Goðasteinn - 01.09.2007, Blaðsíða 154
Goðasteinn 2007
spennandi spurning um líf í alheimi verði sífellt raunhæfara verkefni fyrir vís-
indin.“ Þriðja og síðasta verkefnið sem dr. Þór Jakobsson fitjar upp á sem verðugu
viðfangsefni menntastofnunar í Odda, „... er saga mannkyns, einkum með tilliti til
veðurfarsbreytinga á jörðinni allt frá forsögulegum tíma. Hér teldust með
rannsóknir um umhverfi mannsins og lífríkisins í heild. Saga fornþjóða fyrir botni
Miðjarðarhafs er mjög lærdómsrík í þessu tilliti og því miður of lítið kunn hér á
landi“, segir í ívitnaðri grein Þórs Jakobssonar, sem lagði í máli sínu áherslu á að
á nýju fræðasetri í Odda yrði einkum fengist við verkefni sem ekki væri mikið
sinnt fyrir hér á landi.
I framhaldi af þessari lýðhvöt dr. Þórs Jakobssonar var Oddafélagið svo
formlega stofnað í Odda hinn 1. desember 1990 og fylgdu stofnun þess hvatn-
ingarorð og góðar óskir víða að. Hefur félagið starfað með góðri reglu og staðið
fyrir fjölbreyttu og áhugaverðu fræðslustarfi í Rangárþingi, þar sem náttúra og
saga héraðsins hefur verið í brennidepli. Jafnframt hefur félagið átt drjúgan þátt í
að á Gammabrekku í Odda var reist hringsjá 1994 og afsteypu af myndverki As-
mundar Sveinssonar, Sæmundur á selnum, var fundinn staður á svonefndum
Strympuhól í útnorður frá kirkjudyrum árið 1998. Hvort tveggja er staðnum til
mikillar prýði. Oddafélagið hefur haft fornleifarannsóknir í Odda á stefnuskrá
sinni, og sótti í því skyni um fjárstyrk til slíkra rannsókna til Kristnihátíðarsjóðs
fyrir fáum árum en hlaut ekki náð fyrir augum forráðamanna hans.
Oddi um aldamótin 2000
Aðstæður í Odda eru núna næsta líkar því sem tíðkast mun á flestum prests-
setrum til sveita og má segja að húsakostur hafi ekki breyst svo ýkja mikið í 100
ár. Kirkjan í Odda er timburkirkja frá 1924, reist eftir uppdrætti Guðjóns Samúels-
sonar húsameistara rfldsins, lítið þjónustuhús safnaðarins austan kirkjunnar var
reist 1986, prestsseturshús eftir staðlaðri teikningu Bárðar Isleifssonar arkitekts
hjá húsameistaraembættinu er frá 1967, sömu gerðar og margir af prófessora-
bústöðunum við Aragötu í Reykjavík. Bílskúr var fyrst reistur yfir vélknúin farar-
tæki Oddaprests árið 1996 og loks má nefna gripahús er sögumaður reisti 1999,
svo hýsa mætti hluta bústofnsins er fylgir Oddastað, sem eru 19 ær, loðnar og
lembdar. Skal sérhver prestur sem af staðnum fer skila þeim bústofni áfram til
viðtakanda og hefur þessi skipan haldist varðandi sauðféð sem staðnum skal
fylgja. Andvirði þriggja kúa sem einnig skulu fylgja staðnum lagði séra Arn-
grímur Jónsson inn í kirkjumálaráðuneytið árið 1964, og er það þar enn, væntan-
lega vel ávaxtað!
152