Goðasteinn - 01.09.2007, Blaðsíða 234
Goðasteinn 2007
Bjarni faðir hennar og síðar Þórður bróðir hennar oddvitar Holtamanna um ára-
tuga skeið og mörg erindin sem sveitungarnir áttu á heimili þeirra. Þangað var
ævinlega gott að koma, móttökur hjartanlegar og andi einingar og heimilishlýju
umvafði alla er þau sótti heim. Eljusemi og iðni var þeim Meiri-Tungusystkinum
öllum eðlislæg.
Fjölskyldan öll var ævinlega sem einn maður og tengsl milli foreldra, systkina
og ættingjanna náin og kær og það einkenndi fjölskylduböndin alla tíð. Þess hafa
þau notið í ríkum mæli börn Valtýs bróður hennar, þau Bjarni, Jóhann, Valtýr og
Sigríður Þórdís en Meiri-Tunguheimilið var þeirra annað heimili.
Stína var góð kona, ljúf, æðrulaus og sönn. Að upplagi var hún létt í lund og
hafði mikið jafnaðargeð þó jafnan stutt í gáskann og gleðina. Hún var konan sem
alltaf var að veita og hlúa að og ævinlega reiðubúin til hvers konar starfa og sér-
hvert viðvik sem hún var beðin um, hvort heldur það var í þágu kvenfélagsins
Einingar sem hún stýrði til margra ára eða í þágu kirkjunnar sem var henni mjög
kær, - eða hvers sem var, taldi hún sér heiður að inna af hendi. Hún var næm á
mannlegar tilfinningar og bæði börn og fullorðnir hændust að henni því henni var
svo eðlislægt að bera virðingu fyrir öðrum og sýna samúð sem gerði svo mörgum
gott að eiga samleið með henni.
Styggðaryrði heyrði enginnhana segja um nokkurn mann og á slíkt hlustaði hún
ekki. Stína var þeirrar gerðar að hafa mannbætandi áhrif á umhverfi sitt. Hún var
kona kærleika og vináttu, hún átti orð og ráð sem höfðu merkingu og tilgang í
anda þeirrar manngæsku sem hún bar í hjarta sínu.
Hún fylgdist vel með í dagsins önn og allri þjóðmálaumræðu, var greind kona,
hafði yndi af lestri góðra bóka og las flestar þær stundir er hún hafði aflögu, sér í
lagi þjóðlegan fróðleik, sagnaminni og ævisögur. Hún hlaut í vöggugjöf næmi
fyrir íslenskri tungu og máli, var fróðleiksbrunnur, stálminnug og allsstaðar vel
með á nótunum.
Stína andaðist á Lundi þann 10. sept. 2006. Utför hennar var gerð frá Arbæjar-
kirkju 23. september 2006.
Sr. Halldóra J. Þorvarðardóttir, Fellsmúla
232