Goðasteinn - 01.09.2007, Blaðsíða 226
Goðasteinn 2007
kona hans er Inga Guðmundsdóttir en fyrri kona hans er Margrét Valsdóttir. Þau
slitu samvistir. Næstelst er Guðrún Bryndís, búsett í Reykjavík. Fyrri maka sinn,
Jón Arnason. missti hún 1999 en býr nú með Sigurði Héðni Harðarsyni. Þriðja í
röðinni er Hafdís Erna, búsett á Bifröst í Borgarfirði. Fyrri maður hennar er
Hjálmar Guðmundsson. Þau skildu. Sambýlismaður Hafdísar er Fredrik Alan
Jónsson. Yngstur er Sævar Logi, búsettur á Hellu, í sambúð með Fjólu Lárusdótt-
ur. Barnabörn Harðar voru við lát hans 16, þar af 15 á lífi, og langafabörnin 22.
í Reykjavík var starfsvettvangur Harðar í lögreglunni. Hann stundaði nám í
Lögregluskólanum vetrartíma 1950-1951 og í lögreglunni þjónaði hann í 22 ár, frá
1950 til 1972, síðast sem varðstjóri. Hann starfaði mikið að umferðaröryggis-
málum í lögreglunni, þjónaði í vegalögreglunni um skeið, var virkur í undirbún-
ingi skiptingar yfir í hægri umferð hér á landi vorið 1968 og kenndi umferðarmál
við Lögregluskólann í fjögur ár eftir það. Hann vann ötullega að starfi klúbbsins
Öruggur akstur og var þar í forystu um skeið. Einnig vann hann að undirbúningi
stofnunar lögreglukóra í höfuðborgum Norðurlandanna og söng sjálfur með
Lögreglukórnum í Reykjavík. Hörður var áhugasamur og frambærilegur félags-
málamaður sem hvarvetna vildi láta gott af sér leiða. Honum var létt um að flytja
mál sitt frammi fyrir fólki, hafði prýðilega frásagnargáfu sem nýttist honum vel
þegar gott málefni var annars vegar og miðla þurfti mikilvægum fróðleik og
upplýsingum.
Hörður og Erla fluttust búferlum frá Reykjavík í Rangárvallahrepp árið 1972,
þegar Hörður gerðist aðstoðarforstöðumaður við Vistheimilið Akurhól í Gunnars-
holti og þau hjón settust að í Akurhóli. Þau kunnu þeim vistaskiptum vel og sam-
löguðust vel mannlífi og samfélagi á Rangárgrund. Hörður gekk í Lionsklúbbinn
Skyggni á Hellu 1973 og var frá upphafi áhugasamur og öflugur félagi sem hélt
málstað Lionshreyfingarinnar fast fram og lét sitt ekki eftir liggja við fjáröflun
fyrir góð og mikilvæg málefni hennar. Hann var löngum í forystusveit klúbbsins á
heimaslóð en var falið það veigamikla verkefni að gegna starfi umdæmisstjóra í
Lionsumdæmi 109A starfsárið 1981-1982. Honum hlotnaðist verðskulduð viður-
kenning fyrir störf sín í þágu Lionshreyfingarinnar er hann var sæmdur æðstu
heiðursviðurkenningu Lionsmanna, Melvin Jones-orðunni, árið 1985.
Hörður lét af störfum í Akurhól fyrir aldurs sakir árið 1995 en þau hjón voru
búsett þar áfram til ársins 1999 er þau fluttust að Nestúni 17 á Hellu. Næstu ár léði
Hörður Félagi eldri borgara í Rangárvallasýslu krafta sína og reynslu og var þar
varaformaður um tíma.
Þrátt fyrir félagsstörfin sem oft tóku drjúgan tíma naut Hörður sín vel heima
fyrir og í faðmi fjölskyldu sinnar. Barnabörnin og langafabörnin hændust að hon-
um og juku honum gleði í sál og sól í hjarta. Hörður var menningarmaður í besta
lagi. Hann unni mjög tónlist, hlustaði mikið á hana og kunni góð skil á mörgu er
224