Bændablaðið - 11.05.2023, Blaðsíða 44
44 Bændablaðið | Fimmtudagur 11. maí 2023
LÍF&STARF
Í Sænautaseli á Jökuldalsheiði
hefur um árabil verið rekin
ferðaþjónusta yfir sumartímann.
Á þessu gamla heiðabýli hafa
gestir og gangandi getað gengið um
torfhlaðin bæjarhúsin með sínum
gildu röftum og séð ýmis amboð og
búsmuni sveitabúskapar frá byrjun
tuttugustu aldar, auk húsdýra, svo
sem kýr, kinda, hesta, hæna, katta
og hunda. Í gömlu fjárhúsi er rekin
veitingastofa þar sem meðal annars
kaffi og lummur eru á boðstólum.
Náttúrufegurðin og kyrrðin á
heiðinni er einstök og útsýn víð, auk
þess sem Sænautavatn skammt frá
bænum er fallegt heiðarvatn, með
stærri vötnum á Jökuldalsheiði og 23
m djúpt, þar sem veiðist silungur. Að
jafnaði er Sænautasel opið frá byrjun
júní og fram í september.
Lilja Hafdís Ólafsdóttir, bóndi
á Merki á Efri-Jökuldal, rak
ferðaþjónustuna í Sænautaseli nær
sleitulaust í þrjátíu ár, eða allt frá því
að húsin voru endurbyggð. Síðasta
sumarið hennar sem rekstraraðili
var í fyrra en eftir það lagði hún hið
metnaðarfulla uppbyggingarverkefni
í hendur nýs aðila og tekur sá við
góðu búi, enda langur vegur frá því
er Lilja bjó fyrstu sumrin í gamla
torfbænum, var með kú í torffjósinu
og vaskaði upp í læknum.
Sænautasel samt við sig
Björn Hallur Stefánsson, einnig
búsettur í Merki, tók við rekstri
Sænautasels í fyrrahaust. Hann er
ekki ókunnugur rekstrinum því
hann hafði verið Lilju til aðstoðar
frá 1997. Björn Hallur segir að
ferðaþjónustan í sumar verði með
hefðbundnum hætti „Jú, þetta verður
haft í sama hefðbundna stílnum,
hann hefur reynst vel,“ segir hann.
Boðið verði upp á gistingu í gamla
bænum, tjaldsvæði án rafmagns,
leiðsögn um bæjarhúsin og tekið á
móti hópum í veitingar í fjárhúsinu
ef pantað er fyrir fram. Þar séu á
boðstólum lummur, kaffi og kakó
og jafnvel eldaður silungur úr
vatninu ofan í hópa. Gestir geta
keypt veiðileyfi í Sænautavatn og
hægt er að leika sér á hjólabátum á
Kílnum þegar þannig viðrar. Björn
Hallur segist halda að opnað verði
fyrir ferðafólk að Sænautaseli um
eða eftir miðjan júní. „Við opnum
þegar vegurinn hefur þornað og búið
er að hefla hann,“ og er bjartsýnn
fyrir komandi sumri.
Fyrirmynd Bjarts
Sænautasel stendur í 525 m.y.s.
og var byggt árið 1843 úr landi
Hákonarstaða. Þar var búið í um
öld og var um tíma búseta á allt að
sextán bæjum á Jökuldalsheiðinni.
Byggð eyddist að mestu leyti í
Öskjugosi 1875 og Sænautasel stóð
þá autt um fimm ára skeið. Síðasta
fólkið flutti þaðan 1943.
Sænautasel var endurbyggt árið
1992 og aftur að hluta 2010. Bærinn
er um fimm kílómetra frá gömlu
þjóðleiðinni um Möðrudalsöræfi
og Jökuldalsheiði.
Ýmsir munu kannast við að
fyrirmynd Bjarts í Sumarhúsum í
skáldsögu Halldórs Kiljan Laxness,
Sjálfstæðu fólki, hefur verið talin
komin frá Sænautaseli en Kiljan
gisti þar á ferð sinni um Austurland
haustið 1926. Er skáldsagan talin
spanna tímabilið 1899 til 1921. Fleiri
skáld rituðu um heiðabúskapinn
svokallaða, svo sem Gunnar
Gunnarsson og Jón Trausti. /sá
Ferðamenn og heimafólk leggja gjarnan leið sína í Sænautasel á Jökuldalsheiði til að skoða gamla búskaparhætti heiðabýlisins.
Áætlað er að opna laust eftir miðjan júní. Myndir / SÁ
Bær var fyrst reistur í Sænautaseli árið 1843, endurbyggður
1992 og að hluta 2010. Á sumrin er þar drjúg umferð gesta.
Iðulega er tekið á móti hópum í Sænautaseli og þá jafnvel slegið upp
matarveislu þar sem boðið er upp á nýveiddan silung úr vatninu við bæinn.
HURÐIR
Tunguháls 10, 110 Reykjavík, sími 567 3440, vagnar@vagnar.is, vagnar.is
• Stuttur afhendingartími
• Hágæða íslensk
framleiðsla
• Val um fjölda lita í
RAL-litakerfinu
• Vindstyrktar hurðir
Bílskúrs- og iðnaðarhurðir
Iðnaðarhurðir
Iðnaðarhurðir með gönguhurð
Bílskúrshurðir
Hurðir í trékarma
Tvískiptar hurðir
Smíðað eftir máli
Fyrsta flokks þjónusta og ráðgjöf
Jökuldalsheiði:
Senn lifnar yfir Sænautaseli
– Nýr rekstraraðili tekinn við og ætlar að halda áfram að glæða staðinn lífi
Styrktartónleikar fyrir
fjölskyldu Guðjóns
Styrktartónleikar kóra og tónlistarfólks í Rangárþingi verða haldnir á
Laugalandi í Holtum sunnudagskvöldið 14. maí kl. 20.
Þeir sem standa að tónleikunum eru Hringur, sem er kór eldri borgara,
Karlakór Rangæinga, Kirkjukór Kálfholtskirkju, Kvennakórinn Ljósbrá,
Miðtúnssystur, Vinir Jenna og Öðlingarnir.
Tónleikarnir eru til styrktar fjölskyldu Guðjóns Björnssonar, bónda á
Syðri-Hömrum í Ásahreppi, sem lést af slysförum 17. mars síðastliðinn.
Aðgangseyrir er 4.000 krónur.
Fjölskyldan á Syðri–Hömrum í fjósinu á bænum. Frá vinstri: Helga Björg,
Stefán Orri, Helgi Björn, Heiðdís Rún og Guðjón. Allur ágóði tónleikanna
rennur til fjölskyldu Guðjóns heitins. Mynd/Aðsend
Steinunn Ásmundsdóttir
steinunn@bondi.is