Læknaneminn - 01.08.1968, Page 12
12
LÆKNANEMINN
er ekki undir það búinn að hagnýta sér þá tæknilegu og félagslegu bylt-
ingu, sem framundan er á næstu áratugum, en við skulum hafa það
hugfast, að vissir angar þessarar tækniþróunar ná einnig til þeirra,
og hafa róttæk áhrif á líf þeirra og kröfur. Ég á þar einkum og sér í lagi
við fjölmiðlunartæki eins og sjónvarp, sem gefa þessum þjóðum sem
öðrum kost á að kynnast lífsstandard okkar, sem betur erum sett, og
geta þannig átt sinn þátt í að skapa með meiri hluta mannkynsins
beiskiu, andúð eða jafnvel hatur, sem geta haft hinar örlagaríkustu
afleiðingar.
Ef við þannig eigum að halda áfram að líta svolítið út yfir okkar
eigið þrönga, afmarkaða svið, land og jafnvel heimsálfu, þá virðist mér
ef til vill ennþá meiri siðfræðileg ábyrgð hvíla á lækninum, þegar
teknar skulu ákvarðanir um það, hvað skuli gert og hvað skuli ekki
gert til hjálpar og heilsubótar þessum svokölluðu vanþróuðu þjóð-
um. Ég finn, að ég hefi hætt mér út á nokkuð hálan ís, og læt þessa
hálfsögðu, provokerandi spurningu svífa þarna í lausu lofti.
Góðir fundarmenn:
Ég sagði í upphafi máls míns, að þankar mínir hér yrðu sundur-
lausir og varpað yrði fram ýmsum spurningum, sem ég gæti ekki
svarað. Metið viliann fyrir verkið.
Megi ég að lokum eiga nokkra ósk ykkur til handa og okkur, sem
bindum vonir okkar við ykkur, þá er hún sú, að þið megið ávallt
bera í brjósti forvitni hins spurula og reyna að svala henni, og að
með ykkur búi ávallt víðsýni hins menntaða, sem ekki einungis er
duglegur fagmaður heldur einnig nýtur þjóðfélagsþegn. — Þakka
ykkur fyrir.