Bændablaðið - 11.05.2023, Blaðsíða 60
60 Bændablaðið | Fimmtudagur 11. maí 2023
Það er órjúfanlegur hluti búskapar að skepnur drepist
heima á bæjum, eins sorglegt og það getur verið. Og
hvað á þá að gera við skepnuna? Hér áður fyrr var
grafin hola í jörð og skepnan urðuð. Það er langt
síðan það var bannað, enda ekki forsvaranlegt að
dysja hræ hingað og þangað með tilheyrandi áhættu
fyrir umhverfi og heilsu dýra og manna.
Þegar kýr drepst geta góð ráð
verið dýr. Sum sveitarfélög eru með
það fyrirkomulag að staðsettir eru
svokallaðir hrægámar á vel völdum
stöðum um sveitina. Önnur eru með
hræbíl sem fer á milli bæja þegar
þörf er á. Gjöldin sem sveitarfélögin
taka fyrir þetta ómak eru misjöfn
milli staða og fara til dæmis eftir
vegalengdum og söfnunartækni.
Sveitarfélögum er skylt að
innheimta því sem næst raunkostnað við meðhöndlun
úrgangs með innleiðingu nýrra hringrásarlaga, og því
viðbúið að kostnaður vegna förgunar dýrahræja muni
aukast fyrir bændur.
Í mínu tilfelli fer kýrin bara í gáminn, og málið
dautt. Ja, sko ekki alveg, hún endar nefnilega í holu
með öðrum sjálfdauðum skepnum í Stekkjarvík.
EFTA dómur hefur fallið á íslenska ríkið fyrir að
urðun hræja viðgengst og fyrir að hafa ekki komið á
viðeigandi kerfi til að safna og meðhöndla dýrahræ
á löglegan máta.
Við virðumst hafa tapað heyrn og höldum bara
áfram uppteknum hætti, sem er í raun óskiljanlegt.
Í tilfelli kýrinnar sem drapst heima á bæ og mátti
réttilega ekki fara í holu þar, fer hún í gám sem keyrður
er að annarri holu sem er jafn ólöglegt að urða hana í,
og bóndinn er neyddur til að borga brúsann. Bóndinn
sem vildi aðeins koma hræinu frá sér á sem ábyrgastan
hátt er allt í einu staddur í hringleikahúsi fáránleikans.
Hvernig er hægt að komast út úr þessari vitleysu?
Hvað er til ráða?
Ég sem bóndi myndi helst vilja sjá hringrásarkerfið
að störfum og koma hræjunum sem til falla í vinnslu.
Oft er bent á að eini löglegi farvegurinn fyrir þennan
lífræna úrgang sé brennsla, en eins og kemur fram
í nýlegu minnisblaði Environice um meðhöndlun
dýraleifa er brennsla ekki eina löglega leiðin fyrir
þennan úrgang. Brennsla dýraleifa er orkufrek vegna
þess hve mikið vatn er í hræjum, það þarf því að brenna
annað efni með hræjunum eða nota mikið magn olíu til
brennslunnar. Annar möguleiki er að vinna dýrahræin
þannig að þau fari í gegnum þrýstisæfingu, fitan er
pressuð úr þeim og eftir er kjötmjöl sem er þurrkað.
Bæði fitan og mjölið nýtast sem orkugjafar, eftirspurn
eftir hráfitu hefur aukist með orkukreppunni í Evrópu
þar sem hún er unnin áfram í lífdísil.
Dýrahræ falla að mestu undir CAT1 flokk
dýraafurða, sem er áhættuúrgangur eða dýraleifar
sem eru óhæfar til manneldis. CAT1 dýraleifar eru
skrokkar sem grunur leikur á að séu með, eða eru með,
staðfest riðusmit, heili og mænuvefur úr jórturdýrum
(sláturúrgangur) og öll sjálfdauð jórturdýr eldri en
12 mánaða.
