Skírnir - 01.09.2008, Blaðsíða 248
522
GUNNAR J. ÁRNASON
SKÍRNIR
leg og jafnvel háskaleg sjálfsblekking. Þetta er andinn í gagnrýni
hins vinstrisinnaða félagsfræðings Pierres Bourdieu á þjóðfélags-
lega stöðu nútímalistar: Þvert á þá sannfæringu að módernísk list
stuðli að jafnrétti og frelsi í samfélaginu hefur hún þveröfug áhrif,
þ.e. festir ójöfnuð enn meira í sessi. Þeir sem hafa vit á nútíma-
listinni og geta talað um hana, upphefja sig yfir þá sem hafa ekki
slíkt „vit“, og notfæra sér þessa yfirburði til að réttlæta þjóðfélags-
lega yfirburði sinnar stéttar.
Þá erum við komin að þriðja möguleikanum, Avant-garde list,
eða framúrstefnulist. Frá sjónarmiði framúrstefnulistar eru aðeins
tveir kostir í stöðunni, að vera á valdi ríkjandi skipulags eða stað-
setja sig andspænis ríkjandi ástandi og stunda andóf. Og framúr-
stefnulistin velur að vera á móti. En til að taka sér stöðu á móti þá
verður listamaðurinn að átta sig á því að listin er ekki hluti af
lausninni, hún er hluti af vandamálinu. List, og þá erum við ekki
aðeins að tala um listamanninn og verk hans heldur einnig helstu
stofnanir listarinnar, svo sem listasöfn og sýningarsali, verður að
breyta sjálfri sér innan frá og brjóta niður múra milli sín og sam-
félagsins. Aðeins á þann hátt, með því að ganga á undan með góðu
fordæmi og byrja uppreisnina í heimahúsum, getur listin orðið
kyndilberi og framvörður þjóðfélagslegra breytinga. I þeirri bar-
áttu þurfti að má út skil milli listgreina, brjóta niður grafhýsi lista-
safnanna, ögra almenningi og valda hneykslun til að hrista menn
upp úr djúpu hjólfari vanans. Náttúrlega voru ekki allir framúr-
stefnulistamenn uppteknir af pólitískum möguleikum listarinnar
og það er algengt að líta á framúrstefnuna sem nokkurs konar rót-
tæka framlengingu af frelsisbaráttu módernismans. Þrátt fyrir það
kemur framúrstefnan fram í upphafi 20. aldar sem viðbragð við
þjóðfélagslegu og menningarlegu ástandi. Richard Huelsenbeck
og Berlínar-dadaistarnir voru virkir í uppreisnarástandinu við lok
fyrri heimsstyrjaldarinnar í Þýskalandi, André Breton og súrreal-
istarnir í París tóku sér stöðu með kommúnistaflokknum á fjórða
áratugnum, Guy Debord og situationistarnir voru ákafir sam-
félagsgagnrýnendur á sjöunda áratugnum, Hans Haacke beitti að-
ferðum auglýsingaiðnaðarins til pólitískrar gagnrýni á áttunda
áratugnum, og svo mætti áfram telja. í dag virðast margir ungir