Bændablaðið - 24.08.2023, Síða 32
32 Bændablaðið | Fimmtudagur 24. ágúst 2023
Nú er sá tími að hægt er að hefja
tínslu sveppa og berja hérlendis.
Berjasælt hefur verið helst á
Austur- og Norðausturlandi, en
fregnir af sveppum berast hins
vegar víðs vegar af landinu og vart
seinna vænna en grípa tækifærið.
Telja leikmenn best að
ætla sér dag í sveppamó er
rignt hefur 2–3dögum áður en
sveppamósdaginn sjálfan þarf að
haldast þurrt.
Gott er að kynna sér vel útlit
sveppanna áður en haldið er af
stað og fyrir nýgræðinga er ágætt
að ætla sér að tína eina til tvær
tegundir sveppa sem eru hvað
auðþekkjanlegastir.
Þeir allra heitustu
Vinsælir íslenskir matsveppir sem
finnast víða eru lerkisveppur og
kúalubbi, en algildir eru einnig
kóngssveppir og furusveppir.
Kóngsveppir eru vinsælir mat-
sveppir og má gjarnan finna í
greniskógum þar sem gömul og
stór tré ráða ríkjum. Furusveppina,
sem þykja góðir, má finna víða um
land, oft nálægt byggð, en fjarlægja
þarf himnuna af hatti sveppanna
áður en þeirra er neytt.
Svo eru það kantarellusveppirnir
sem þykja mikið hnossgæti en
oftar en ekki vel faldir og þannig
fágætari en aðrar tegundir. Það
er því keppst um fund þessarar
tegundar og þeir sem vel þekkja
til kantarelluslóða segja helst ekki
frá. Vesturland og Vestfirðir hafa
þó komið þarna sterkt inn skv.
ónafngreindum upplýsingum.
Siglu- og Ólafsfjörður svosum
líka. Allavega, þeir sem eru svo
heppnir að reka augun í eitthvað
gult, td. hálfhulið mosa, mega búast
við því að ef um kantarellusvepp
er að ræða megi jafnan finna þar
heila hjörð.
Unga sveppi skal velja til tínslu
fremur en eldri, þá helst vegna
skemmda eða ágangs skordýra og
maðka.
Segir Guðríður Gyða Eyjólfs-
dóttir, einn helsti sveppafræðingur
landsins frá því að smá æfingar
sé þörf er kemur að því að meta
ferskleika sveppanna. Gæðin séu
misjöfn eftir tegundum. Má þar
nefna lerkisvepp sem verður ónýtur
mun fyrr en furusveppur – og svo
hafi sveppamýi fjölgað allverulega
síðan 2017. Mýið sé t.a.m. hrifið af
ungum lerkisveppum, en þeir sem
hafa orðið fyrir ágangi mýsins bera
nú rauðleitt pípulag fremur en gult.
Svo er gott að hafa í huga
að meðan eldri sveppir gegna
því hlutverki að sjá um fjölgun
tegundarinnar má gjarnan hafa
augun hjá sér því oft er um yngri
sveppi að ræða í nágrenninu.
Gæta skal þess að forðast
sveppatínslu á umferðareyjum eins
og oft hefur þótt vinsælt … en þá
helst vegna þeirra áhrifa sem
útblástur bifreiða hefur á þá.
Hafið bak við eyrað
Gott er að hafa sér til handargagns
einhvers konar upplýsingarit
eða myndabók um helstu
sveppategundir til að glöggva sig
á. Körfu, lítinn kassa eða annað
ílát sem loftar um – ekki plast – til
þess að geyma sveppina í, gjarnan
bursta og lítinn beittan hníf.
(Svokallaðan sveppahníf má
versla víða og hefur þá gjarnan
áfastan bursta.) Þó eru þeir sem
kjósa fremur að snúa sveppina
lausa úr jörðunni og er það hið
ágætasta mál.
Best er að hreinsa þá strax eftir
bestu getu, skera skemmdir í burtu,
jafnvel í tvennt ef stendur til að þurrka
þá – og gæta þess að þeir séu ekki
maðkaðir. Talið er óráðlegt að geyma
ferska sveppi lengur en sólarhring
eftir tínslu og þeir þá annaðhvort
þurrkaðir eða frystir.
Ef þurrka á sveppina skal sneiða
þá niður og setja á grind eða annan
stað sem loftar um þá – ganga svo
úr skugga um að þeir séu stökkir af
þurrki áður en þeir eru settir í loftþétt
ílát. Fyrir neyslu eða matreiðslu skal
svo leggja þá í nokkurra klukkustunda
bleyti áður, svo bragðgæðin fái að
njóta sín sem best.
Þá sveppi sem áætlað er að frysta
skal skera í bita er heim er komið, og
hita á pönnu við vægan hita. Þá eru
þeir látnir kólna að fullu, frystir að því
loknu og geta þannig haldið gæðum
sínum í marga mánuði.
Ber er hver að baki ...
Neysla berja hérlendis hefur alla
tíð verið búbót og hefst almenn
berjatínsla jafnan síðustu vikuna í
ágúst. Berin eru stútfull af vítamínum
og andoxunarefnum og því um að gera
að bregða sér í berjamó þessa dagana.
Sultur, hlaup, saft og vín er allt
eitthvað sem við getum notið þess að
gæða okkur á og má með einföldu
móti útbúa úr þessum nytjum landsins
þó einfaldast sé auðvitað að borða þau
bara með rjóma og sykri. Berjasvæði
eru víða í dölum og við hraun og á
meðan tínsla berja skipti suma meira
máli en aðra má ekki gleyma því
að útiveran er ekki síður gefandi
en kílóatala berjanna. Gott nesti er
nauðsynlegt og heitur drykkur, auk
auðvitað íláts fyrir berin og berjatínsla
Ber allt árið?
