Goðasteinn - 01.06.1975, Síða 6
orðnir þreyttir og ákváðum að fara ekki lengra. Snerum við heim
á leið, þegar við höfðum kvatt ána með stuttri bæn. Mættum við
tveimur mönnum, sem farnir voru að leita að okkur og veittu
okkur þessa áminningu: „Þið eigið að láta fólk vita ef þið ætlið
að fara langt.“
Við gjörðum góða ferð, nú kom ærin ekki í túnið, og við
vorum frjálsari. Nú var smalað og geldfé rúið. Ekki kom ærin og
þótti aldrei gott, þegar vantaði ær, sem átti að færa frá. Ærin kom
ekki í fyrstu rétt um haustið, og nú vorum við teknir í próf um
það, hvað við hefðum gert við hana, en við sögðumst hafa skilið
við hana í fallegum grasbotni. Var þá látið nægja að stríða okkur
með ferðinni, en í annarri rétt kom ærin í öllu reyfi og með
fallegu lambi. Þá vorum við ánægðir og þá var hætt að stríða
okkur.
Leikföngin mín voru skeljar, bobbar, horn og kjálkar, og við
þau undi ég glaður, og ekki var minni ánægjan yfir upptíningnum
á vorin, sem var innleggið okkar barnanna, þegar farið var í
kaupstaðinn. Nú liggja hagalagðarnir í friði, börnin hafa öðru
að sinna en tína þá upp.
Oft kom ég í smiðjuna til Eiríks. Hann smíðaði mikið bæði
fyrir heimilið og aðra. Rennibekk átti hann og renndi í honum
rokka og margt annað. Fleira en smíðarnar dró mig í smiðjuna,
þar voru lömb höfð á vetrum, og þau þótti mér skemmtilegt að
skoða. Þau voru hressileg og þoldu vel reykinn en voru blá á
ullina af honum.
Ekki reiknuðu bændurnir á Hvalnesi tímakaup fyrir vinnu sína í
annarra þágu, en það kom oft greiði á móti greiða. Ekki voru
allir bændur búhagir og ekki allir bændur búmenn, en Hvalnes-
bændurnir voru góðir búmenn. Guðrún kona Eiríks var sterk og
þrekmikil kona og kát. Það kom fyrir, að hún var búin að slá
góða skák í túninu, þegar fólk kom á fætur. Venjulega var þó
farið snemma á fætur á þeim árum. Það er líka hollt og hressandi
að vera snemma á fótum.
Nú stóð mikið til, ég átti að hafa vistaskipti. Fóstri minn var
búinn að byggja baðstofu í Svínhólum og ætlaði að flytja þangað
4
Goðasteinn