Skírnir - 01.09.2008, Page 252
526
GUNNAR J. ÁRNASON
SKÍRNIR
ekki sjálfur miðja athyglinnar og öðrum gefið svigrúm til að hafa
áhrif á það hvert hlutirnir leita. Listamaðurinn stígur ofan af stalli
sínum og niður á gólf þar sem hann kemur fram sem alveg jafn
mikill viðvaningur og klaufi og aðrir í kringum hann.
Þótt hér hafi aðallega verið fjallað um veggjakrotsverk Hlyns
og þeim beitt til skilnings á því hvað hann er að fást við, má
heimfæra sömu hugmynd á aðrar myndraðir og verkefni sem hann
hefur verið að vinna að á undanförnum árum. Ljósmyndasería
sem hann kallar einfaldlega „Myndir, Bilder, Pictures" og hefur
sýnt á mörgum sýningum síðustu ár, eru tækisfærismyndir teknar
af fjölskyldu, vinum og samstarfsfélögum Hlyns á ýmsum stöðum
í heiminum. Hverri mynd fylgir stuttur texti sem er prentaður inn
á myndina sjálfa og er á þremur tungumálum, íslensku, ensku og
þýsku. Textinn lýsir í einföldu máli af hvaða tilefni myndin var
tekin, hvað hún sýnir og hvernig myndin tengist listamanninum
eða þeim sem koma við sögu í myndinni, á svipaðan hátt og maður
sjálfur útskýrir myndir í fjölskyldualbúmi til að deila reynslu með
öðrum. Hér mætti halda að Hlynur væri að skapa listaverk í
venjulegum skilningi þess orðs, ljósmynd í ramma uppi á vegg. En
að sama skapi hleypir Hlynur loftinu úr öllum útblásnum list-
fræðilegum túlkunum um form, myndbyggingu eða táknrænar
tilvísanir með því að prenta skýringartexta inn á myndina sjálfa,
auk þess sem hann gerir lítið úr sérstöðu listaverksins með því að
láta prenta myndina í mörgum eintökum, skilja stafla eftir á miðju
gólfi sýningarsalarins þar sem gestir og gangandi geta nælt sér í
eintak og tekið með sér heim.
Hlynur bindur sig ekki við hið hefðbundna verksvið listamanns-
ins, að skapa verk til sýninga í sýningarsölum og söfnum. Blatt -
Blað er tímarit sem Hlynur hefur gefið út í Þýskalandi og á Islandi
frá 1994. Það hefur komið út rúmlega fimmtíu sinnum, sem gerir
það líklega að lífseigasta íslenska listatímaritinu frá upphafi. Tíma-
ritið á sér fyrirmynd í hugmynd Dieters Roth um Tímarit fyrir allt,
þar sem allir fengu að birta hvað sem var innan ákveðinna takmarka
um stærð. Roth hafði að leiðarljósi að allt efni sem fólk byggi til
væri jafn merkilegt eða ómerkilegt, eftir því hvernig á það væri litið,
og þar af leiðandi var engu efni hafnað. Hjá Hlyni eru gæði efnisins