Tímarit hjúkrunarfræðinga - 2022, Side 75

Tímarit hjúkrunarfræðinga - 2022, Side 75
3. tbl. 98. árg. 2022 | Tímarit hjúkrunarfræðinga 73 Þróun mönnunar í hjúkrun á Landspítala Samantekt og umræður Mönnun í hjúkrun á Landspítala er og verður krefjandi verkefni. Tryggja þarf nýliðun til að mæta starfslokum vegna aldurs en einnig vegna aukinna verkefna bæði innan spítala og utan. Tryggja þarf næga mönnun til að veita örugga og góða heilbrigðisþjónustu miðað við þarfir dagsins í dag, til að mennta nemendur, þróa og bæta þjónustu og skapa þekkingu til framtíðar. Til lengri tíma litið þarf líka að tryggja mönnun sem mætir síaukinni þörf fyrir heilbrigðisþjónustu. Nýliðun í hjúkrun á Íslandi fæst annars vegar með því að útskrifa hjúkrunarfræðinga hér á landi og hins vegar með því að ráða til landsins hjúkrunarfræðinga sem lokið hafa námi erlendis. Landspítali hefur að auki möguleika á því að auka nýliðun í hjúkrun með því að ráða til sín hjúkrunarfræðinga frá öðrum heilbrigðisstofnunum eða fyrirtækjum innan og utan heilbrigðisþjónustu. Það er þó vandmeðfarið sérstaklega þegar undirliggjandi er skortur á hjúkrunarfræðingum á landsvísu. Þessu til viðbótar er hægt að bæta mönnun í hjúkrun með því að bæta aðbúnað og festu í starfi, með aukinni tæknivæðingu og stoðþjónustu og breyttum verkefnum. Helstu niðurstöður þessarar greina er að starfsumhverfi hjúkrunarfræðinga á Landspítala hefur breyst umtalsvert á því tímabili sem hér er til skoðunar. Hjúkrunarfræðingum á Landspítala fjölgaði að meðaltali um 2,2% á ári á árunum 2004-2019. Þessi fjölgun er þó síður en svo meiri en ætla mætti miðað við fjölgun íbúa, öldrun þjóðarinnar og fjölgun erlendra ferðamanna. Aukning hefur orðið á því að nemendur í hjúkrunarfræði séu ráðnir inn í grunnmönnun samhliða námi sínu. Þessi vinna er ekki hluti af þeirra klíníska námi. Færa má rök fyrir því að þetta sé óæskileg þróun bæði fyrir sjúklinga, annað starfsfólk og nemendurna sjálfa. Hætt er við að nemendum séu falin verkefni sem eru umfram þekkingu þeirra og reynslu þegar mönnun er tæp. Á árunum 2005-2019 fækkaði sjúkraliðum í starfi á Landspítala en að sama skapi útgefnum leyfum sjúkraliða. Hlutfall hjúkrunarfræðinga og sjúkraliða í heildarmannafla á Landspítala lækkaði jafnframt á sama tíma. Þeim sem láta af störfum á Landspítala að eigin frumkvæði hefur fjölgað og áhyggjuefni er hversu hátt hlutfall hjúkruna- rfræðinga á miðjum aldri er í þessum hópi. Fyrirsjáanlegt er að á næstu árum muni hátt hlutfall hjúkrunarfræðinga á spítalanum láta af störfum en á næstu árum munu árlega um 136 hjúkrunarfræðingar geta hafið töku lífeyris. Á tímabilinu sem var til skoðunar þá voru að meðaltali 116 hjúkrunarfræðingar með fyrstu ráðningu á Landspítala á ári. Árlegur fjöldi fór þó lækkandi yfir tímabilið og hlutfall hjúkrunarfræðinga með erlent ríkisfang jókst í þessum hópi. Á tímabilinu fjölgaði nýútskrifuðum hjúkrunarfræðingum á Íslandi um 2,2 á ári en á sama tíma fjölgaði að meðaltali um 20 stöðugildi hjúkrunarfræðinga árlega á Landspítala. Hlutfall erlendra hjúkrunarfræðinga á Landspítala fór úr 2% árið 2005 í 8% árið 2019. Byggt á þessu er hægt að svara því til að fyrirsjáanlegt sé að fjöldi útskrifaðra hjúkrunarfræðinga á Íslandi getur ekki staðið undir eðlilegu brotthvarfi hjúkrunarfræðinga á Landspítala vegna aldurs og aukinnar þjónustuþarfar vegna fjölgunar landsmanna, fjölgunar langveikra og aldraðra og fjölgunar erlendra ferðamanna. Eins er mikilvægt að hafa í huga að mikil uppbygging á heilbrigðis- og hjúkrunarþjónustu utan Landspítala kallar á fjölgun hjúkrunarfræðinga. Margir hugleiða hvort fjölgun erlendra hjúkrunarfræðinga sé lausnin. Erlendum hjúkrunarfræðingum hefur vissulega fjölgað mjög mikið á undanförnum árum og eru það upp til hópa frábærir fagmenn sem leggja mikið af mörkum til þjónustunnar. Margt ber þó að hafa í huga við ráðningu erlendra hjúkrunarfræðinga. Fyrir það fyrsta er skortur á hjúkrunarfræðingum um heim allan og hefur Alþjóðaheilbrigðisstofnunin beint þeim tilmælum til aðildarlanda sinna að stunda ekki markvissa öflun umsækjenda í fátækari löndum. Það þarf því að huga sérstaklega að siðferðilegum þáttum þegar erlendir starfsmenn eru ráðnir inn í íslenska heilbrigðisþjónustu. Samskipti eru einnig kjarni í starfi hjúkrunarfræðinga og er því afar mikilvægt að hjúkrunarfræðingar hafi gott vald á tungumálinu. Aðlögun og þjálfun erlendra starfsmanna er því bæði tímafrek og kostnaðarsöm. Afar mikilvægt er að bæta móttöku þeirra erlendu hjúkrunarfræðinga sem hér kjósa að starfa og efla starfsþróun og stuðning í starfi. Eins er mikilvægt að kanna sérstaklega þeirra reynslu af því að starfa í íslensku heilbrigðiskerfi og huga betur að vellíðan þeirra í starfi.

x

Tímarit hjúkrunarfræðinga

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Tímarit hjúkrunarfræðinga
https://timarit.is/publication/1159

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.