Um miðja síðustu öld var ágangur svo
mikill að landeigendur tóku til þess
bragðs að banna berjatínslu á jörðum
sínum og mátti m.a. sjá tilkynningar
þess efnis í dagblöðum landsins.
Berjatínsla og þau hlunnindi sem
henni fylgdu voru vinsælt málefni
enda um nytjajurt að ræða sem gaf til
heimilisins. Þótti bókin (Grænmeti og)
ber allt árið eftir Helgu Sigurðardóttur
sem útgefin var um þessar mundir afar
vinsæl, en þar fengust leiðbeiningar
um hvernig húsfreyjurnar gætu sem
best nýtt berin við heimilishaldið.
Gárungar þess tíma gátu auðvitað
ekki stillt sig enda bauð titillinn upp
á endalausa útúrsnúninga, svona
sérstaklega af því að bókin var víst
í daglegu tali kölluð „Ber allt árið“.
Telja flestir að útlit sé fyrir ágætis
berjasprettu en Sveinn Rúnar Hauks-
son, læknir og einn helsti berjatínslu-
sérfræðingur þjóðarinnar spáir því að
helst leiti hugurinn austur er kemur
að því að ætla sér í berjamó. Mælir
hann þá sérstaklega með að fara nálægt
Mýrdalssandi og Kirkjubæjarklaustri
en svo séu bláber nú ævinlega hægt
að finna í Eyjafirðinum.
Frumvarp vegna áfengislaga
Á meðan aðaluppistaða sultu,
hlaups og safts er ber og sykur, vatn
og hleypiefni kannski, er víngerð
krækiberja ekki mikið flóknari.
Atvinnumenn mæla með að merja
berin og hafa þau í sykri eða hunangi,
vatni og geri í rúma viku ... en rétt er
að taka fram að framleiðsla á áfengi
til einkaneyslu er ekki litin hýru auga
af yfirvöldum.
Fyrir áhugasama er rétt að benda
á að nú í ár var lagt fram eftirfarandi
frumvarp til breytinga á áfengis-
lögum (heimabruggun). Er það
svohljóðandi:
„Lagðar eru til breytingar á
áfengislögum þannig að heimilt verði
að framleiða áfengi til einkaneyslu
með ákveðnum takmörkunum.“
Kemur fram í frumvarpinu að á
undanförnum árum hafi orðið til
rík menning heimabruggunar;
„Almenningur virðist oftar en ekki
lítt upplýstur um að heimabruggun
áfengis til einkaneyslu feli í sér
refsiverðan verknað, sem bendir til
þess að réttarvitund almennings kunni
að vera á skjön við hið lögfesta og
fortakslausa bann í 4. gr. áfengislaga.
Með vísan til framangreinds er
talið tímabært að aflétta banni við
framleiðslu áfengis til einkaneyslu
og heimila slíka framleiðslu upp að
ákveðnu marki.“
En niðurstaða frumvarpsins er í
vinnslu og því sjálfsagt affarasælast
að sleppa öllum hugmyndum að
berjavíni og bjóða lesendum upp á
uppskrift að góðu og gildu kræki- og
bláberjahlaupi eftir meistarann Albert
Eiríksson.
Heldur Albert úti uppskrifta- og
upplýsingavefsíðunni vinsælu, www.
alberteldar.is. Þar er að finna ógrynni
uppskrifta sem kitla bragðlaukana auk
almennra upplýsinga er varða meðal
annars háttvísi við matarborðið.
Krækiberja- og bláberjahlaup
(a la Albert)
1,5 l berjasaft
700 g sykur
1/3 tsk. salt
2 kanelstangir
1-2 msk. negull (gjarnan í lítinn
taupoka sem bundið er fyrir)
2 vanillustangir eða
2 msk. vanillu-extrakt
1 poki Melatin hleypir (blár)
Saft, sykur, salt og krydd sett í
pott og hitað saman. Þegar suðan
kemur upp, er hleypinum stráð út
í og þeytt um leið með píski. Látið
bullsjóða í eina mínútu og þeytið
áfram með pískinum.
Hellt í tandurhreina könnu og
hellt úr henni í krukkur sem hafa
verið soðnar og hafa beðið rólegar
í vaskinum eftir innihaldinu. Lokað
strax og kælt.
Gaman er að segja frá því að
Páll Bergþórsson, hinn ástsæli
veðurfræðingur okkar Íslendinga og
tengdafaðir Eiríks, samdi ljóð í tilefni
tilvistar hlaupsins og mega lesendur
því vera vissir um að þarna sé um
afbragðs gott hlaup að ræða.
LÍF&STARF
Nytjar landsins:
Ber & sveppir á hvern bæ
Ef bláber og krækiber kremjið þið
og komið þeim saman í pott
með kanel og negul og vanillu við,
þá verður það hollt og flott.
Það eykur á jólanna fegurð og frið
að fá sér í munninn gott.
Páll Bergþórsson
Kóngssveppir, lerkisveppir og kantarellur, ferskir og fínir matsveppir! Myndir / wikipedia.com
Berjatínsla bönnuð – úr dagblaðinu Degi þann 18. ágúst 1954. Mynd / timarit.is
Krækiber eru til margs nýt.
Sigrún Pétursdóttir
sigrunpeturs@bondi.is