Tímarit hjúkrunarfræðinga - 2022, Page 53

Tímarit hjúkrunarfræðinga - 2022, Page 53
3. tbl. 98. árg. 2022 | Tímarit hjúkrunarfræðinga 51 Hverjar hafa verið stærstu áskoranirnar á þessari vegferð að gera spítalann umhverfisvænni? Það getur verið erfitt að minnka sóun og notkun á einnota vörum. Við erum nýkomin úr heimsfaraldri þar sem notkun á einnota hlutum var gríðarlega mikil um allan heim og þá sást vel hversu flókið það getur verið að samræma sýkingarvarnir og umhverfisvernd. Hanskanotkun fór til að mynda alveg úr böndunum en hanskar geta gefið falskt öryggi, handþvottur er alltaf bestur en stundum er auðvitað nauðsynlegt að nota hanska. Við vorum með átak í samstarfi við erlenda spítala í því að minnka sóun og notkun á einnota hlutum. Þetta er ákveðin glíma og hjúkrunardeildarstjórar koma þar sterkir inn því þeir búa til ákveðna menningu á sinni deild í þessum efnum. Það er alltaf hægt að gera betur. Við erum með Svansvottað eldhús og matsali og höfum flokkað lífrænan úrgang í 10 ár. Erum með margnota matarbakka en í faraldrinum þurftum við að nota einnota matarbakka. Umhverfismálin voru ekki brennidepli í COVID-19, við héldum þó dampi að vissu leyti og ein góð aukaverkun var færri flug- og ökuferðir. Flugferðum fækkaði til að mynda um 90%. Fjarfundir tóku við að miklu leyti og við sáum það að hægt er að draga úr kolefnisspori með fjarfundum og -ráðstefnum, þetta er hægt og samtakamátturinn getur haft mikið að segja. Við höfum til að fá betri sýn gert tékk með því að safna saman úrgangi og fara í gegnum hann; hvað er notað og hvað er sóun. Við sjáum að það er alltaf hægt að gera betur og það er líka mikilvægt að vera stöðugt að minna á að minnka sóun. Starfsfólk kemur oft með hugmyndir um hvernig við getum gert betur, til dæmis komu starfsmenn með athugasemd við það að ávextir komu í plastpokum, þetta var óþarfi og nú koma ávextirnir til okkar í margnota kössum. En þar sem starfmannaveltan er mikil á stórum spítala þarf stöðugt að vera að minna á og stundum líður mér eins og gamalli rispaðari plötu þar sem ég er alltaf að tala um sömu hlutina sem umhverfisstjóri spítalans. Það þarf ekki alltaf að vera að finna upp hjólið í þessum efnum, við erum í góðu samstarfi við erlenda spítala og höfum við getað innleitt margar aðgerðir sem hafa virkað vel annars staðar. Lausnir sem búið er að prófa og virka líka hjá okkur þótt oft þurfi að aðlaga þær að okkar umhverfi. Viðtal Hulda Steingrímsdóttir, umhverfisstjóri Landspítala, hjólar í vinnuna flesta daga. Aldur og áhugamál 51 árs, helstu áhugamál eru útvist, lestur og barnabarnið sem er á öðru ári. Menntun Ég útskrifaðist árið 1996 með BS úr líffræði, ég byrjaði aðeins í gróðurrannsóknum eftir útskrift en fór svo fljótlega út í umhverfismálin, starfaði hjá Hafnarfjarðarbæ og ákvað svo að skella mér erlendis í meistaranám. Ég tók meistaragráðu í umhverfisstjórnun, með áherslu á samfélagsábyrgð, frá Viðskiptaháskólanum í Gautaborg.

x

Tímarit hjúkrunarfræðinga

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Tímarit hjúkrunarfræðinga
https://timarit.is/publication/1159

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.