Dauð gæludýr falla einnig undir CAT1 úrgang.
Undir CAT2 falla t.d. dauð hross og annað sem ekki
fellur undir CAT1 eða CAT3. Undir CAT3 falla
dýraleifar sem eru í raun hæfar til manneldis en nýtast
ekki þannig af menningarlegum og viðskiptalegum
ástæðum; t.d. júgur, lungu, bein og tólg.
Úrgangur sem fellur undir CAT3 er verðmætastur
dýraleifa þar sem hægt er að vinna hann áfram í
gæludýrafóður eða moltu til uppgræðslu, svo eitthvað
sé nefnt. Efni sem fellur undir CAT2 er hægt að nota
áfram í lífgasframleiðslu og sem jarðvegsbæti, Mesti
og stærsti vandinn tengist erfiðasta úrgangsflokkinum;
CAT1, sem hefur hingað til að mestu leyti verið
urðaður, sem er ólöglegt og í raun galið með tilliti
til lýðheilsu og smitvarna. Það sem hefur ekki verið
urðað er sent í einu brennsluna á landinu, sem bilar
reglulega, og getur ekki talist vistvænasta leiðin til
að losna við úrganginn.
Hvar stendur þá hnífurinn í kúnni?
Eins og stundum verður þá bendir hver á annan þegar
leitað er lausna á þessu stóra vandamáli sem söfnun
og meðhöndlun á dýrahræjum og öðrum úrgangi sem
fellur undir CAT1 er. Það er ekki á færi sveitarfélaganna
einna saman að leysa þessi mál hver í sínu horni, það er
flókið og óhagkvæmt. Meðhöndlun þessa úrgangs krefst
vandaðs og samhæfðs verklags og það færi sennilega
best á því að það ráðuneyti sem hefur þessi mál á sinni
könnu gangist við ábyrgð sinni og styðji við að söfnun
og meðhöndlun á dýraleifum verði komið á á landsvísu.
Til þess að koma þessum málum í horf þarf innviði;
vinnslulínu fyrir CAT1 úrgang. Í nágrannalöndum
okkar er 1-2 slíkar vinnslulínur í hverju landi, og því
ekki ómögulegt að ætla að ein slík lína muni duga fyrir
Ísland allt.
Samband sveitarfélaga á Norðurlandi eystra (SSNE)
ásamt Vistorku hafa látið gera mjög áhugaverða
skýrslu um líforkuver í Eyjafirði, þar sem gert er ráð
fyrir vinnslulínu sem tekið gæti á móti CAT1 úrgangi
af svæðinu. Ef söfnun væri komið á gæti líforkuverið
tekið við dýrahræjum af enn stærra svæði, jafnvel
öllu landinu og unnið hræin á ábyrgan, löglegan og
hagkvæman hátt. Línan fyrir CAT1 úrgang væri fyrsta
skrefið af fleirum í uppbyggingu líforkuvers, en m.a.
er litið til metanvinnslu sem bændur af svæðinu gætu
séð sér hag í að taka þátt í. Frumhagkvæmnimatið er
aðgengilegt á heimasíðu SSNE. Það verður spennandi
að fylgjast með því hvort verkefnið raungerist og hvort
að vandi Íslands þegar kemur að réttri meðhöndlun
dýrahræja geti minnkað með vinnslulínu í Eyjafirði.
Þá er ekkert annað en að hætta að benda hvert á
annað, gyrða sig í brók, og ganga í málið. Ástandið
eins og það er núna er ekki boðlegt.
Vaka Sigurðardóttir,
formaður eyfirskra kúabænda
Vorið er sannarlega heillandi
og spennandi tími í sveitum
landsins. Útivera verður stærri
hluti dagsins og lóan og stelkurinn
lífga upp á tilveruna. Hrossin fara
út, ærnar og kýrnar. Það er borið
á og fræjum sáð.
