Goðasteinn - 01.09.2007, Blaðsíða 67
Goðasteinn 2007
Geiri vildi láta til skarar ski'íða en Jón dró heldur úr og taldi líklegt að ærin
mundi koma sér úr þessum ógöngum ef hún væri látin sjálfráð. Ég sá að Geiri yrði
ekki stöðvaður og mynduðum við nú keðju með því að halda fjallstöngunum á
milli okkar, Geiri fór á undan, ég í miðið og Jón efstur. Meiningin var að komast á
hlið við kindurnar og beina þeim upp úr gilinu.
Það fór þó á annan veg því að þegar Geiri átti skammt eftir niður til þeirra,
steypti ærin sér fram af klettinum og í ána og fylgdu bæði lömbin á eftir. Er það
með því sérkennilegra sem fyrir mig hefur borið á fjalli, að horfa á eftir þremur
kindum í röð skolast á fleygiferð og hringsnúast í straumkastinu og sendast fram
af fossbrúninni.
Okkur var nokkuð brugðið, hröðuðum okkur upp á gilbrúnina og fram að fossi.
Þótti okkur viðbúið að þar myndi óhugnanleg sjón við blasa og vonlítið að nokkur
skepna kæmist lifandi úr slíku falli.
Undrun okkar og léttir varð því í meira lagi, þegar við sáum þá arnhöfðóttu og
bæði lömbin vera komin upp á eyrina framan við hylinn og hrista sig þar svo
vatnsgusurnar gengu í allar áttir. Léttist okkur enn í sinni, þegar kindurnar héldu
af stað niður með ánni og sá ekki helti á neinni þeirra, hvað þá meira.
Við höfðum ekki gert okkur grein fyrir að hylurinn undir fossinum væri svo
víður og djúpur, að flugferð kindanna þarna fram af gæti endað svona farsællega.
En sú arnhöfðótta virtist láta þetta sér að kenningu verða og hætti allri óþægð,
rann stillt og spök eftir veginum allt fram í Fellsrétt.
Allskammt ofan og austan við þennan stað er Skollhóll, Stakur klettahöfði í
brúninni austur af Þórólfsfelli. Austan hans sker gilið þverbrattar brekkurnar áður
en það beygir ti! vesturs. Fé sem kemur af efri hluta Framfjallsins rennur niður
með gilinu, nema það sem efst fer og lendir norðan Þórólfsfells.
Neðan við Skollhól er gilið grunnt og greiðfært á kafla og þegar féð rennur þar
yfir, sækir það gjarnan á brattann á ný. Nauðsynlegt var því að hafa þar mann í
fyrirstöðu til að beina fénu niður á göturnar fram úr Grautartorfugili.
Seinni árin mín á fjalli, eftir að ég tók að hafa með höndum flutninga á fé og
farangri, kom það í minn hlut að aka á undan fram undir Grautartorfugil og keifa
síðan upp með því að austan til að komast í þessa fyrirstöðu.
Þetta er allhátt og bratt uppgöngu, allt upp í stakan klettahöfða, þaðan sem
gefur góða útsýn yfir hlíðina framan við Skollhól. Þarna hafði ég oft viðdvöl og
beið þess að safnið kæmi innan að. Klettahöfði þessi sker sig úr landslaginu, settur
hækkandi stöllum allt um kring en auðveldur uppgöngu að ofanverðu.
Einhver fann upp á því að tala urn að nú væri presturinn að stíga í stólinn,
þegar ég prílaði þarna upp í fyrirstöðuna, og þar með var orðið til nýtt örnefni,
Stóllinn, svo sem þessi klettaröðull heyrist nú nefndur.
65