innan fjög-
urra mílna landhelginnar undan Seyðisfirði í desember 1975.36 I
hita leiksins vildu stjórnvöld að öryggisráð Sameinuðu þjóðanna
fordæmdi aðfarir dráttarbátanna og könnuðu þau stuðning við
það eftir föngum. Norrænir stjórnarerindrekar bentu þá á að þótt
íslendingum væri heitt í hamsi yrði erfitt að sannfæra alþjóðasam-
félagið um það að mikil hætta hefði verið á ferðum, enda geisuðu
mun blóðugri átök víða um heim. Bandarískir embættismenn
reyndu líka að koma þeim skilaboðum til íslendinga að atgangur-
inn úti fyrir Seyðisfirði gæti ekki talist „ógn við alþjóðafrið og
öryggi“ eins og venja væri um mál sem kæmu á borð öryggisráðs-
ins. Svo fór því að það lét málið ekki til sín taka.37
Stuttu seinna sást aftur vel hve málsvörum íslands hætti til að
gera of mikið úr harðýðgi Breta en íslenskur sendiherra líkti þá
36 Það er segin saga að frásögnum Breta og íslendinga af árekstrum á miðunum
ber sjaldnast saman. Þessum átökum er best lýst af sjónarhóli varðskipsmanna
í Atli Magnússon, / kröppum sjó. Helgi Hallgrímsson skipherra segir frá sœ-
görpum og svaðilförum (Reykjavík, 1992), bls. 203-206. Sýn Breta má finna í
Norman Storey, What Price Cod? A Tugmaster’s View of the Cod Wars
(Beverley, North Humberside, 1992), bls. 43-52 og Andrew Welch, The Royal
Navy in the Cod Wars: Britain and Iceland in Conflict 1958-61, 1972-73,
1975-76 (Liskeard, Cornwall, 2006), bls. 177-179
37 Skjalasafn norska utanríkisráðuneytisins. 31.11/60/24. Sendinefnd Noregs hjá
Sameinuðu þjóðunum til norska utanríkisráðuneytisins, 16. des. 1975. Minnis-
blað Vibe, norska utanríkisráðuneytinu, 16. des. 1975. Sjá einnig Guðni Th.
Jóhannesson, Sympathy and Self-Interest: Norway and the Anglo-Icelandic
Cod Wars (Oslo, 2005), bls. 112-114.