En vorið
er ekki bara
tíminn þegar
túnin grænka
og sóleyjarnar
spretta heldur
líka tími vorverka
og anna. Það
þarf að gera við
girðingar, plægja,
tæta, slóðadraga,
keyra skít og bera á, bara svona
til dæmis. Á sauðfjárbúum þarf
sólarhringsvakt í fjárhúsin og ótal
verk kalla, allt frá því fyrsta lambið
fæðist þar til allt er komið á fjall.
Vorið er sannarlega afar krefjandi
og annasamur tími í búskap og
þrátt fyrir dýrð náttúrunnar geta
annirnar orðið sligandi.
Hvernig tekst þér að
seiglast í gegnum og njóta
lífsins á annasömum tímum?
Vera skynsamur, skipulagður,
skilvirkur og árangursríkur í
starfi og reka búið með sóma
og um leið að vera lífsglaður og
hamingjusamur?
Að annast sjálfan þig andlega,
líkamlega og félagslega og vera
jafnframt glaður og gefandi við
fólkið þitt, á heimilinu og í þínu
nánasta sambandi? Vó, vó, hvert
er þessi sálfræðingur að fara, það
er nú hægara sagt en gert!
Já sannarlega en einmitt þess
vegna er snjallt að pæla aðeins
í þessu og nýta sér bjargráð og
hugmyndir frá öðrum. Finna
svo sínar leiðir til að tækla sem
best tarnir og krefjandi vikur
og mánuði, hvort heldur sem er
vorannir eða heyskap.
Hér eru nokkur vel reynd ráð
úr þekkingarbrunni sálfræðinnar:
• Svefn er í alvöru mikilvægur
og nauðsynlegur. Svefn snýst
ekki aðeins um líkamlega hvíld
heldur einnig andlega og um
hugræna getu, möguleikann á
að geta hugsað af viti og haldið
einbeitingu á annatímum.
Geta tekið réttar ákvarðanir,
sinnt eigin grunnþörfum, sýnt
öðrum virðingu og haldið
starfsorku. Virtu svefntímann
þinn eins og nokkur möguleiki
er á. Þá afkastar þú meiru, átt
auðveldar með að sjá lausnir í
daglegum störfum, líður betur
bæði andlega og líkamlega og
hreinlega ert skemmtilegri.
• Jákvæð hegðun og samstarf
léttir störfin. Þegar ótal verk kalla
og þreytan segir til sín falla margir
í þá gryfju að verða óþolinmóðir,
hvassir, neikvæði, síkvartandi og
önugir eða fáskiptir, orðfáir og
þungir. Hugsið út í að hafa góð
samskipti við þá sem ganga með
ykkur til verka, hvort sem það er
fólkið úr fjölskyldunni ykkar eða
óskyldir aðilar.
Það er ekki sæmandi að hegða
sér á meiðandi og neikvæðan hátt,
hunsa sitt samstarfsfólk með því
að heilsa varla, svara út í hött eða
alls ekki. Ekki heldur að finna
sífellt að, öskra á þá sem gera
mistök eða tala niður til fólks.
Jákvæðni snýst um að þakka
hverri hjálpandi hönd, hafa orð
á því sem vel gengur, slá sér og
sínum á brjóst yfir þessum tíu
hlössum af skít sem komin eru
á grundina í stað þess að láta
daginn litast af pirringi yfir
því að haugdælan stíflaðist.
• Beinum athyglinni að því
sem vel gengur. Þá vex það í huga
okkar og við fyllumst frekar stolti,
orku og gleði og það einfaldlega
gengur betur. Hugsum um það á
hverjum morgni að taka eftir og
þakka fyrir það sem gengur vel
og reyna að vera bjartsýn.
Hrósum hvert öðru og sjálfum
okkur í önn dagsins og beinum
athyglinni að því jákvæða.
Það má til dæmis hafa bók eða
lista við höndina þar sem áfangar
og árangur dagsins er skráður, gefa
því góða broskall og hvert öðru
bros, klapp á öxl eða háa fimmu.
