Ársrit Torfhildar - 01.04.1991, Síða 17
Ársrit Torfhildar
Eiríkur Guðmundsson
EINU SINNI VAR MAÐUR SEM...
Nokkur orð um smásagnasafn Guðbergs Bergssonar; Maðurinn er
myndavél.
Hvers vegna seturðu upp svona gleraugu? spurðu börnin. Ja, ef
ég vissi nú það, sagði Aron. Maðurinn er myndavél (bls.26)
I
Guðbergur Bergsson er köttur sem fer sínar eigin leiðir. Bók
hans, Tómas Jónsson Metsölubók (1966), átti meginþátt í að skapa ný
viðmið í íslenskri skáldsagnagerð, og gaf öðrum höfundum úr húsi
módernismans meðbyr, þó svo að módernismi af einhverju tagi hefði
verið iðkaður í hérlendri skáldsagnagerð, til dæmis á þriðja
áratugnum af Laxness og Þórbergi (til dæmis Vefarinn mikli frá
Kasmír og Bréf til Láru). Samsvarandi formbylting við þá sem átti
sér stað í ljóðagerð upp úr seinna stríði varð því ekki í
skáldsagnagerð fyrr en um miðjan sjöunda áratuginn, og þar fór
Guðbergur fremstur í flokki með Tómasi og þeim samtengda hópi
bóka sem sigldu í kjölfar hans. Síðasta bókin í þeim hópi var Það rís
úr djúpinu (1976), þótt ýmsir draugar hafi reyndar verið á sveimi
síðan, og nægir að nefna Hermann Másson, "höfund" Froskmannsins
frá 1985. Guðbergur hefur verið og er enn sér á báti í íslenskum
bókmenntum; leiðirnar sem hann fer eru hans eigin en ekki annarra
og lykilorðið er ferskleiki; frumleiki; nokkuð sem oft er víðs fjarri í
verkum íslenskra höfunda, og þá ekki síst í smásagnagerð.
Ólafur Jónsson segir í grein sinni "Eftir formbyltingu - Um sögu
samtímabókmennta" um nýstárleg verk á sjöunda áratugnum:
Og sú formbylting sagnagerðar sem hafin er með þessum verkum
og höfundum stefnir ekki burt frá þjóðfélaginu og samtíðinni,
mannlegum og félagslegum veruleik og vandamálum samtíðar.
Þvert á móti virðist í sögum Guðbergs Bergssonar og Svövu
Jakobsdóttur sem aðferðir nýrrar raunsæisstefnu séu í mótun og
tilraun, leitað með nýjum hætti fangstaðar við vandamál
raunhlítrar samfélags- og samtíðarlýsingar." (Líka líf, bls.118)
Ólafur talar hér um einhvers konar ’nýtt raunsæi' og kveður þar
15