Ársrit Torfhildar - 01.04.1987, Page 37
Jón Karl Helgason:
HETJUR OG HIMPAGIMPI
Um siöahugmyndir og Hómerskviður*
það er því bónraín, að enginn yðar bryddi á ójöfnuði hér á heimili minu; þvi nú hefi eg fengið
skynbragð og vit á þvi, sem er gott og illt, þar sera eg fyrr meir var sem barn. (Od.:326)
Mönnum hefur löngum þótt miklu skipta að bera skynbragð á
sannleikann og ekki síst á hvað sé gott og illt, rétt og rangt.
Þeir hafa líka löngum deilt um hvort eitthvað sé til sem sé rétt
og gott í sjálfu sér eða hvort þessi gildi séu háð þeirri menn-
ingu og þeim tíma sem um ræðir. Sókrates og Platón voru dyggir
málsvarar fyrrnefnda viðhorfsins; Sókrates tefldi því fram í
gagnrýni sinni á hentistefnu sófistanna en Platón í frummynda-
kenningunni þar sem frummyndirnar eru óbreytanlegar og eiga allar
hlutdeild í eilífri frummynd hins góða. Gegn þessu viðhorfi hafa
margir bent á að mælikvarðar góðs og ills hafi ekki verið hinir
sömu fyrr á öldum og nú og að þeir séu misjafnir eftir rnenn-
ingarheimum. Siðferði og siðgæðishugmyndir okkar íslendinga eru
til að mynda eilítið frábrugðin því siðferði og siðgæði sem Tyrkir
búa við. Ekki er víst að þessi viðhorf séu með öllu ósamræmanleg.
Enda þótt siðferðileg breytni manna miðist iðulega við ákveðnar
siðgæðishugmyndir og allur gangur sé á þeim siðferðilega veruleika
og því gildismati sem maðurinn hefur alist upp við í sögunnar
rás, er ekki þar með sagt að útilokað sé að komast að einhverjum
niðurstöðum í siðferðilegum efnum.
Rétt er að geta þess að hér verða ekki settar fram einhverjar
gullvægar staðhæfingar um rétta eða ranga breytni. Viðfangsefnið
einskorðast við siðahugmyndir og verk Hómers, Ilíonskviöu og
Odysseilskviöu. Á þessi tengsl siðgæðis og siðferðis er hins vegar
minnst til að gera að nokkru leyti grein fyrir því verkefni sem
blasir við slíkri orðræðu. Það er vandasamara fyrir þá sök að í
bókmenntum er unnt að skoða siðahugmyndir frá ýmsum ólíkum
sjónarhornum, sjónarhornum sem getur þó veist erfitt að greina
að og eiga til að skekkja hvert annað.
* Þessi ritgerð var upphaflega skrifuð sem áfangi i námskeiðinu „Fornaldarbókmenntir" sem Kristján Árnason
kenndi í Almennri bókmenntafræði við Háskóla íslands haustið 1986. Hún birtist hér að mestu óbreytt.
35