• Passaðu upp á sjálfan þig.
Taktu ábyrgð á þér, hvað þarftu?
Til að geta verið stoltur af sjálfum
þér í önn dagsins? Sinntu þörfum
þínum og hlúðu að þér. Það er
forsenda þess að þér takist að
halda fullum starfskröftum, njóta
lífsins og vera hæfur á heimili og
í fjölskyldu á annasömum tímum.
Gættu þess að borða reglulega
og skynsamlega, drekka nógan
vökva, taka stuttar pásur, rétta
úr þér, láta hugann reika og anda
djúpt nokkrum sinnum. Ekki
hugga þig með skaðráðum svo
sem drykkju, óhóflegu áti á sykri
eða einhvers konar neyslu, til
dæmis á nikótíni.
Taktu markvisst og meðvitað
eftir því sem gengur vel, veltu þér
upp úr því en ekki því sem aflaga
fer. Haltu sambandi við vini og
félaga, hringdu og spjallaðu, já
það er mikilvægt.
Ef þú ert svo lánsamur að eiga
maka og fjölskyldu ræktaðu þá
nánd við þau einmitt þegar það
er brjálað að gera. Eða eins og
segir í dægurlagatextanum, kysstu
kerlu að morgni, snerting, knús,
kossar, nánd og hlýja gefur orku
og ljúfara líf, líka á sauðburði.
• Hugsaðu á hjálplegan
hátt. Leitastu við að hugsa í
lausnum, þetta er ekki vonlaust,
eða bara ein lausn til sem er of
erfið. Það eru alltaf fleiri leiðir.
Ekki einblína á það sem gengur
ekki, víkkaðu hugsunina og
stækkaðu sjóndeildarhringinn,
þá áttu auðveldara með að
finna það sem hjálpar. Stundum
erum við föst í gömlum siðum
og venjum sem ganga ekki
upp lengur, eru íþyngjandi, of
tímafrek, erfið, eða ekki lengur
besta lausnin. Verum opin fyrir
nýjungum og öðrum siðum til
að leysa vandann og létta lífið.
• Skipulag og forgangsröðun
er svo auðvitað lykill að léttari
dögum og árangursríkari
rekstri. Raunhæfar áætlanir, að
gefa sér ákveðinn tíma í verk og
leitast við að láta það duga, að
sætta sig við að eitthvað verður
undan að láta og gleyma því aldrei
að mannauðurinn, þú og fólkið
þitt, er öllu öðru verðmætara.
Ekki valta yfir þig og þína, til
hvers er þá barist?
Það er yndisleg tilfinning að
liggja flatur í krónni í fjárhúsunum
á bjartri vornótt og koma lífi í
seinni tvílembinginn, sjá hann
taka við sér og líf lifna enn á ný.
Að ná loksins móður, sveittur
og sár á höndum að draga svarta
nautið úr skjöldóttu kvígunni og
mjólka hana síðan í fyrsta sinn,
júgrað jafnt, allir spenar í lagi og
kálfurinn svelgir í sig broddinn.
Það er ómetanlegt ævintýri að
vera íslenskur bóndi sem fagnar
vori, hlúið að ykkur sjálfum til að
þið og ykkar fólk getið notið þess
alveg í botn.
Kristín Linda Jónsdóttir,
sálfræðingur
Heimildir: J.S. Beck.,
T. Ben-Shahar, M. Yapko.
LESENDARÝNI
Kristín Linda
Jónsdóttir.
Lífsgæði:
Heillandi, sligandi vor
Vaka
Sigurðardóttir.
Sjálfdauð kýr
Þegar dýr drepst geta góð ráð verið dýr. Sum sveitarfélög eru með það fyrirkomulag að staðsettir eru svokallaðir
hrægámar á vel völdum stöðum um sveitina. Hér er mynd af einum slíkum. Mynd / ÁL