Goðasteinn - 01.03.1964, Blaðsíða 82
þurr föt og allan þann beina, sem hægt var að láta í té. Með
sjálfri mér veit ég, að þessi atburður hefur orðið m.ér mikils virði.
Hvern dag verðum við að mæta viðfangsefnum, ytra og innra,
og öll eiga þau einhvern þátt í að móta líf okkar. Sumt er baðað
sól og heiðríkju, annað erfiðara. Ég get tekið undir með Sveini
á Reyni í grein hans í Goðasteini, er ég hugsa til háskans í Þverá:
„Þrátt fyrir allt ein þeirra stunda, er ég vildi sízt missa úr lífi
mínu.“ Við kunnum áreiðanlega betur að meta sumarið fyrir það,
að til er vetur.
Um kvöldið fórum við inn að Fljótsdal. Þegar þangað kom,
vaknaði ég í raun og veru til þeirrar staðreyndar, að ég átti aðeins
það sem ég stóð í, allur farangur minn hafði horfið í Þverá.
Ferðinni var haldið áfram, cins og ekkert hefði ískorizt. Ég
fékk lánuð föt í Reykjavík. Ein frænka mín þar var svo stórtæk,
að hún gaf mér efni í peysuföt, og ýmsir aðrir urðu til þess að
bæta skaða minn. En svanina mína gat enginn bætt mér. Þeir voru
ekki listaverk, aðeins áþreifanleg minning um einn áfanga ævi
m.innar og vináttu góðra manna. Aldan tætir mörgum verðmætum
til og frá, eins og rótlausu þangi, en góðum minningum verður síð-
ast á glæ kastað.
Ég ólst upp með fólki, sem bjó við erfiðar aðstæður. Aldrei
man ég eftir, að það kvartaði, en reynt var að ráða bót á erfið-
leikunum. Börnin voru látin gera allt, sem þau gátu og yfirleitt
lærðu þau ábyrgð og vinnugleði. Fyrir mörgum árum kom hér
bóndi, sem enn er á lífi. Hann hafði komið upp stórum barna-
hóp og var að rifja upp ýmsa erfiðleika, en sagði að lokum: „Oft
kom það þó fyrir að ég varð alsæll.“ Hann fékk það svar, að al-
sælu væri ekki hægt að eignast hér. Honum varð þá að orði:
„Jú, ég hef séð af sjö börnum mínum og misst móður þeirra,
og í vetur, þegar hörkurnar voru mestar, leið mér svo illa. Ég
hafði ekki frétt af neinu barna minna í langan tíma og gat ein-
hvern veginn ekki fest hugann við annað en það. En svo einn
daginn hittist svo á, að ég fékk bréf frá þeim flestum, og þá varð
ég svo sæll, að ég gat faðmað alla tilveruna.“
Fyrir tæpu ári kom ég á heimili, þar sem gestir voru fyrir. Ég
fylgdist ekkert með því, sem rætt var, ýmist var ég frammi í eld-
80
Goðasteinn