Heima er bezt - 01.06.2004, Blaðsíða 14
vinsæl og þægileg krá sem kallast „Vínstofa Hvíts“. Þessi
krá átti 275 ára afmæli á meðan ég var þarna, þannig að
hún hefur bara verið orðin töluvert gömul þegar Jónas
Hallgrímsson skáld sat þar við drykkju. Þarna hitti maður
oft Islendinga og staðurinn er að mörgu leyti sérstakur. Ef
það er laus stóll þá máttu ekki banna neinum að setjast og
fólk blandast oft skemmtilega þarna. Fólk kemur þangað
gjarnan eftir leikhús og bíó og fær sér drykk, en þarna er
ekki seldur matur, einungis drykkur. Þetta er mjög hlý-
legur staður, lágt til lofts og notalegt.
Eg fór þarna inn og settist við tveggja manna borð og
fékk mér rauðvínsglas. Gegnt mér sat ungur Dani með
ölkolluna sína. Þetta var mjög þægilegur maður og við
tókum tal saman. Þarna var mjög margt um manninn en
afslappað andrúmsloft, fólk að spjalla og gera að gamni
sínu. Það er samt siður í kránni að fólk talar fremur lágt,
hlær lágt og svona rólegt andrúmsloft.
Allt í einu kom hópur af Islendingum inn á krána. Það
var nú þó nokkuð mikill sláttur á þeim, eins og þeir væru
búnir að fá sér fleiri en einn og fleiri en tvo. Þetta truflaði
hina gestina í þessum gömlu, þröngu, salarkynnum og
fólk leit undrandi upp frá samræðum sínum og glösum.
Svo settust íslendingarnir við langt borð og þjónninn
kom og afgreiddi þá. Þetta var svo sem allt í lagi en dálít-
ill hávaði við borðið, þar til einn íslendingurinn, stór og
stæðilegur karlmaður, stóð upp og söng svo undir tók í
kránni. „í fjarlægð”. Allir hættu að tala og fóru að horfa á
þennan mikla mann og voru ógurlega hissa, en hann söng
býsna vel. En svo þegar hann var búinn að syngja og sest-
ur niður, þá klöppuðu allir fyrir honum þó að sumir væru
hálf skelkaðir á svipinn. Þarna var verið að brjóta
ævagamla hefð.
Daninn, sem sat við hliðina á mér, leit á mig og sagði:
„Þetta eru örugglega Svíar. Svona haga sér engir nema
Svíar“.
Eg leiðrétti hann ekki, en ég skammaðist mín nú tölu-
vert fyrir það.
Lífið og tilveran
Ég er félagshyggjumaður og mér finnst dálítið sorglegt
hvað dregið hefur úr henni. Ég trúi á blandað hagkerfi.
Hið opinbera (ríkið og sveitarfélögin), félögin og einstak-
lingarnir hafa sína kosti og galla. Með því að leyfa öllum
rekstrarformum að starfa hvert innan um annað drögum
við úr göllum þeirra.
Mér finnst að sem mestur jöfnuður eigi að ríkja á milli
manna, kynja, stétta og landshluta. Og jafnvel heimshluta.
Með jöfnuði skapast farsæld fyrir fjöldann en ójöfnuður
leiðir til átaka fyrr eða síðar. Ég álít að einstaklingarnir geti
vel fengið að njóta sín þó að stjórnvöld vinni að jöfnuði.
Hins vegar er alger jöfnuður óraunhæfur.
Varanlegur friður í okkar heimshluta byggist á því að
friður komist á milli Palestínuaraba og ísraelsmanna,
skilið verði milli þeirra með alþjóðlegu friðargæsluliði og
að Palestínumenn fái sitt ríki. Þarna eiga hryðjuverk í
okkar heimshluta upphaf sitt. Ég er dálítið svartsýnn á
framtíðina og óttast að hlutir eins og hryðjuverk og eitur-
lyf eigi eftir að gera mikinn skaða. Mér finnst dapurlegt
til þess að hugsa. En kannski er þessi afstaða mín miklu
fremur raunsæi en svartsýni.
Margt er að varast í nútímanum og eins gott að ganga
ekki fyrir björg í ofurbjartsýniskasti. Raunsæi, innsæi og
skilningur sem grundvallast á skarpri gagnrýni geta leitt
okkur á réttan veg ásamt góðum vilja.
Ég held að öfgalaus trú skipti miklu máli fyrir einstak-
linginn. Innst inni hef ég mína trúarþörf. Ég held að trúin
geti verið afar nauðsynlegt tæki til að berjast á móti eigin
ófullkomleika. Ég er ekki mjög kirkjurækinn, en fer
stundum í kirkju og hef gaman af því. Presturinn okkar,
séra Olafúr Hallgrímsson, er mjög góður ræðumaður og
gaman að hlusta á hann. Ég trúi á líf eftir dauðann, því að
annars væri maður eitthvað svo óumræðilega lítill.
Göngum vel um jörðina
Ég hef áhyggjur af náttúruvernd og landvernd er eitt af
þeim málum sem ég hef mestan áhuga á. Við eigum að
ganga vel um jörðina (lífríkið) og verðum að vanda okkur
við stórframkvæmdir. Það verður ekki gert nema með því
að taka náttúruna með í reikninginn strax á hönnunar-
stigi. Raunverulegar framfarir, sem eiga að endast, er að-
eins hægt að byggja á náttúruvernd og sjálfbærri þróun.
I hjarta mínu var ég á móti framkvæmdunum við Kára-
hnjúka en það er erfitt að standa á móti slíku þegar þeir
sem búa á svæðinu, vilja fá framkvæmdirnar, sjá ekki
aðrar leiðir til að byggja upp framtíðina. Það var hætt við
Eyjabakkana og það finnst mér mjög gott. Ég held samt
að í sambandi við þessar stóru virkjanir sem komnar eru,
þá hefði verið hægt að gera meira til að hlífa landi og
sætta náttúruna við framkvæmdirnar. Við eigum bara eitt
Island, eins og ég heyrði dóttur mína segja um daginn.
Það er auðvelt að eyðileggja eitthvað sem seint eða aldrei
verður bætt.
Framtíðin
Það eru erfiðleikar hér í Skagafirði og þetta stóra sveit-
arfélag er afar févana. Ég held að það hefði verið farsælla
að taka þessa sameiningu í styttri skrefum. Ég er svolítið
hræddur um að þeir sem eru lengst frá Sauðárkróki, á
jöðrunum í þessu sveitarfélagi, gjaldi þess. Það þarf að
gæta sín mikið til þess að koma í veg fyrir að þessar
byggðir sitji ekki á hakanum. Það er auðvitað erfitt að
stjórna svona víðlendu sveitarfélagi.
Mína framtíð sé ég þannig að ég verð örugglega áfram
hér, ef heilsan leyfir, og reyni að fá sem mest út úr mínu
lífi. Fyrst maður fór hingað þá tel ég það best. Ég er á-
nægður í starfi og með búsetuna mína og vonandi getur
fólkið hérna, eitt sér og saman, unnið sig út úr þeim
vandamálum, sem blasa við.
Eftir gott spjall og höfðinglegar veitingar, kveð ég
Magnús og Elínu. Það er fallegt í Sölvanesi og ég skil vel
að þau kunni við sig þar.
254 Heima er bezt