Goðasteinn - 01.03.1964, Blaðsíða 13
Carl Jörgensen, danskur að kyni. Forstjóri er nú Grétar Símonar-
son. Annað starfslið er stórt hundrað manna. Starfsemi búsins
hófst með því, að tekið var á móti mjólk frá 52 bændum að magni
1284 kg. 1961 voru framleiðendur 1155 að tölu. Árið 1930 var mjólk-
urmagn móttekið og vegið ein milljón tvö hundruð og sextíu kíló,
en 1962 34,6 millj. kílóa.
Kaupfélag Árnesinga var stofnað 1. nóv. 1930 í Sigtúnum. Egiil
Grímsson Thorarensen gerðist þegar kaupfélagsstjóri og stjórnaði
því til aldurtilastundar. Fyrstu stjórn skipuðu Ágúst Helgason,
Birtingaholti form., Gísli Jónsson, Stóru-Reykjum og Þórvaldur
Ólafsson, Arnarbæli. Tala félagsmanna 1931 var 117 og 1961 alls
1760. Kaupfélagið rekur verzlun með hérlendar og erlendar vörur
í aðalstöðvum sínum á Selfossi og fjórum útibúum: Stokkseyti,
Eyrarbakka, Hveragerði og Þórlákshöfn. 1931 var vörusala 550 þús.
en 1962 á Selfossi 95,5 millj, á útibúunum fjórum 28,1 millj., en
seld vinna á verkstæðum 46,7 millj. eða alls 1962 170 milljónjr.
K.Á. rekur einnig fjölda fyrirtækja á Selfossi, svo sem hitaveitu,
trésmiðju og vélsmiðjur, rafmagnsverkstæði, lyfjabúð, efnagerð,
þvottahús og brauðgerðarhús. K.Á. starfrækir enn fremur frysti-
hús í Fossnesi í samvinnu við Sláturfélag Suðurlands og M.B.F.
Kaupfélagsstjóri er nú Grímur Egilsson Thorarensen og annað
starfslið 300 stór.
Á Selfossi eru sjö smásöluverzlanir. Er verzlunin Höfn, eign
S. Ó. Ólafsson & Co. þeirra elzt og stærst og rekur sláturhús,
frystihús og kjötbúð.
Eins og áður er getið, er Selfoss samgöngumiðstöð Suðurlands
og mesti kaupvangur. Allir bændur á viðskiptasvæði M.B.F. senda
dag hvern mjólk til búsins. Þannig er daglega skipulagt samband
milli Selfoss og hvers bóndabýlis. Einnig eru á hverjum degi
skipulegar ferðir úr héraði til Reykjavíkur, mannflutningar og
mjólkurvara. Ferðaskrifstofan á Selfossi annast afgreiðslu áætlun-
arferða og veitir fræðslu um ferðir innanhéraðs og úr héraði.
Byggingar allar á Selfossi eru reistar með góðri skipan. Húsin
eru flest vönduð að efni og allri gerð, götur beinar og breiðar,
lóðir og lendur ræktaðar. íbúarnir hafa gert sér mikið far um
að prýða umhverfi húsa sinna með trjágróðri og blómarækt.
Goðasteinn
11