Heima er bezt


Heima er bezt - 01.04.2003, Blaðsíða 4

Heima er bezt - 01.04.2003, Blaðsíða 4
Agœtu lesendur. „Mörg á ég nú sporin um þessa móa,“ heyrði ég eitt sinn mann segja, sem hafði verið smali, eins og það var kall- að, á æsku- og unglingsárum sínum. Nú var löngu yfir þau fyrnt, búið að slétta þúfurnar í móanum, kominn ökutækjaslóði yfir hann, göturnar að fullu grónar og kindurnar allar og lömbin sem hann sporléttur trítlaði á eftir, löngu komnar yfir móðuna miklu, orðnar að salt- kjöti eða vel reyktu hangikjöti á borðum ijölskyldunnar. Sporaslóðir manna og dýra eru oft þögull vitnisburður um ferðir og athafnir á liðinni stund, þó göngugötum í byggð fari fækkandi. Og nú eru slíkar gjarnan orðnar ým- ist malbikaðar eða malarbornar og því hættar að markast af þrýstingi gangandi fóta, og saga þeirra og upplýsingar orðnar öllu fátækari. Það var aðall hvers góðs veiðimanns að geta lesið í fót- spor veiðidýra og eitt sinn sagði einn slíkur mér frá því hversu áhrifaríkt sér hefði þótt eitt sinn, er hann var á rjúpnaveiðum á heiði þar sem nýlega fallinn snjór þakti allt, og hann sá spor eftir ref, sem hafði verið að afla sér matfanga á slóðum rjúpunnar. Þar gat hann séð hvernig refurinn hafði fikrað sig í áttina að bráðinni og svo tekið stökkið. Hann náði rjúpunni og á þeim stað hafði orðið all nokkur „bægslagangur“ en auðséð hvor aðilinn hafði orðið að láta í minni pokann. Þarna var lögmál náttúrunnar í sínu venjubundna gang- verki, en „því fylgir sérkennileg tilfinning stundum,“ sagði þessi veiðimaður, „að geta lesið með þessum hætti sögu og atburði náttúrunnar eftir ummerkjunum." Og hann er áreiðanlega ekki einn um þá kennd, þessi ágæti veiðimaður, eitthvað svipað er það áreiðanlega sem rekur áfram jarð- og fomleifafræðinga, það er þessi þrá eftir því að geta lesið í merki fortíðarinnar. Til eru ýmsar sögur af því hvernig indíánar í Vestur- heimi gátu verið snjallir í því að lesa í fótspor villidýra og hesta óvinanna. Og enn er þessi kunnátta og hæfileiki í heiðri hafður með ýmsum frumstæðari þjóðflokkum, og er sagt að þeir séu svo færir í þessu sumir, að þeir geti sagt til um hvenær dagsins viðkomandi dýr var á ferð og hvernig ástand þess var. Á öldum áður, þegar fólk ferðaðist að mestu fótgang- andi á milli bæja og héraða, þá mynduðust fljótt götu- slóðar, sem fólkið fylgdi og fengu þeir stundum sérstök heiti eftir því hvert slóðin lá. Víða hafa til dæmis verið til svo kallaðar „messugötur“, en það voru þær götur sem fólkið gekk eftir á ferðum sínum til kirkju, þ.e.a.s. þeir sem úr sömu átt komu. Ég minnist þess til dæmis að hafa lesið það í frásögn Eyjólfs Guðmundssonar frá Hvoli í Mýrdal, þar sem hann segir frá samskiptum Olafs Högna- sonar, sem þá var staddur í heyskaparvinnu í Eyvindar- hólum undir Eyjafjöllum, hjá prestshjónum staðarins, við Lúsa-Hrólf, sem var illa þokkaður og all lúsugur föru- maður, sem gert hafði sig heimakominn þar, en prestsmaddaman vildi koma úr húsum. Tókst honum með brögðum nokkrum að hrella karlinn svo að hann tók þann kostinn að koma sér af bæ og leita annað. í frásögninni er því lýst sem svo að Lúsa-Hrólfur hafi tekið pinkla sína og hvorki kvatt kóng né frú, labbað inn Messugötur og aldrei komið framar að Eyvindarhólum. Á þessum tíma, sem að öllu líkindum er snemma á nítjándu öldinni, voru auðvitað engir akvegir og því hafa myndast göngugötur þar sem greiðlegast var yfirferðar og hafa þær væntan- lega orðið sjálfkrafa aðal samgönguæðar innan viðkom- andi sveitar. Messugötur hafa sjálfsagt verið nokkuð algengar þar sem kirkjur voru í sveitum og í gögnum Örnefnastofnun- ar má t.d. finna heimildir um messugötur í Suðursveit, sem lágu niður túnið að Breiðabólsstað og er þess getið að þær hafi eingöngu verið fyrir Breiðabólstaðarmenn. Með vaxandi vélvæðingu hefur sporaslóðum mann- fólksins fækkað að mun og er líklega varla að finna sem götur nema þá kannski inni á hálendi landsins þar sem enn er nokkuð tíðkað að ganga í halarófum. Það er helst sauðkindin blessuð og kýrnar sem halda uppi merkjum götuslóðanna í byggð og sjálfsagt fer slóðum kúnna óðum fækkandi líka, því ekki er alls staðar sem tíðkast orðið að reka þær lengri leiðir í haga. Talsverður munur var og er á slóðum kinda, kúa og mannfólks svo sem eðlilegt má teljast vegna stærðarmun- ar fótanna. Þegar gengið var um þúfnakarga gat oft verið til léttis að nýta sér götuslóða kinda eða kúa og oftar voru það slóðir kindanna sem fyrir voru, en ekki var það alltaf auðvelt því bæði voru þær götur talsvert of mjóar fyrir hálf útskeift mannfólkið og gátu þær líka oft verið nokk- uð djúpt skornar þar sem þær lágu í gegnum háa þúfna- kolla. Götuslóðar mannfólksins og kúnna voru aftur á móti nokkuð svipaðir að breidd og gátu nýst báðum teg- undum. Framhald á bls. 182 148 Heima er bezt

x

Heima er bezt

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Heima er bezt
https://timarit.is/publication/380

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.